Grey’s Anatomy-leikkonan Caterina Scorsone skrifar hjartnæman pistil fyrir Good Morning America um þriggja ára dóttur sína, Paloma Micheala, sem í daglegu tali er kölluð Pippa. Pippa er með Downs-heilkennið og skrifar Scorsone pistilinn í tilefni af því að október er tileinkaður vitundarvakningu um Downs-heilkenni á alþjóðavísu.

„Pippa er með Downs-heilkenni. En Pippa er ekki Downs-heilkenni. Pippa er Pippa. Pippa er frábrugðin öðrum. Það erum ég og þú líka,“ skrifar leikkonan og heldur áfram.

„Sjónræn skynjun hennar er þannig að það er auðveldara fyrir hana að læra út frá myndum og prentuðum orðum en að heyra kennara halda fyrirlestur. Hún gat lesið einföld orð þegar hún var þriggja ára en var lengur en systur hennar til tals vegna mun á hreyfiþroska og vöðvabyggingu. Hún er lítil miðað við aldur en augu hennar eru vitur. Hún segir alltaf það sem hún meinar og hefur enga þolinmæði fyrir flónum.“

Scorsone á einnig dæturnar Elizu, átta ára, og Lucindu, tíu mánaða, með fyrrverandi manni sínum, Rob Giles. Leikkonan segir að Pippa sé með sérþarfir út af líkamsbyggingu sinni og bendir á að allar manneskjur séu með einhverjar sérþarfir til að þrífast í lífinu.

„Svo Pippa geti náð sínum markmiðum, þrifist og uppfyllt drauma sína þá þarf hún sérstakan stuðning. Ég þarf hann líka.“

Scorsone vill fremur nota orðið sannsýni en jafnrétti þegar kemur að sérþörfum dóttur sinnar.

Mæðgurnar á góðri stundu.

„Sannsýni fagnar fjölbreytileikanum. Jafnrétti getur átt það til að þurrka út fjölbreytileikann og skapað þar af leiðandi misrétti og ójöfnuð fyrir fullt af fólki,“ skrifar hún.

„Pippa þarf meðferðir sem eru hannaðar til að styðja við frábrugðna færni hennar og líkamlegar áskoranir svo hún geti fengið sömu tækifæri og ég. Hún þarf á því að halda að fólk sem lítur út eins og hún sé sýnilegra í fjölmiðlum svo fólk sjái hana sem hluta af samfélaginu þeirra og þannig að hún geti samsvarað sér með metnaðarfullum einstaklingum sem hún sér í sjónvarpinu og fjölmiðlum,“ bætir hún við.

„Þegar hún vex úr grasi þarf hún stuðning við lífsleikni sína (eins ogsvo margir) og við að finna starf sem passar við hennar kunnáttu og hæfileika.“

Scorsone endar pistilinn á einlægum nótum.

„Sama hve marga litninga við höfum, hver kynvitund okkar er, hve mikinn pening við eigum í bankanum, hvernig húð okkar er á litinn eða hvernig kennsla virkar best á okkur þá hafa manneskjur sömu þarfirnar. Við þurfum ást, öryggi, reisn og tengsl. En manneskjur eru mismunandi, við erum sérstök og við þurfum að vera elskuð og studd á okkar hátt.“