Ég er rosalega mikil súpukona og er ávallt á höttunum eftir nýjum og spennandi uppskriftum í þeim efnum. Ég er mjög hrifin af þessari súpuuppskrift sem ég fann á matarvefnum Delish, en töfraráðið til að fá krakka til að borða súpur er einmitt að mauka þær, eins og gert er hér.

Njótið í skammdeginu!

Einstök sætkartöflusúpa

Hráefni:

4 sneiðar beikon, skornar í bita
1 meðalstór rauðlaukur, saxaður
2 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
1 ½ tsk sjávarsalt
½ tsk pipar
smá cayenne pipar (má sleppa)
3 sætar kartöflur, afhýddar og skornar í teninga
4 bollar kjúklingasoð
safi úr 1 læm

Aðferð:

Takið til stóran pott og eldið beikonið yfir meðalhita. Þerrið á pappírsþurrku og haldið eftir um það bil 1 matskeið af fitunni sem verður eftir í pottinum. Bætið lauk í pottinn og steikið í 5 mínútur. Bætið hvítlauk saman við og steikið í 2 mínútur til viðbótar. Kryddið með salti, pipar og cayenne. Bætið kartöflum og soði saman við og náið upp suðu. Lækkið þá hitann og látið malla í um hálftíma. Maukið súpuna með töfrasprota og hrærið læmsafa saman við. Berið fram og skreytið með beikoni.