YouTube-stjarnan Corey La Barrie lést síðastliðinn sunnudag, 10. maí, aðeins 25 ára að aldri. Hann hélt uppi vinsælli YouTube-rás þar sem hann var með mörg hundruð þúsund fylgjendur, og var talinn eiga góða möguleika á frekari velgengni á sviði samfélagsmiðla.

Móðir hans og bróðir staðfesta í færslum á Instagram að La Barrie hafi lent í bílslysi á 25 ára afmælsidegi sínum. La Barrie var farþegi í bíl þar sem ökumaðurinn var drukkinn. Ökumaðurinn lifði slysið af, en hann klessti fyrst á umferðarskilti og síðar á tré.

„Ég hélt að ég myndi aldrei sitja hér og skrifa þetta en það eiga allir rétt á að fá að vita að bróðir minn, Corey, lést í gærkvöldi eftir bílslys þar sem vinur hans var fullur að keyra,“ skrifar bróðir hans, Jarrad La Barrie, á Instagram.

„Þetta er það erfiðasta sem ég hef nokkurn tímann þurft að gera og ég veit ekki hvernig ég að gera þetta án þín. Ég sakna þín svo mikið nú þegar og þetta er ekki sanngjarnt. Takk fyrir að vera besti bróðir í heimi. Ég elska þig svo mikið. Lífið verður ekki samt án þín. Hvíl í friði,“ bætir hann við.

Ekki er búið að gefa út ákæru á hendur ökumanninum en samkvæmt TMZ mun hann líklega verða handtekinn.

Fjölmargir vinir og kunningjar YouTube-stjörnunnar hafa vottað fjölskyldunni samúð á samfélagsmiðlum, svo sem Ethan Dolan sem tilheyrir hinu vinsæla tvíeyki Dolan Twins.