Stundum leynast hætturnar nær en maður heldur, en það er ýmislegt á heimilinu sem getur verið stórhættulegt ef ekki er rétt með það farið. Hér fyrir neðan eru nokkrar leyndar hættur sem er vissara að vara sig á.

Eiturefni

Það eru fjölmörg eiturefni á heimilinu, allt frá stíflueyði til handsápu. Ekki er alltaf augljóst hvar hættan leynist, eins og kemur fram á vef Landspítalans, en um 60 prósent fyrirspurna sem berast eitrunarmiðstöð Landspítalans eru vegna barna yngri en sex ára og er mikill meirihluti þessara eitranaslys sem verða inni á heimilum. Efnin sem oftast koma við sögu eru þvotta- og hreinsiefni, lyf, plöntur, ilmvötn, rakspírar og aðrar snyrtivörur.

Um 70 til 80 prósent allra eitrana má meðhöndla heima en þegar að grunsemdir vakna eða ljóst að eitrun hefur orðið er öruggast að hringja í eitrunarmiðstöðina í síma 543 2222.

Stigar

Það er afar algengt að fólk á heimilinu slasi sig með því að detta í stiga eða tröppum. Fólk á öllum aldri á á hættu að slasa sig í stigum og mikilvægt að hafa ekkert dót, skó eða annað lauslegt í stigum. Einnig er lykilatriði að hafa traust handriði.

Þung húsgögn

Það er mjög mikilvægt að festa húsgögn við veggi, sérstaklega þung húsgögn. Frægt er orðið að IKEA hefur þurft að greiða skaðabætur vegna húsgagna sem hafa oltið yfir lítil börn því þau voru ekki fest við vegg. Stefán Rúnar Dagsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, sagði í fréttum RÚV fyrr á árinu að engin sambærileg slys hefðu orðið á Íslandi, en allur er varinn góður.

Gardínubönd

Sú frétt sem vakti mikinn óhug árið 2018 var frásögn blaðamannsins Baldurs Guðmundssonar af því þegar að sonur hans, þá þriggja ára, hafði sett gardínuband um hálsinn og var nær dauða en lífi. Drengurinn hefði getað kafnað með snúruna um hálsinn en þetta er einmitt ein af þessum leyndu hættum á heimilinu. Baldur sagði frá því á Facebook að þessi leynda hætta hefði komið aftan að fjölskyldunni.

„Við höfum alltaf haft öryggismál í öndvegi. Hulda Ösp [eiginkona Baldurs] hefur þar verið í fararbroddi. Allir skápar eru veggfastir, hjálmar og bílstólar í topplagi og ekki útrunnir, engin hreinsiefni eða lyf sem litlar hendur komast í. Við höfum rætt um gardínurnar en það samtal hefði ekki bjargað drengnum mínum í dag, ef ég hefði verið annarsstaðar í húsinu. Þetta var spurning um 20-30 sekúndur til eða frá,“ skrifaði hann og bætti við:

„Ég brást sem foreldri, með því að hafa ekki verið búinn að festa upp gardínusnúrurnar og skilja þannig eftir þessa slysagildru á heimilinu. Ég skrifa þetta í þeirri von að barnafólk lesi og yfirfari öryggisatriði á heimilinu. Í dag fékk drengurinn minn annan séns, og ég líka. Það er ekkert sjálfsagt við það.“

Potta- og pönnusköft

Það er mjög algengt að slys verði í eldhúsinu við eldamennskuna. Því er mjög mikilvægt að snúa sköftum á pottum og pönnum ávallt frá litlum höndum og að veggjum.

Eldhætta

Það er margt sem getur kviknað í á heimilinu. Á vef Eldvarnarbandalagsins er að finna góð ráð til að tryggja eldvarnir á heimilinu:

„Með traustum eldvörnum má koma í veg fyrir tjón á lífi, heilsu og eignum. Reykskynjarar eru algjört forgangsatriði. Þeir bjarga mannslífum þegar mest á reynir. Ef ekki eru nægilega margir reykskynjarar heima hjá þér skaltu bæta úr því strax. Það þolir enga bið!“

Baðkör og sturtur

Það er alvanalegt að fólk detti þegar það kemur úr sturtu eða baðkörum. Því er mikilvægt að gera viðeigandi ráðstafanir; hafa stamar mottur í sturtubotninum eða baðkarinu og jafnvel hjálpartæki, eins og handföng.

Uppþvottavélar

Litlir fingur eru fljótir að slasa sig ef þeir fikta í uppþvottavélum. Mjög mikilvægt er að láta beitta hluti, eins og hnífa, snúa niður og ekki setja of mikið af borðbúnaði úr gleri í vélina því þá á hann á hættu að brotna. Best er að hafa uppþvottavélina ávallt lokaða ef ekki er verið að setja í hana.

Mygla

Mygla í húsnæði hefur leikið landann grátt síðustu ár, en hún getur haft afar slæm áhrif á heilsu fólks og jafnvel valdið langtímaheilsubrest. Hægt er að kaupa sérstök myglupróf í byggingarvöruverslunum en einnig er hægt að ráða fagaðila í verkið.

Batterí

Rafhlöður geta innihaldið mörg ólík efni til þess að búa til rafmagn, til dæmis mangandíoxíð, járn, sink, kol, klór, tin, nikkel, kopar, salmíak og brennisteinssýru (sem er það sama og rafhlöðusýra), kemur fram á vef Úrvinnslusjóðs.

„Alkalírafhlöður og brúnkolsrafhlöður innihalda fyrst og fremst sink og járn. Í flestum hnapparafhlöðum er kvikasilfur, sem er mjög eitraður þungmálmur. Einnig eru til rafhlöður sem innihalda kadmíum og blý, sem eru hættulegir þungmálmar. Í kadmíumrafhlöðum er ennfremur nikkel. Valkostur við hinar hættulegu nikkelkadmíumrafhlöður eru nikkel-málmhýdridrafhlöður, sem eru alveg lausar við efni sem eru skaðleg umhverfinu. Sumar vistvænar rafhlöður innihalda einnig litíum.“

Það er mjög hættulegt að innbyrða rafhlöður og þá er vísað aftur á að hafa samband við eitrunarmiðstöð Landspítalans. Einnig geta rafhlöður fests í hálsi fólks.

Segulstál

Hér gildir það sama og um rafhlöður. Segulstál geta innihaldið hættuleg efni og einnig fests í hálsi.