Uppskriftin hér fyrir neðan er af bloggsíðunni Better Than Bread Keto. Ég féll algjörlega fyrir einfaldleikanum í þessari uppskrift, enda elska ég fátt meira en einfalt bakkelsi.

Þessi kaka er ketó og því gætuð þið þurft að gera ykkur sérverslunarferð til að kaupa hráefnin, en treystið mér – þessi kaka er þess virði!

Ketókaka með jarðarberjum

Hráefni:

1 bolli möndlumjöl
4 msk. smjör
¾ bolli rjómi, þeyttur
½ bolli fersk jarðarber
225 g mjúkur rjómaostur
2 – 3 tsk. Erythritol (malað sem minnir á sykur. Hér má nota allt að ½ bolla)

Aðferð:

Bræðið smjör og blandið saman við möndlumjölið. Þrýstið blöndunni í botninn á litlu, eldföstu móti eða kökuformi. Ekki hafa formið stærra en sirka 17 sentímetra að ummáli. Skerið jarðarberin smátt eða maukið þau í blandara. Þeytið rjómann og blandið honum saman við rjómaostinn, Erythritol og jarðarberin. Hellið þessu yfir botninn og kælið í að minnsta kosti klukkutíma. Þessi kaka endist og endist í frysti og minnir á ístertu þegar hún er frosin.