Það fylgir því mikil ábyrgð að giftast inn í bresku konungsfjölskylduna. Alls kyns reglur sem þarf að fylgja. Þetta þekkir hertogaynjan Kate Middleton vel, en hún hefur fylgt þessum reglum frá A til Ö síðan hún gekk að eiga Vilhjálm prins árið 2011.

Hér fyrir neðan eru nokkrar furðulegar reglur sem Kate þarf að fylgja, en reglubókin er þykk og því aðeins stiklað á stóru.

Engar eiginhandaráritanir

Hertogaynjan má aldrei gefa aðdáendum eiginhandaráritun. Hún má eingöngu skrifa undir opinber skjöl sem Elísabet drottning hefur samþykkt. Þessi regla á að sporna við því að undirskrift kóngafólks sé fölsuð. Hins vegar má taka myndir af hertogaynjunni í gríð og erg.

Hámaðu í þig

Þegar að Kate borðar með drottningunni þarf hún að hætta að borða um leið og drottningin er búin að snæða. Þetta á við um allt kóngafólk og alla matargesti sem borða með drottningunni. Því þarf Kate að hafa hraðar hendur ef hún er sérstaklega svöng.

Blátt bann við skelfiski

Kóngafólk í Bretlandi má ekki borða skelfisk eða hrátt kjöt þegar það fer út að borða eða ferðast utanlands. Þessi regla var sett til að forðast matareitrun eða ofnæmisviðbrögð.

Hvítlaukur í útrýmingarhættu

Drottningin hatar hvítlauk svo mikið að hann er bannaður í höllinni. Kate má eiga og elda með hvítlauk á sínu eigin heimili en þegar hún er í viðurvist drottningar er stranglega bannað að neyta hvítlauks.

Falleg fjölskylda.

Nei við kossaflensi

Það er litið hornauga ef kóngafólk er of ástúðlegt við maka sinn á almannafæri. Því verður Kate að halda sig í ákveðinni fjarlægð frá eiginmanninum þegar að þau eru á meðal fólks og alls ekki kyssast eða knúsast.

Stjórnmál eiga ekki heima í höllinni

Kate má ekki tjá sig um stjórnmál, hvorki í heimalandinu né annars staðar, og hún má heldur ekki kjósa í heimalandinu. Þetta síðarnefnda er ekki bannað með lögum heldur siður sem kóngafólk hefur tileinkað sér.

Bitur reynsla

Það er fátt skemmtilegra en að setjast niður með fjölskyldunni og spila. Það er hins vegar eitt borðspil sem konungsfólkið má alls ekki spila og það er Matador. Ástæða þess að Matador er bannað er sú að keppnisharkan hleypur með þátttakendur í gönur. Þessi regla byggir á biturri reynslu.

Svart um borð

Kate, líkt og annað kóngafólk, þarf alltaf að pakka niður svörtu dressi þegar hún ferðast ef svo óheppilega vildi til að einhver skyldi hrökkva upp af á meðan hún er í burtu. Þá þarf hún að snúa til baka til Bretlands í sorgarklæðum.

Vel snyrtar neglur.

Hógværð

Það gilda ýmsar reglur um klæðaburð og þarf Kate til dæmis að passa að hún sýni aldrei brjóstaskoru. Þá mega fötin heldur ekki vera æpandi eða skræpótt. Ímyndin þarf að vera hrein og fín og mega fötin ekki spilla henni. Kate þarf einnig að halda fingranöglum vel snyrtum og má eingöngu lakka þær í hlutlausum tónum.

Handabandið

Kóngafólk skal halda augnsambandi við þann sem það heilsar með handabandi og hrista höndina aðeins tvisvar til að forðast það að snerta almúgafólk of lengi eða láta líta út fyrir að sumir fá sérmeðferð.

Kate má ekki kvarta undan óþægindum á meðgöngu.

Hættu að væla

Kate hefur ekki mátt kvarta og kveina á meðgöngunum. Þá er stranglega bannað að væla yfir óþægindum eða tala um einhver vandamál tengd meðgöngunni. Óléttar konur í konungsfjölskyldunni þurfa að líta út fyrir að vera fullkomnar öllum stundum. Kóngafólk má heldur ekki gráta á almannafæri sem hlýtur að vera svakalega erfitt – sérstaklega í jarðarförum.

Samfélagsmiðlar

Kate má ekki halda úti persónulegum reikningum á samfélagsmiðlum. Nærveru hennar á samfélagsmiðlum er stjórnað af starfsmanni krúnunnar sem velur gaumgæfilega hvert orð sem birtist á internetinu um konungsfjölskylduna.

Já, takk!

Kate má aldrei neita gjöf frá almúganum. Kóngafólk verður að veita öllum gjöfum viðtöku og brosa.

Tekið við gjöf en Kate má ekki afþakka gjafir frá almenningi.