Þessa uppskrift fann ég á matarvefnum Delish, en þeir sem eru ketó geta til dæmis borið hann fram með blómkálshrísgrjónum. Þeir sem eru ekki á ketó geta soðið hrísgrjón eða pasta og gúffað þessu í sig með bestu lyst.

Ketó kjúklingaréttur

Hráefni:

4 beikonsneiðar
680 g kjúklingalæri
salt og pipar
1 lítill rauðlaukur, saxaður
225 g sveppir, skornir í sneiðar
1 búnt timjan
3/4 bolli kjúklingasoð
3/4 bolli rjómi
1/3 bolli rifinn parmesan
safi úr 1/2 sítrónu
fersk steinselja, til að skreyta með

Aðferð:

Eldið beikonið í stórri pönnu yfir meðalhita þar til það er stökkt, eða í um 8 mínútur. Þerrið sneiðarnar á pappírsþurrku en skiljið eftir um það bil 2 matskeiðar af beikonfeiti í pönnunni. Saltið og piprið kjúklinginn. Hækkið hitann og setjið kjúklinginn í pönnuna með skinnið niður. Steikið í um 5 mínútur, snúið við og eldið í 5 mínútur til viðbótar. Takið kjúklinginn úr pönnunni og setjið til hliðar. Setjið lauk á pönnuna og eldið í um 5 mínútur. Bætið sveppum við og saltið og piprið. Hrærið reglulega og eldið í um 5 mínútur. Bætið soði, rjóma, parmesan, timjan og sítrónusafa og náið upp suðu í blöndunni. Látið malla í 5 mínútur. Setjið kjúklinginn aftur á pönnuna og eldið í um 10 mínútur, eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn og sósan farin að þykkna. Saxið beikonið og stráið yfir kjúklinginn áður en hann er borinn fram.