Það setur að flestum hroll þegar að minnst er á mannætur. Mannát hefur verið stundað frá örófi alda, til dæmis af menningarlegum ástæðum en einnig gripið til mannáts í mikilli hungursneyð.

Svo eru það mannætur sem hafa það eitt að markmiði að pynta og kvelja fórnarlömb sín til að leggja þau sér til munns. Það er af mörgum talinn einn versti glæpur sem hægt er að fremja.

Í gegnum tíðina hafa slíkar mannætur reglulega komist í fréttir og vekja slík mál ávallt mikinn óhug. Hér verður farið yfir nokkrar frægar mannætur, en við vörum viðkvæma við efninu.

Jeffrey Dahmer

Ætli Dahmer sé ekki frægasta mannæta síðustu ára, en hann var loksins handtekinn árið 1991, um þrjátíu árum eftir að hann framdi fyrsta morðið aðeins átján ára gamall.

Það mætti segja að Dahmer væri djöfull í mannsmynd. Hans einkennismerki var að lokka unga drengi í íbúð sína í Milwaukee í Wisconsin í Bandaríkjunum, fylla þá af lyfjum, búta þá niður og borða þá. Hann myrti alls sautján manns á ævinni og hefði eflaust haldið áfram ef átjánda fórnarlambið hefði ekki komist undan og gert lögreglu viðvart.

Jeffrey Dahmer.

Maður finnur til með lögreglumönnunum sem þurftu að rannsaka heimili Dahmer og fara í gegnum allar eigur hans. Í íbúðinni fannst mannakjöt sem var hálfeldað, þrjú höfuð fundust í frystinum, tvær hendur, getnaðarlimur og heil beinagrind. Auk þess að borða fórnarlömb sín var hann einnig þekktur fyrir að bora göt í höfuðkúpur fórnarlambanna og sprauta sýru inn í þær.

Dahmer var dæmdur í margfalt lífstíðarfangelsi en var barinn til dauða í fangelsi í Milwaukee árið 1994.

Armin Meiwes

Hinn þýski Meiwes setti auglýsingu á bloggsíðu árið 2001 þar sem hann leitaði að hraustum karlmanni á árunum 18 til 30 ára sem hann gæti „slátrað og étið.“ Þótt ótrúlegt megi virðast vakti auglýsingin mikla athygli, en bloggsíðan sem hún var birt á var tileinkuð mannáti og þeim sem hrifnir voru af slíku athæfi.

Margir menn hins vegar guggnuðu þegar að koma að því að hitta Meiwes en einn hafði taugarnar í það, maður að nafni Bern Jurgen Armando Brandes.

Armin Meiwes.

Meiwes og Brandes hittust þann 9. mars árið 2001 í Rotenburg í Þýskalandi. Þeir tóku upp á myndband þegar að Meiwes skar getnaðarlim Brandes af og reyndi að borða hann. Meiwes fannst kjötið heldur seigt og gaf því hundinum sínum liminn.

Er Brandes blæddi út gaf Meiwes honum áfengis- og fíkniefnakokteil áður en hann stakk hann í hálsinn, með þeim afleiðingum að hann lést. Meiwes skar líkið í bita sem hann frysti og borðaði næstu tíu mánuðina.

Meiwes var handtekinn árið 2002 og dæmdur fyrir manndráp árið 2004. Hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi.

Jose Luis Calva.

Jose Luis Calva

Lögreglan bankaði upp á hjá Calva í Mexíkóborg árið 2007 og ætluðu að spyrja hann út í hvarf kærustu hans, Alejandra Galeana. Þá var Calva að gæða sér á mannakjöti sem hann hafði bragðbætt með sítrónusafa, en kjötið var af kærustu hans.

Calva reyndi að sleppa í gegnum glugga en lögreglan náði að klófesta hann. Við nánari skoðun fannst lík Galeana í bitum í íbúðinni, mannakjöt í ísskápnum, meira mannakjöt í pönnu á eldavélinni og mannabein í morgunkornskössum. Þá fann lögreglan einnig bók um mannát og mynd af Hannibal Lecter úr kvikmyndinni The Silence of the Lambs frá árinu 1991.

Calva var fundinn sekur um tvö morð og dæmdur í 84 ára fangelsi. Hann hengdi sig í fangaklefa sínum í desember árið 2007.

Albert Fish

Fish var kallaður Grái maðurinn en hann myrti og borðaði tíu ára stúlku, Grace Budd, í New York árið 1928. Fyrir það hafði hann myrt fjölmarga einstaklinga víðs vegar um Bandaríkin.

Fish vingaðist við fjölskyldu Grace Budd og fékk að taka hana með sér í afmælisveislu. Þau komust aldrei í veisluna því Fish kyrkti litlu stúlkuna, skar líkið í bita og eldaði bitana í kássu með lauk og gulrótum.

Albert Fish.

Lögreglan náði honum tveimur árum síðar eftir að hann hafði skrifað fjölskyldu Grace litlu Budd bréf þar sem hann lýsti því nákvæmlega hvernig hann drap hana.

„Fyrst tók ég hana úr fötunum. Hún barðist aðeins um og klóraði mig. Ég kyrkti hana til dauða og skar hana síðan í litla bita,“ stóð í bréfinu. „Það tók mig níu daga að borða allan líkama hennar.“

Fish var tekinn af lífi í hinu fræga Sing Sing-fangelsi árið 1936.

Joachim Georg Kroll

Joachim Georg Kroll.

Kroll myrti alls fjórtán manneskjur á tuttugu ára tímabili og skráði sig í sögubækurnar sem einn versti raðmorðingi Þjóðverja.

Það nægði Kroll ekki að drepa saklaust fólk heldur borðaði hann einnig kjöt kvennanna og stúlknanna sem hann drap.

Leit að fjögurra ára, týndri stúlku árið 1976 leiddi lögreglu að íbúð Krolls. Þar fundu lögreglumennirnir leifar af líki stúlkunnar sem og líkamsparta í ísskápnum og litla hendi sem var að sjóða í potti á eldavélinni.

Kroll hélt því fram að hann hefði borðað fórnarlömb sín til að spara peninga. Hann játaði á sig fimmtán morð og var dæmdur fyrir átta af þeim. Hann hlaut lífstíðardóm árið 1982 en lést úr hjartaáfalli í fangelsi árið 1991.

Omaima Nelson

Nelson fæddist í Egyptalandi en flutti til Bandaríkjanna á níunda áratug síðustu aldar. Síðar gekk hún að eiga William Nelson, mann sem var 33 árum eldri en hún.

Hún hélt því fram að eiginmaðurinn hefði brotið á henni kynferðislega og hún hefndi sín með því að drepa hann árið 1991, skera hann í bita, elda kjötið og borða á heimili þeirra í Costa Mesa í Kaliforníu. Þá var hún aðeins 23ja ára gömul. Omaima sagði að um væri að ræða egypska helgiathöfn til að hindra að hún myndi hitta eiginmanninn framhaldslífinu.

Omaima Nelson.

Við réttarhöld kom fram að Omaima hefði eldað rif eiginmannsins með barbíkjúsósu, djúpsteikt hendur hans og soðið höfuð hans. Hún var dæmd í 25 ára til lífstíðarfangelsisvistar.

Otty Sanchez

Otty Sanchez.

Mál Otty Sanchez er sérstaklega viðbjóðslegt þar sem hún stakk þriggja vikna gamlan son sinn til dauða árið 2009, hlutaði hann í bita og borðaði kjötið. Sanchez át hluta af heila hvítvoðungsins sem og nokkrar tær.

Lögreglumenn í San Antonio í Texas í Bandaríkjunum sem voru fyrstir á staðinn sögðust hafa orðið orðlausir þegar þeir sáu líkamsleifar litla drengsins. Sanchez hélt því fram að þetta hefði verið djöfullinn að verka, að hann hafi hvatt hana til voðaverksins, en á meðan hún gekk frá litla barninu sváfu systir hennar og systurdætur í næsta herbergi.

Sanchez var metin ósakhæf sökum geðveilu og hefur verið vistuð á geðdeild síðan árið 2010.

Mauerova-fjölskyldan

Hin tékkneska Mauerova-fjölskylda tilheyrði kvalalostasöfnuði. Meðimir fjölskyldunnar festu tvo unga bræður í búri, en bræðurnir tengdust kvölurum sínum fjölskylduböndum.

Yfir átta mánaða tímabil var drengjunum misþyrmt ítrekað, sem fór loks þannig að yngri bróðirinn var húðflettur og meðlimir fjölskyldunnar borðuðu kjötið af honum hrátt. Hann sjálfur var einnig neyddur til að borða sitt eigið kjöt.

Mauerova-fjölskyldan.

Pyntingarnar voru sýndar í beinni í eldhúsi fjölskyldunnar í gegnum barnavöktunarbúnað. Það varð þeim að falli þegar að nágranni þeirra setti upp sinn eigin vöktunarbúnað og datt óvart í tíðni Mauerova-fjölskyldunnar.

Fimm fjölskyldumeðlimir hlutu fangelsisdóma frá fimm og upp í tíu ár.

Stephen Griffiths

Griffiths þessi hafði rannsakað raðmorðingja er hann vann að doktorsgráðu sinni í afbrotafræði í háskóla í Yorkshire í Englandi. Það kveikti morðlosta í Griffiths.

Stephen Griffiths.

Hann lagði á ráðin að drepa þrjár vændiskonur árið 2010. Hann síðan skar þær í bita, eldaði kjötið og borðaði það. Hann tók eitthvað upp á myndband af ódæðunum á heimili sínu í Bradford, sem hann kallaði sjálfur „sláturhúsið.“

Hann var sakfelldur fyrir morðin og honum sagt að hann myndi aldrei sleppa úr fangelsi.

Jorge Negromonte, Isabel Pires og Bruna Oliveira

Negromonte hefur verið kallaður Sweeney Todd-mannætan en hann, ásamt eiginkonu sinni Isabel Pires og ástkonu sinni Bruna Oliveira, lokkaði ungar konur á heimili þremenninganna í Garanhuns í Brasilíu og buðu þeim vinnu sem barnfóstrur áður en þau drápu konurnar og borðuðu kjöt þeirra í villimannslegri hreinsunarathöfn.

Pires notaði restina af kjötinu til að gera hefðbundnar, brasilískar kjötbökur. Þegar að lögreglan náði loks að góma þremenninganna sagði einn lögreglumannanna sem rannsakaði málið að hann hefði löngum verið hrifinn af heimagerðu kjötbökum Pires.

Bruna Oliveira, Jorge Negromonte og Isabel Pires.

Þegar að málið var rannsakað nánar kom í ljós að Negromonte hefði slátrað ungri konu fyrir framan átján mánaða gamla dóttur hennar og gefið barninu kjötið af móður sinni að borða.

Þremenningarnir voru sakfelldir fyrir þrjú morð og fengu um sjötíu ára fangelsisdóma hvert.

Austin Harrouff

Austin Harrouff.

Harrouff var fyrirmyndarungmenni, nítján ára gamall háskólanemi sem bjó með fjölskyldu sinni í Tequesta í Flórída í Bandaríkjunum. Eitt kvöld árið 2016 yfirgaf hann heimili sitt í fússi og réðst inn í bílskúr hjónanna John Stevens og Michelle Mischon. Harrouff stakk þau til dauða og réðst á nágranna þeirra.

Þegar að lögreglumenn mættu á staðinn var Harrouff að naga andlit Stevens, en Harrouff man ekkert eftir atvikinu og man ekki af hverju hann gerði þetta.

Hann er nú í meðferð við geðklofa í Martin County fangelsinu og fer fyrir dómstóla síðar á þessu ári þar sem hann er ákærður fyrir tvö morð.

Anthony Morley

Anthony Morley.

Morley var 36 ára þegar hann myrti 33ja ára gamlan kærasta sinn, Damian Oldfield árið 2008. Morley stakk Oldfield ítrekað eftir að þeir tveir höfðu horft á kvikmyndina Brokeback Mountain. Morley bútaði líkið síðan niður og eldaði kjötið.

Morley mun eyða ævinni á bak við lás og slá.

Tamara Samsonova

Raðmorðingi sem oft er kallaður Amma kviðristir. Samsonova drap að minnsta kostið ellefu manns og var grunuð um að borða líffæri fórnarlamba sinna. Sagt er að hún hafi verið sérstaklega hrifin af lungunum.

Samsonova hélt dagbók um voðaverk sín og játaði margt fyrir lögreglunni í Sankti Pétursborg í Rússlandi. Mikhail Timoshatoy, rannsóknarlögreglumaður, sagði eitt sinn í viðtali að „Tamara Samsonova sagði að hún svæfði fyrst vini sína og bútaði þá síðan niður á meðan þær væru enn lifandi.“

Lögreglan óttaðist einnig að Samsonova hefði drepið eiginmann sinn, en hann hvarf árið 2005. Hann hefur aldrei fundist.

Tamara Samsonova.

Samsonova var handtekin árið 2015 og er enn verið að rannsaka ýmis morð sem hún er grunuð um. Amma kviðristir er vistuð á spítalanum í Kazan á meðan á rannsókninni stendur þar sem hún gengst undir meðferð við geðveilu.