Aðdáendur þáttanna um piparjónkuna, The Bachelorette, eru ekki parsáttir við nýjasta þáttinn í seríunni. Telja flestir að piparjónkan Clare Crawley hafi gengið of langt, hún hafi niðurlægt vonbiðla sína og einhverjir taka svo djúpt í árinni að það ætti að kæra hana fyrir kynferðislegt áreiti.

ATHUGIÐ – Í textanum hér fyrir neðan er farið lauslega yfir það sem gerðist í þættinum. Ef þú ert ekki búin/n að horfa og vilt ekki láta spilla þættinum þá skaltu ekki skruna lengra niður.

.
.
.
.
.
.
.
.
.

Í þessum umdeilda þætti, sem sjónvarpsrýnar hafa sagt vera einn þann skringilegasta sem raunveruleikasjónvarp hafi boðið upp á í gegnum tíðina, var vonbiðlunum skipt í tvö lið og kepptu þeir á móti hvorum öðrum í „dodgeball“, sem svipar til brennibolta. Rétt áður en leikurinn hófst kom piparjónkan mönnunum á óvart og tilkynnti þeim að leikurinn yrði í fatafellustíl, þar sem liðið sem tapaði umferð þyrfti að fara úr einu klæði eftir hvert tap. Endaði þetta þannig að tapliðið var alsnakið eftir keppnina og sigurliðið fékk að fara með piparjónkunni á hópstefnumót.

„Þetta er minn leikur. Mínar reglur,“ sagði Crawley þegar hún tilkynnti um reglurnar, en þegar að leikurinn var búinn var aðeins einn vonbiðill sem neitaði að fara úr öllu. Nöktu mennirnir gengu síðan heim með skottið á milli lappanna á meðan sigurliðið fagnaði með piparjónkunni og fékk sér kampavín.

Fyrrverandi keppendum misboðið

Aðdáendur þáttanna, bæði hérlendis og erlendis, hafa tjáð sig um þetta atriði og það sýður á þeim, vægast sagt. Fyrrverandi keppandi í Bachelorette, J.P. Rosenbaum, segir atriðið anga af kynjamisrétti.

„Ég geri mér grein fyrir að þetta „stefnumót“ verður gagnrýnt harðlega en getið þið ímyndað ykkur deilurnar sem myndu blossa upp ef þetta væri The Bachelor og stelpurnar afklæddust? #kynjamisrétti,“ skrifar hann á Twitter.

Annar fyrrverandi keppandi þáttanna og fyrrverandi piparsveinn í The Bachelor, Ben Higgins, tjáir sig um þáttinn í hlaðvarpsþættinum The Ben and Ashley I Almost Famous Podcast.

Ben Higgins.

„Ég held að við sjáum öll tvöfalda siðgæðið. 100 prósent. Mjög augljóst tvöfalt siðgæði birtist í þættinum. Ég veit ekki hvort þátturinn er að reyna að senda skilaboð eða ekki en ég horfði á þetta og prófum að snúa þessu við í smá stund. Þetta myndi aldrei gerast í The Bachelor. Ekki séns að þeir kæmust upp með þetta. Þetta er aldrei viðeigandi,“ segir hann og bætir við:

„Kannski er ég brjálaður en mér fannst þetta vera djarfasta stefnumót sem ég man eftir í The Bachelor. Það er farið yfir strikið í hverri þáttaröð. Það gerist alltaf eitthvað umdeilt. Þetta var rosalegt. Ég hefði ekki tekið þátt í svona stefnumóti. Ég á ekkert endilega í erfiðleikum með að vera nakinn og hlaupa um. Ég veit ekki hvort það er rétt eða rangt. Mér hefði bara liðið mjög óþægilega með þetta.“

Í liði með feðraveldinu

Ama Kwarteng, pistlahöfundur hjá tímaritinu Cosmopolitan, skrifar langan pistill um þáttinn. Hún telur að þessi tilraun Crawley til að gefa feðraveldinu fingurinn hafi mistekist hrapalega og snúist í höndunum á henni.

„Ég held að framleiðendur hafi viljað að þetta stefnumót væri gamansamt. Svona, horfið á okkur, við erum að breyta handritinu! Með því að neyða karlmennina til að afklæðast átti Clare að vera við stjórnina, að ráða og gefa feðraveldinu fingurinn. En í hreinskilni sagt þá sannar þetta að það vald er nátengt karlmennsku, þannig að til að Clare gæti sýnt að hún væri í raun við stjórnvölin þá þurfti hún að sýna að hún hefur vald yfir líkömum annarra, eins og karlmennirnir sem halda að þeir geti sagt konum hverjum þær mega sofa hjá; karlmennirnir sem taka ákvarðanir um æxlunarfæri kvenna; karlmennirnir sem reiðast þegar að kona sýnir engin viðbrögð þegar þeir hrópa að henni kynferðisleg orð. Clare hélt að hún væri að stinga upp í „Manninn“ þegar hún var í raun að taka þátt í leiknum þeirra.“

„Mér býður í alvöru við þessu“

Twitter er haugafullt af athugasemdum aðdáenda um þáttinn og er þeim ekki skemmt.

„Getið þið ímyndað ykkur ef The Bachelor léti hóp af konum spila fatafellubrennó? Hann yrði tekinn af dagskrá samstundis,“ skrifar einn.

„Mér býður í alvöru við þessu. Þetta myndi ALDREI gerast á hinn veginn þar sem konur spiluðu fatafellubrennó þannig að það ætti ekki að neyða karlmenn í þetta heldur,“ skrifar annar.

Enn annar aðdáandi telur að hægt sé að kæra piparjónkuna.

„Fatafellubrennó? Það ætti að kæra hana fyrir kynferðislega áreitni.“

„Þetta var svo smekklaust“

Í íslenska aðdáendahóp þáttanna á Facebook, Bachelor Beibs, fara konur mikinn um þetta útspil Clare Crawley. Viðbrögð íslenskra aðdáenda eru á svipaða leið og þeirra erlendu.

„Þetta var svo smekklaust, skil ekki hvers vegna karlmenn eiga að láta koma svona fram við sig á meðan það yrði aldrei leyft ef keppendur væru konur,“ skrifar ein kona innan hópsins. Annar aðdáandi yrði ekki hissa ef allir keppendurnir myndu hreinlega labba út.

„Ég er eiginlega orðlaus eftir þennan þátt- yrði ekki hissa ef þeir myndu allir bara fara!“

Mörgum innan hópsins líkar við þessa færslu:

„Klara hvað er að!!! Hefði þetta verið í lagi ef kynjum hefði verið skipt? Einfalt svar er NEI!!! Og nei þetta var ekki ok, jafnréttis tal er hræsni ef þetta er ok því þetta voru gaurar.“