Bandaríkjamaðurinn Thomas Macias heimsótti vini í borginni Lake Elsinore, rétt fyrir utan Los Angeles, í júní síðastliðnum og skemmti sér í grillveislu með þeim. Stuttu síðar byrjaði hann að veikjast og var greindur með kórónuveiruna þann 18. júní. Tveimur dögum síðar skrifaði hann færslu á Facebook þar sem hann harmaði að hafa stefnt lífi fjölskyldu sinnar í hættu, en Macias hafði brotið fjarlægðartakmarkanir og sleppt því að vera með grímu í grillveislunni.

„Ég klúðraði málunum fyrir nokkrum vikum og fékk kórónuvírusinn,“ skrifaði Macias á Facebook. „Út af heimsku minni stefndi ég lífi móður minnar, systur minnar og fjölskyldu minnar í hættu. Það hefur reynst mér þungbært,“ bætti hann við. Í framhaldinu bað hann Facebook-vini sína að fara varlega.

„Þetta er ekki grín. Þið verðið að fara út með grímu og halda fjarlægð. Ekki vera fáviti eins og ég. Vonandi næ ég að lifa þetta af með Guðs hjálp.“

Macias lést daginn eftir að hann skrifaði færsluna, 51 árs að aldri.

Macias var með sykursýki og því var hann í sérstakri hættu á að veikjast alvarlega af COVID-19. Gustavo Lopez, sem er kvæntur systur Macias, segir í samtali við CNN að Macias hafi staðið sig vel í fjarlægðartakmörkunum og sóttvörnum áður en hann fór í grillveisluna en að hann hafi ákveðið að hitta vini sína þennan örlagaríka dag því honum fannst hann vera að einangrast.

„Hann saknaði vina sinna og fjölskyldu. Þannig að um leið og takmörkunum var létt að einhverju leyti þá fannst honum hann vera frjáls og því miður fór hann í þessa veislu til að vera með vinum sínum.“

Stuttu eftir veisluna hafði vinur Macias, sem einnig var í veislunni, samband við hann og sagðist vera með kórónuvírusinn. Sá vinur vissi af því áður en hann mætti í veisluna en var viss um að hann myndi ekki smita neinn því hann var ekki með einkenni. Lopez segir að tólf gestir veislunnar, fyrir utan Macias, hafi greinst jákvæðir með veiruna eftir grillið.