Hvað er Facefit / Andlitsmótun?

Facefit / Andlitsmótun er blanda af andlitsrækt/-æfingum og líkamsstöðu.

Kennarinn minn í andlitsmótun, Fumiko, fyrrum háskólakennari, lenti í slæmu bílslysi, skekktist á líkama og í andliti. Hún var staðráðin í því að leita sér hjálpar við að rétta og laga það sem fór úrskeiðis og leitaði hún meðal annars til augnlæknis síns, tannlæknis síns og í gömul jógafræði, hvað varðar að gera æfingar fyrir andlitið. Hún gerði tilraunir á sjálfri sér og sá að æfingarnar virkuðu. Fumiko ákvað að þetta yrði hennar fegrunarleyndarmál og ætlaði að halda þessu út af fyrir sig. Hún fékk mikið hrós fyrir hve fljót hún var að ná sér hvað varðar útlit sitt og það sem kom henni mest á óvart var hversu húðin sjálf varð fersk, glóandi og sléttari, en hún var áður með slæma húð, þar sem húðin hennar var oft á tíðum alltof feit og var stundum alþakin í bólum.

Það leið ekki á löngu þar til að hún þráði að deila leyndarmálinu sínu og setti í gang æfingakerfi fyrir eingöngu andlitið sjálft. Fyrst setti hún upp æfingakerfi í Japan sem var hannað eingöngu fyrir andlit. Fumiko starfaði í Japan sem andlitsmótunarkennari í einhver ár, kom fram í sjónvarpsþáttum og var metsöluhöfundur í Japan.
Einhvern tímann á leiðinni ætlaði hún að láta gott heita og hætta að kenna en bráðnaði þegar hún hafði verið að kenna karlmanni í hjólastól sem kom sérstaklega til hennar eftir á og þakkaði henni fyrir þar sem að fólk var að dásama hann og tala um hvað hann liti vel út.

Fumiko gerði góða hluti í Japan í dágóðan tíma og langaði að fara að snúa sér að öðru, flutti með eiginmanni sínum til Bandaríkjanna og fannst hún vera búin með þennan pakka að kenna andlitsmótun. Mágkona hennar gekk á eftir henni að byrja með Face Yoga (andlitsjóga) í Ameríku og það tók Fumiko þrjú ár að slá til. Og þar kem ég inn. Ég er svo heppin að vera ein af fyrstu vottuðu útskrifuðu leiðbeinendum Face Yoga Method hennar utan Japan.

Það sem að þessar æfingar gera er að þær kenna þér hvernig þú getur þjálfað andlitsvöðvana til að öðlast stinnari, mýkri, sléttari húð og mótaðra andlit. Andlitsæfingarnar hjálpa þér að öðlast meira sjálfstraust, eflir og hressir húðlitinn og andlitið verður smá saman bjartara, geislandi og unglegra.

Það sem gerist er að meira og betra blóðflæði myndast, meira súrefnisstreymi og meiri næring til frumna. Tjáning þín breytist og allar stresslínur fjara út. Þetta er náttúruleg leið fyrir geislandi, yngra útlit.

Andlitsæfingarnar efla meðvitund þína og þú munt með tímanum verða meira meðvituð/aður um hvernig þú getur stjórnað vöðvum andlits þíns á góðan hátt.

Að brjóta á bak og burt slæmar venjur, slaka á andliti þínu og slaka á huga þínum í leiðinni. Við höfum tilhneigingu til að halda svo mikilli spennu í andliti okkar, án þess að taka eftir því. Tennur gnísta, ennið herpist og krumpast, hnykklum augabrúnir og fleira. Þegar við sleppum spennunni í andliti okkar, getum við einnig sleppt spennu í huganum. Líkaminn þinn og hugur eru svo tengd að þessi slæmi ávani er í raun að valda þér streitu í huga þínum og birtist sem óæskilegar línur á andlitinu. Heillandi, en satt! Við notum huga okkar og einbeitum okkur að því svæði sem við erum að vinna á og með því að einbeita okkur að önduninni náum við að slaka betur á og hvíla huga og líkama á sama tíma.

Hvernig virkar Andlitsmótun?

Í okkar daglega lífi notum við ómeðvitað suma andlitsvöðva of mikið, of oft eða of lítið. Við þjálfum líkama okkar til að byggja upp vöðva til að líta betur út og öðlast heilbrigðara líf. Á sama hátt getum við þjálfað andlit okkar til að líta betur út og öðlast mótað, heilbrigt og geislandi andlit.

Þegar þú stundar andlitsrækt á morgnana þá vekur þú upp vöðvana í andlitinu, þú verður meira meðvituð/aður allan daginn hvernig þú notar vöðvana, hvernig þú tjáir þig og ferð smá saman að venja þig af slæmum venjum.
Þegar þú stundar andlitsrækt á kvöldin, hjálpar það þér að slaka á andlitinu og einnig að laga það sem þú gerðir rangt allan daginn.

Andlitsvöðvarnir sem stjórna andlitsdrættum/andlitstúlkun eru viðkvæmir, litlir, fíngerðir og flatir. Þegar við notum sömu vöðvana trekk í trekk ómeðvitað yfir daginn byrjar húðin að mynda sýnilegar línur og með tímanum hrukkur.
Við erum með nálægt sextíu vöðva í andlitinu. Þessir sextíu vöðvar eru mjög uppteknir og vinna mikið allan daginn, eins og þegar við erum að tala, tyggja, brosa, hlæja, gretta okkur/herpa andlitið, kyssa, gráta…

Andlitsmótunar æfingarnar eru frábærar því að þær hjálpa þér smám saman að vera meira meðvituð/aður um hvernig þú notar vöðvana í andlitinu og þú munt venja þig af slæmum venjum. Andlitsvöðvarnir styðja við efra lag húðarinnar, þess vegna hafa vöðvarnir mikil áhrif á yngingarmátt húðarinnar.