Uppþvottavélar er að finna á mörgum heimilum og oft á tíðum geta þessar vélar bjargað geðheilsunni sökum þess hve einfalt er að ganga frá þegar öllu er hægt að henda inn í uppþvottavélina og losna við uppvask.

Það má hins vegar ekki setja hvað sem er í þvott í uppþvottavélina og lykilráð að kíkja á leiðbeiningar frá framleiðanda þess sem þú vilt þvo. Þó oft sé hægt að treysta á leiðbeiningarnar, eru til undantekningar á því. Hér fyrir neðan eru tíu hlutir sem á aldrei að þvo í uppþvottavél.

Beittir hnífar

Þó að framleiðandinn segi að það sé í lagi að þrífa hnífinn í uppþvottavél þá er betra að vaska hann upp á gamla mátann því uppþvottavélin getur gert hnífana bitlausa.

Pottar og pönnur með „non stick“ húð

Hér gildir það sama – ekki setja þessa hluti í uppþvottavél þó framleiðandi segi það í lagi. Uppþvottavélin vinnur gegn „non stick“ húðinni og leysir hana upp með tímanum.

Kristall

Kristall getur orðið skýjaður ef hann er þveginn oft í uppþvottavél. Best er að þvo hann í höndunum.

Viður

Mjög heitt vatn getur skemmt viðaráhöld, líkt og skurðarbretti eða áhöld með viðarhandföngum. Þessa hluti er best að vaska upp og hvíla uppþvottavélina.

Ýmsar plasttegundir

Ekki setja plast í uppþvottavél nema framleiðandi segi til um að það megi. Plastílát geta skemmst í uppþvottavél ef þau eru ekki gerð til að vera þvegin á þann máta.

Einangruð drykkjarílát

Hluti eins og ferðamál fyrir kaffið á að vaska upp á gamla mátann því uppþvottavélin getur skemmt einangrunina, og þar af leiðandi ílátið.

Mælibollar með áletrun

Mælibollar sem skarta áletrun með mælieiningum eiga ekki heima í uppþvottavél, einfaldlega vegna þess að áletrunin fer af með tímanum, sem gerir mælibollann að lokum tilgangslausan.

Diskar sem búið er að líma saman

Það er þjóðráð að bjarga brotnum diskum með því að líma þá saman. Slíkir diskar mega hins vegar ekki fara í uppþvottavél því heita vatnið og þvottaefnið eyðir upp líminu. Þetta á að sjálfsögðu líka við annan borðbúnað sem búið er að líma saman.

Handmálað keramik

Best að þvo í höndunum svo listaverkin skemmist ekki.

Antikmunir og annað viðkvæmt

Uppþvottavélin svíst einskis í baráttu sinni gegn óhreinindum á meðan antíkmunir og annar viðkvæmur borðbúnaður þarf ást og umhyggju. Þessa muni er því best að þvo í höndunum.