Ó, Maltesers. Við hittumst á ný!

Hér er enn á ný uppskrift úr bókinni minni, Minn sykursæti lífsstíll, en myndirnar tók Sunna Gautadóttir, ljósmyndari.

Ég veit ekki með ykkur en mér finnst Maltesers gjörsamlega ávanabindandi nammi. Ég á í ástar-haturssambandi við það. Ég elska hvað það er gott en hata að ég fæ mig ekki til að stoppa átið eftir að ég byrja. Nútímavandamál í hnotskurn.

Fyrir þá sem vilja ekki, þora ekki eða nenna ekki að baka er þetta kjörið kruðerí. Ofureinfalt, stökkt og brakandi.

Mynd: Sunna Gautadóttir.

Maltesers-bitar

Hráefni:

250 g hafrakex
220 g mjólkursúkkulaði
220 g hvítt súkkulaði
180 g smjör
4 tsk síróp
310 g Maltesers

Aðferð:

Takið til kassalaga form sem er 20×20 sentímetra stórt. Klæðið það með smjörpappír og leyfið honum að ná aðeins upp hliðarnar. Myljið kexið í spað. Setjið smjör, súkkulaðið og síróp í skál sem þolir örbylgjuofn og hitið í 30 sekúndur í senn þar til allt er bráðnað. Hrærið vel saman. Hrærið hafrakexinu saman við smjörblönduna með sleif eða sleikju. Takið um 20 Maltesers-kúlur frá og blandið restinni saman við smjörblönduna með sleif eða sleikju. Hellið blöndunni í formið og þrýstið niður með skeið. Þrýstið síðan Maltesers-kúlunum sem þið tókuð frá ofan í kökuna. Leyfið kökunni að jafna sig í ísskáp í um 4 klukkustundir. Þessi er svakaleg!