Coca-Cola, eða kók, er einn vinsælasti drykkur heims og selst óheyrilega mikið magn af honum á hverjum degi. En hvaðan kemur kók og af hverju er drykkurinn svona ávanabindandi? Við kíktum á nokkrar staðreyndir um drykkinn sem þið vissuð hugsanlega ekki.

Staðgengill morfíns

Ofurstinn John Pemberton særðist í borgarstríðinu í Bandaríkjunum á árunum 1861 til 1865. Hann þróaði með sér morfínfíkn en í leit sinni að staðgöngulyfi sem innihéldi ekki ópíum þróaði hann frumgerðina af Coca-Cola. Það gerði hann í apóteki sínu í Georgíu.

Stytta af John Pemberton.

Áfengur í byrjun

Upprunaleg uppskrift að Coca-Cola frá árinu 1885. Sú hugmynd að blanda kókaíni við vín fæddist fyrst í Frakklandi í kringum árið 1860 og átti sá drykkur marga aðdáendur, þar á meðal Viktoríu drottningu, Thomas Edison og Ulysses S. Grant.

9 milligrömm af kókaíni

Nafnið Coca-Cola er dregið af tveimur aðalhráefnum drykkjarins; kókalaufinu og kólahnetunni. Úr kókalaufinu kom kókaín en koffínið úr hnetunni. Áfengið var tekið úr Coca-Cola árið 1886 og þá stóð kókaínið og koffínið eftir. Áætlað var að hvert glas af Coca-Cola innihéldi níu milligrömm af kókaíni, en í samanburði er um fimmtíu milligrömm af efninu í einni „línu“. Magn kókaíns í Coca-Cola var minnkað jafnt og þétt frá árinu 1903.

Leynileg uppskrift

Aðeins tveir starfsmenn vita nákvæmlega hvar uppskriftina er að finna, en hún er læst í hvelfingu í Atlanta. Þessir tveir starfsmenn mega aldrei ferðast saman, svo þeir láti ekki báðir lífið og uppskriftin týnist að eilífu.

Hér má sjá nokkrar af útgáfum Coca-Cola-flöskunnar.

Múskat, kanill, kóríander…

Margar gamlar uppskriftir eru til að Coca-Cola og hugsanlega hægt að búa til keimlíkan drykk ef litið er til þeirra. Gamlar uppskriftir kveða til að mynda á um hráefni eins og appelsínur, kanil, sítrónur, kóríander, múskat, súraldin og vanillu.

Mín fyrsta dós

Frumgerð að Coca-Cola í dósum byrjaði í þróun árið 1955 og leit dagsins ljós á almennum markaði árið 1960.

Dósirnar eru ekki gamlar.

Manst’ekki eftir Tab?

Diet Coke var ekki fyrsti sykurlausi drykkurinn frá Coca-Cola heldur Tab. Tab kom á markað árið 1963 og eignaðist fljótt marga aðdáendur. Upprunalega vildu forsvarsmenn Coca-Cola ekki tengja Coca-Cola nafnið við sykurlausan drykk en þegar að þeir sáu hve vinsæll drykkurinn Diet Pepsi varð á sjöunda áratug síðustu aldar ákváðu þeir að setja Diet Coke á markað árið 1982.

Tab-ið sló í gegn.

Fyrsti drykkurinn í geimnum

Coca-Cola var fyrsti gosdrykkurinn sem var drukkinn úti í geim þegar geimfarar í Challenger drukku afbrigði af Coca-Cola, sem heitir New Coke, árið 1985. Sex árum síðar var hefðbundið Coca-Cola sent út í geim. Þá var Diet Coke fyrsti sykurlausi gosdrykkurinn til að vera drukkinn út í geim árið 1995 af geimförunum í skutlunni Discovery.