Kelly Stone, systir leikkonunnar Sharon Stone, berst nú fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi en hún greindist nýverið með COVID-19. Eiginmaður hennar, Bruce Singer, liggur einnig þungt haldinn á sjúkrahúsi af sömu sökum. Leikkonan kennir þeim um sem ekki bera grímur á almannafæri.

„Þetta er herbergið hennar á spítalanum,“ skrifar Sharon Stone á Instagram og lætur fylgja mynd af herberginu þar sem systir hennar hvílir. „Eitt af ykkur sem bera ekki grímur gerðuð þetta.“

Kelly Stone hefur sjálf skrifað á Instagram að hún hafi farið eftir öllum sóttvarnarreglum, enda er hún í áhættuhópi þar sem hún er með sjálfsofnæmissjúkdóminn rauða úlfa. Í færslu Sharon Stone kemur fram að Kelly hafi eingöngu heimsótt apótek til að kaupa nauðsynjar og þar hafi hún líklegast smitast.

Leikkonan hefur einnig birt myndband á Instagram þar sem hún segir að COVID-19 hafi tekið sinn toll af fjölskyldu hennar.

„Amma mín dó úr COVID og guðmóðir mín dó úr COVID. Systir mín og eiginmaður hennar berjast nú fyrir lífi sínu,“ segir Sharon.

Kelly og eiginmaður hennar voru í Montana í Bandaríkjunum þegar þau smituðust og Sharon gagnrýnir hve illa er staðið að skimunum þar.

„Eina sem breytir þessu er ef þið kjósið og kjósið [Joe] Biden og Kamala Harris, því konur í valdastöðu munu berjast fyrir fjölskyldunum í landinu. Þær berjast fyrir fólki,“ segir hún og bætir við:

„Hvað sem þið gerið – ekki kjósa morðingja.“