Það kannast margir við að elda aðeins of mikið fyrir fjölskylduna og eiga afganga næsta dag. Það eru hins vegar ekki allar matvörur sem er æskilegt að hita upp aftur samkvæmt evrópska ráðinu European Food Information Council. Hér eru fimm matvörur sem þú ættir helst ekki að hita upp aftur næsta dag, eða þarnæsta.

Kjúklingur

Salmonella getur náð sér á strik ef kjúklingur er hitaður upp aftur, sérstaklega ef hann er hitaður í örbylgjuofni. Þetta á raunar við um allan fiðurfénað. Í kjúklingi er einnig meira af prótínum en í rauðu kjöti sem gerir það að verkum að við upphitun brotna prótínin niður á mismunandi hátt og það getur valdið magaverkjum.

Hrísgrjón

Áður en lengra er haldið er vert að taka fram að mjög mikilvægt er að skola hrísgrjón vel áður en þau eru elduð. Síðan er mjög mikilvægt að láta elduð hrísgrjón ekki standa á borði við stofuhita eftir matinn heldur skella þeim eins fljótt og hægt er í kulda. Ef hrísgrjónin kólna í stofuhita fara bakteríur á skrið og geta valdið matareitrun þó hrísgrjónin séu hituð vel og vandlega upp aftur.

Kartöflur

Það má í raun yfirfæra það sem gildir um hrísgrjón yfir á kartöflur. Bakterían Clostridium botolinum getur vaxið í þeim ef þær eru látnar standa eldaðar við stofuhita. Clostridium botolinum getur framleitt eiturefni sem veldur matareitrun, en bakterían drepst ekkert endilega þegar að kartöflurnar eru hitaðar upp á nýjan leik.

Sveppir

Ef sveppir eru ekki geymdir á réttan hátt getur neysla á þeim valdið magaverkjum. Forðast á að hita sveppi ef 24 klukkustundir eða meira eru liðnar síðan þeir voru hitaðir í fyrsta sinn.

Spínat og laufgað grænmeti

Þessi matvæli innihalda mikið magn nítrats, sem er gott og blessað. En þegar að slík matvæli eru hituð upp aftur getur nítrat breyst í nítrít og nítrósamín sem getur verið hættulegt, sér í lagi fyrir börn, þar sem slík matareitrun getur haft áhrif á getu blóðsins til að flytja súrefni um líkamann.