Góð heimasíða er gulls ígildi og getur vönduð vefsíða virkilega aukið möguleika fyrirtækis að skera sig úr í frumskógi internetsins. Það er mjög mikilvægt að vanda vel til verka í undirbúningi þegar á að smíða nýja heimasíðu, en hér eru tíu atriði sem er gott að hafa í huga.

1. Hvað viltu?

Algengustu mistök fólks og fyrirtækja sem eru í vefsíðupælingum eru að fæstir vita nákvæmlega hvað þeir vilja. Fólk veit að það þarf nýja heimasíðu og er með óljósa hugmynd um hvaða tilgangi hún á þjóna en veit ekki nákvæmlega hvað það vill. Það er virkilega erfitt að vinna svoleiðis og því er afar mikilvægt að undirbúningsvinnan hefjist á því að skilgreina hvernig vefsíðan á að endurspegla fyrirtæki, vörumerki og/eða fólk.

Væntanlega er það von flestra að ný heimasíða slái í gegn. Til að það verði raunin er lykilatriði að pæla í hver kjarninn er í vörumerkinu, fyrirtækinu og/eða fólkinu sem á að sýna á þessari vefsíðu. Hvernig ætlarðu annars að slá í gegn og sigra heiminn ef þú veist ekki hver þú ert? Aukabónus er að ef vel er unnið á þessu stigi þá útrýmir það ruglingi og breytingum fram og til baka í næstu skrefum vinnunnar. Enn fremur útrýmir það ruglingi og kaos á sjálfri heimasíðunni.

2. Notendaupplifun

Þegar þú ert búin/n að ákveða hver þú ert og hvaða skilaboð þú vilt senda til fólksins sem kemur inn á síðuna er gott að ákveða hvað á að vera á heimasíðunni. Hvernig á notandinn að upplifa síðuna? Allt sem þú skrifar eða setur á síðuna þarf að endurspegla tilgang hennar og sýn. Til að auðvelda þessa vinnu er fyrirtak að þekkja sinn markhóp. Til hverra viltu ná? Hvað fílar sá hópur almennt á netinu? Hvernig heldur þú þessum hópi sem lengst á síðunni? Hvernig færðu þennan hóp til að kaupa vörur eða þjónustu? Þú skalt svara þessum spurningum en alls ekki missa sjónar á því sem þú ákvaðst í skrefi 1. Flæði á vefnum verður að vera gott og notandi þarf að finna tilganginn frá síðu til síðu á skýran hátt.

3. Veftré

Þegar þú spáir í notendaupplifun þeirra sem heimsækja síðuna er tilvalið að byrja að smíða veftré. Hvaða síður eiga að vera á heimasíðunni? Líklegast ertu með grófa hugmynd um það en það hjálpar til muna að taka sér penna og blað í hönd og einfaldlega teikna veftréð upp á gamla mátann.

Best er að byrja á aðalflokkum á síðunni og síðan spá í undirflokkum. Ekki skemmir fyrir að finna leiðir til að einfalda síðuna þannig að veftré og valmynd taki ekki yfir allan skjáinn, ef hægt að komast hjá því.

4. Ekki gleyma því augljósa

Það er hægt að gleyma sér í flokkapælingum endalaust en það er mjög mikilvægt að gleyma ekki því augljósa, eins og heimilisfangi og hvernig er hægt að ná í þann sem á heimasíðuna. Þessar upplýsingar þurfa að vera mjög skýrar, af augljósum ástæðum. Það er fátt leiðinlegra en að fara inn á heimasíðu og þurfa að skruna endalaust niður til að finna eitt netfang. Ertu ekki sammála?

5. Efni, efni, efni

Ókei, efni inni á vefsíðunni. Hljómar frekar einfalt? Það er alveg fáránlega algengt hvað fólk spáir lítið sem ekkert í því og eyðir engu í framleiðslu á góðu efni. Vefsíðan þín er samt ekkert án efnis. Magn og stíll þess efnis sem þú setur inn á vefsíðuna fer auðvitað eftir því sem þú vilt segja og endurspegla, en það er gífurlega mikilvægt að hafa gott, hágæða efni á síðunni svo hægt sé að vinna með leitarvélabestun. Ef mikil vinna og tími er lögð í efni skilar það sér í að heimasíðan sker sig úr fjöldanum og ekki skemmir fyrir að blogga reglulega svo virkni sé á síðunni.

Varðandi efnistök þá þarftu aftur að spá í markhópnum þínum. Best er að hafa blöndu af skrifuðum texta, myndum og myndböndum. Efni er hjartað í vefsíðunni og í gegnum það nærðu að tjá rödd vörumerkisins eða fyrirtækisins. Það skiptir í rauninni ekki máli hvers konar heimasíðu þú smíðar, efnið nær að miðla kjarnanum og skilaboðunum til fólks.

6. Hönnun

Hönnun er afar mikilvægur partur af því að smíða vefsíðu en oft eyðir fólk alltof miklum tíma í hönnunarpælingar og gleymir öllu hinu. Það er lítið gagn í tjúllaðslega geggjaðri hönnun ef vefsíðan nær ekki til fólks eða ef heimasíðan virkar ekki. Hönnunin á að styðja við það, ásamt öllu hinu, að fólk vilji heimasækja vefsíðuna og vera þar sem lengst. Hönnunin má ekki vinna gegn því sem við ræddum um í skrefi 1 og 2 því þá er alveg eins hægt að kveikja í peningunum.

7. Virkni

Vefsíða er ekkert án virkni. Ef það er erfitt að fara frá einni síðu til annarrar, ef vefsíðan er þung og hæg eða ef myndir birtast ekki þá hefur enginn áhuga á að vita meira um þig, fyrirtækið þitt eða vörumerki. Fyrstu kynni eru allt og því þarf virknin að vera í lagi. Hér þarf að huga vandlega að öllum viðbótum á síðunni, hvar síðan er hýst og fleira í þeim dúr svo allt virki sem best.

8. Villupófun

Það þarf að taka sér góðan tíma í að villuprófa vefsíður og virkni þeirra og gott er að fá nokkra með sér í lið til að fara í gegnum síðuna frá A til Ö, prófa hvern einasta takka og flokk til að tryggja að allar villur komi upp á yfirborðið áður en síðan opnar. Það er nefnilega svakalega sorglegt að setja síðu í loftið, eyða háum fjárhæðum í markaðssetningu og fá svo allt í hausinn því síðan virkar ekki sem skildi.

9. Greiningar

Eftir að síðan opnar er mikilvægt að hugsa vel um hana, greina umferðina á síðunni og athuga hvort eitthvað mætti betur fara. Google Analytics kemur hér sterkt inn því með því tóli má sjá heimsóknir á síðuna í rauntíma, hvaðan heimsóknirnar koma, á hvað notendur smella og hve lengi þeir staldra við, svo dæmi séu tekin. Þetta eru gríðarlega mikilvægar upplýsingar sem er vert að eyða tíma í að skoða og greina.

10. Leikur að orðum

Oft gerist það að sumar færslur eða síður á heimasíðunni þinn ná engu flug, þrátt fyrir að þær séu ansi áhugaverðar. Oft skrifast það einfaldlega á framsetningu eða orðaval. Því er mjög gott að leika sér með A/B prófanir. Í A/B prófunum eru gefnar út tvær eða fleiri útgáfur af færslu eða síðu á sama tíma og þessum útgáfum deilt út í kosmósið. Oft sér fólk ekki mikinn mun á þessum útgáfum, enda kannski aðeins fiktað við fyrirsögn, myndefni eða letur, svo dæmi séu tekin. Með því að nota A/B prófanir sjá fyrirtæki hvað virkar best á notendur og geta slíkar prófanir aukið heimsóknir og/eða sölu á vefnum til muna.