Það er mikil skuldbinding að ganga í hjónaband og ekki alltaf sem það fær farsælan endi, því miður. Fréttaveitan E! Online tók saman ráð frá nokkrum frægum hjónum sem eiga það sameiginlegt að hafa verið gift lengi. Hér er brot af því besta.

Hargitay og Hermann.

Húmor og hlátur

Leikkonan Mariska Hargitay og leikarinn Peter Hermann kynntust við tökur á sjónvarpsþáttunum Law & Order: SVU, þar sem hún leikur sjálfa Oliviu Benson og hann lögfræðinginn Trevor Langan. Þau gengu upp að altarinu í lok ágúst árið 2004.

„Ég hélt ekki að ég myndi hlæja svona mikið í hjónabandi,“ segir Hermann. „Og ég held að það sem heldur hjónabandi okkar gangandi sé að ég veit að þú [Hargitay] elskar mig eins og ég er.“

Hermann segir frá því í bókinni What Makes a Marriage Work hvernig hjónin takist á við erfiðar aðstæður, svo sem eftir hávaðasamt rifrildi.

„Annað okkar mun kanna farveginn með skrítlu um það sem við vorum að rífast um,“ skrifar hann og greinilegt að húmorinn skiptir þessi hjón miklu máli.

Sedgwick og Bacon.

Lítið rifist – mikið kynlíf

Leikarahjónin Kyra Sedgwick og Kevin Bacon gengu í það heilaga í byrjun september árið 1988. Það stendur ekki á svörunum þegar að Bacon er spurður um lykilinn að farsælu hjónabandi.

„Fyrsta ráðið mitt væri að þiggja ekki ráð frá frægu fólki,“ segir hann á gamansömu nótunum en bætir við: „Hafið rifrildin sómasamleg en kynlífið villt.“

Sedgwick segir þau rífast sjaldan og að þau séu bæði lausnarmiðuð.

„Við erum oftast bara að reyna að halda öllu í lagi því það er glatað að rífast. Þegar öllu er á botninn hvolft er nefnilega ekkert plan B. Við viljum að þetta gangi upp, sama hvað.“

Pollan og Fox.

Sanngirni

Leikarinn Michael J. Fox játaðist leikkonunni Tracy Pollan um miðjan júlí árið 1988. Fox segir að þau hafi ávallt rifist á sanngjarnan hátt.

„Í sumum hjónaböndum lítur fólk á maka sinn og sér hvar hann er varnarlaus og getur ekki haldið aftur sér að ráðast á makann þar sem hann er veikastur fyrir, líkt og um íþrótt væri að ræða. Við gerum það ekki.“

Hjónin rífast samt stundum.

„Ef ég segi eitthvað heimskulegt langar mig að taka það til baka og að allt verði í lagi aftur. En það virkar ekki,“ segir Fox og bætir við að hann reyni að gefa Pollan rými og að hún reyni að vera skilningsrík. „Stundum verður maður að segja við sjálfan sig: Sko, hann sagði svolítið asnalegt og mér leið illa. En hann er góð manneskja og ég ætla að leyfa honum að njóta vafans.“

Curtis og Guest.

Spara orðin

Leikkonan Jamie Lee Curtis og listamaðurinn Christopher Guest giftu sig í desember árið 1984. Curtis segir að húmor eiginmannsins hafi fleytt þeim langt.

„Við höfum ekki enn átt rifrildi, þar sem ég er kolbrjáluð, þar sem hann nær ekki að láta mig skellihlæja að lokum,“ segir hún og bætir við að þau hjónakornin kunni vel að leysa úr ágreiningsefnum, til dæmis með því að spara orðin og nota snertingu í staðinn til að biðjast afsökunar.

Harris og Burtka.

„Hjónaband er aldrei eins“

Leikarinn Neil Patrick Harris og kokkurinn David Burtka byrjuðu saman árið 2004 og giftu sig tíu árum síðar.

„Ég held að eitt sem hefur haldið okkur saman í öll þessi ár sé að við erum sammála um að samband sé eitthvað sem er ekki hægt að skilgreina,“ segir leikarinn. „Hjónaband er aldrei eins. Þegar maður sefur hjá sömu manneskjunni aftur og aftur verður það eins og endurtekning þannig að maður prófar nýja hluti. Einn daginn líkar okkur ekki við hvorn annan og allt í einu hrífumst við ekki af hvort öðrum þannig að maður þarf að finna leið til að hrífast aftur að makanum – en á annan hátt því við erum að eldast.“

Harris bætir því við að með tímanum laðist maður meira að sálu einhvers en líakam.

„Þannig að á skrýtinn hátt erum við alltaf að verða ástfangnir af hvorum öðrum á mismunandi hátt, aftur og aftur.“

McCarthy og Falcone.

Ekki fara reið í háttinn

Spéfuglarnir Melissa McCarthy og Ben Falcone játuðust hvort öðru árið 2005 eftir margra ára samband. Það kemur líklegast ekki á óvart að hlátur og húmor hefur haldið lífi í hjónabandinu, en einnig hollráðið að fara ekki reið að sofa.

„Ég prófaði það einu sinni og gerði mér grein fyrir því um morguninn að ég var búinn að gleyma af hverju ég var reiður. Maður fær enginn svör ef maður dregur rifrildi á langinn, báðir eru þreyttir og jafnvel búnir að fá sér drykk eða tvo,“ segir Falcone.

Danson og Steenburgen.

Aldrei nóg af klappstýrum

Leikarahjónin Ted Danson og Mary Steenburgen fundu hvort annað árið 1995, en þau höfðu bæði verið gift fyrir það. Því þurftu þau að sameina tvær fjölskyldur með börnum og öllu því sem því fylgir.

„Það er engin bók sem segir manni hvernig maður á að gera þetta. Eitt sem ég gerði mér grein fyrir strax er að þau eiga mömmu – og hún er ekki ég. Af hverju þurftu þau þá mig,“ rifjar Steenburgen upp. „Þá fattaði ég að allir þurfa klappstýru. Maður á aldrei nóg af þeim þannig að ég hef alltaf verið í því hlutverki. Ég ákvað aldrei þeirra mörk eða agaði þau eða reyndi að kenna þeim muninn á réttu og röngu. Foreldrar þeirra gerðu það.“

Danson var sammála nálgun eiginkonu sinnar.

„Mér finnst það mjög viturt að bjóða sig fram sem vin. Ég ætla ekki að aga þig og ég ætla ekki að dæma þig. Ég ætla að hanga með þér og vera til staðar fyrir þig. Og það er það sem maður þarf að gera: að vera alltaf til staðar.“

Furnish og John.

Samskipti mikilvægust

Tónlistarmaðurinn Elton John og auglýsingamógúllinn David Furnish hittust óvænt árið 1993 og felldu hugi saman. Þeir hafa eina reglu – sama hvar þeir eru staddir í heiminum þá handskrifa þeir bréf til hvors annars á hverjum laugardegi.

„Það er eitthvað andlegt og einlægt við að handskrifa,“ segir Furnish. „Bréfin gefur okkur tækifæri til að gera upp vikuna og fara yfir næstkomandi viku,“ segir John. „Þetta er hluti af velgengninni í langtímasambandi. Samskipti eru mikilvægust.“

Consuelos og Ripa.

Rifrildi skilgreinir ekki sambandið

Sjónvarpsfólkið Kelly Ripa og Mark Consuelos kynntust árið 1995 og voru gift ári síðar. Ripa segir að rifrildi þeirra í upphafi sambands hafi verið ansi hávaðasöm en síðan hafi „Mark kennt mér að ganga í burtu og draga djúpt andann. Þá fattar maður að rifrildið skilgreinir ekki hjónabandið,“ og bætir við:

„Þegar þú sérð par sem virðist vera virkilega hamingjusamt þá geturðu bókað að það hefur gengið í gegnum brjálaða hluti og lifað það af. Það er eitthvað til að vera stoltur af.“

Davis og Tennon.

Andstæðir pólar

Óskarsverðlaunaleikkonan Viola Davis gekk að eiga leikarann Julius Tennon í júní árið 2003. Hún afar innhverf og hann einstaklega úthverfur. Þau hafa hins vegar lært að lifa saman í sátt og samlyndi.

„Hjónaband hefst ekki þegar maður gengur upp að altarinu,“ segir Davis. „Hjónabandið byrjar þegar þú lítur á manneskju sem þú elskar meira en allt og það er eitthvað við hana, bara eitt einkenni sem getur gert þig brjálaðan og þú hugsar: Ég veit ekki hvort ég get höndlað þetta. Og síðan hugsaður: En veistu hvað? Ég elska þessa manneskju. Þá hefst hjónabandið.“

Tomlin og Wagner.

Ekki reiðast tvisvar

Leikkonan Lily Tomlin og rithöfundurinn Jane Wagner kynntust árið 1971 og segir Tomlin að þær reyni að leysa öll ágreiningsmál strax.

„Ég er vanalega sú sem biðst afsökunar. Það er ekki erfitt því ég elska hana og ég þoli ekki að sjá hana einmana, þó það sé ekki nema í fimm mínútur,“ segir hún og býður upp á gott ráð:

„Þegar þú ert reiður við makann og segir eitthvað særandi þá verðurðu enn þá reiðari út í þig sjálfan fyrir að segja særandi hluti við manneskju sem þú elskar. Þú verður reiður tvisvar. Það er ekki gott fyrir blóðþrýstinginn og alls ekki gott fyrir sambandið.“