104 ára langamma grátbiður um heimsókn – „Hjálpið mér“
Hjálparkall frá konu sem heimsfaraldurinn er að buga.


Mary Fowler er 104 ára skosk kona sem býr á elliheimili. Sökum hertra samkomu- og samgöngutakmarkana á Bretlandseyjum hefur hún varla fengið að sjá börn sín og barnabörn síðustu sjö mánuði í skugga heimsfaraldurs COVID-19.
Í myndbandi sem hefur gengið manna á milli á samfélagsmiðlum reynir Fowler að halda aftur af tárunum er hún grátbiður um að fá að sjá afkomendur sína.
„Þetta er réttur minn, vinsamlegast hjálpið mér. Þetta er að fara með mig. Ég verð að sjá börnin mín. Tími minn er af skornum skammti. Ég verð að hitta börnin mín og fá aftur gömlu, góðu tímana. Hjálpið mér, vinsamlegast, hjálpið mér,“ segir Fowler í myndbandinu.
Fowler býr á elliheimili í Fife á austurströnd Skotlands. Hún ber starfsfólki heimilisins góða söguna en þráir samt sem áður að sjá fjölskyldu sína.
Cathie Russell, sem er í forsvari fyrir ættingja þeirra einstaklinga sem dvelja á elliheimilum í Skotlandi, birtir myndbandið á Twitter-síðu sinni og segir að Fowler „geti ekki meira.“
Mary Fowler aged 104 and locked in a Care home since lockdown on March is at the end of her tether @JeaneF1MSP @GrahamEllis247 pic.twitter.com/8mAvgTW3wx
— Cathie Russell (@CathHamilton1) October 21, 2020
Nú eru þær reglur í gildi í Skotlandi að aðeins einn ættingi má heimsækja aðstandendur inni á elliheimilum. Ef hægt er að hittast fyrir utan dyr elliheimilisins mega sex manneskjur, frá tveimur mismunandi heimsóknum, heimsækja aðstandanda í einn klukkutíma.