Nú hefur heimurinn þurft að lifa með COVID-19 síðan snemma á þessu ári og virðist ekkert lát á samkomutakmörkunum og útgöngubönnum. Það reynir á að vera læstur inni með sínum nánustu, daginn út og inn, og hefur flosnað upp úr ýmsum samböndum á þessum fordæmalausu tímum.

Hér eru nokkur fræg sambönd sem lifðu heimsfaraldurinn ekki af.

Charli D’Amelio og Chase Hudson

TikTok-stjörnurnar tilkynntu að þau væru hætt saman þann 13. apríl síðastliðinn.

„Mér finnst sárt að segja það en við höfum ákveðið að þetta sé best fyrir okkur bæði,“ skrifaði D’Amelio á sögu sína á Instagram en bætti við að þau Hudson væru enn góðir vinir. Óljóst er hvenær þau byrjuðu saman nákvæmlega en fyrir sambandsslitin höfðu þau verið saman um nokkurt skeið.

Matthew Perry og Molly Hurwitz

Friends-leikarinn Matthew Perry og umboðskonan Molly Hurwitz hættu saman í byrjun maí eftir fjögurra mánaða samband.

Olivier Sarkozy og Mary-Kate Olsen

Skilnaður hjónanna eftir fimm ára hjónaband var staðfestur um miðjan maí. Upprunalega sótti Olsen um skilnað um miðjan apríl en ferlinu var slegið á frest vegna COVID-19.

Megan Fox og Brian Austin Green

Leikarahjónin staðfestu það um miðjan maí að tíu ára hjónabandi þeirra væri lokið.

„Ég mun ávallt elska hana,“ sagði Green í hlaðvarpsþætti sínum …With Brian Austin Green. „Ég veit að hún mun ávallt elska mig og við höfum búið til fallega og sérstaka fjölskyldu.“

Fox og Green eiga saman þrjá syni, þá Noah, Bodhi og Journey.

Lili Reinhart og Cole Sprouse

Riverdale-leikaraparið hættu saman í maí, átta mánuðum eftir að þau byrjuðu saman. Eftir að þau hættu saman heyrðust fregnir af því að þau hefðu ekki getað dílað við heimsfaraldur kórónuveiru saman og verið í sjálfskipaðri sóttkví á sitthvorum staðnum.

Sofia Richie og Scott Disick

Í lok maí voru sambandsslitin staðfest en Richie og Disick höfðu þá verið saman í tæp þrjú ár. Sóttkví tók sinn toll á Disick sem féll og þurfti að fara í vímuefnameðferð í kjölfarið. Stuttu eftir meðferðina hættu þau Richie saman.

Julianne Hough og Brooks Laich

Hough og Laich tilkynntu um skilnaðinn þann 29. maí, tæpum þremur árum eftir að þau gengu í það heilaga.

„Við elskum og virðum hvort annað og höldum því áfram,“ sögðu þau í fréttatilkynningu til fjölmiðla. Stuttu áður en skilnaðurinn var staðfestur höfðu miðlar vestan hafs sagt af því fréttir að hjónin væru í sóttkví í sitthvoru lagi.

Colton Underwood og Cassie Randolph

Þetta par felldi hugi saman í 23. þáttaröð af The Bachelor en sögðu aðdáendum sínum að þau væru hætt saman þann 29. maí síðastliðinn. Þau fóru í sóttkví saman og stóð Randolph þétt við bakið á Underwood þegar hann greindist með COVID-19 í vor. En síðan var gamanið búið.

„Þetta hafa verið stormasamir mánuðir, svo vægt sé til orða tekið, og við Cass höfum verið að líta mikið inn á við,“ skrifaði Underwood á Instagram. „Stundum á fólk bara að vera vinir og það er allt í lagi. Við höfum vaxið mikið sem persónur og farið í gegnum margt saman. Þetta er ekki endirinn á sögunni okkar, þetta er byrjunin á nýjum kafla.“

Kelly Clarkson og Brandon Blackstock

Clarkson sótti um skilnað við eiginmann sinn til sjö ára í byrjun júní. Þau voru í sóttkví með börnunum sínum tveimur, River Rose og Remington Alexander, þegar þau ákváðu að skilja.

Clarkson ræddi um skilnaðinn í spjallþætti sínum, The Kelly Clarkson Show, fyrir stuttu.

„Ég er vanalega mjög opin manneskja og tala um allt en varðandi þetta mál mun það að mestu verða innan fjölskyldunnar, því ég set alltaf börnin mín í forgang. Það spyrja margir hvernig mér líður og ég hef það bara ágætt. Ég mun samt sem áður ekki tala mikið um þetta en mögulega mun ég semja tónlist í kringum þessa lífreynslu.“

Í viðtali við Today líkti hún einkalífi sínu við ruslahaug í kjölfar skilnaðarins.

Dr. Dre og Nicole Young

Dre. Dre og Nicole Young gengu í það heilaga árið 1996, eignuðust soninn Truice árið 1997 og dótturina Truly árið 2001. Í lok júní sóttu þau hins vegar um skilnað.

Ryan Seacrest og Shayna Taylor

Seacrest og Taylor hafa átt í stormasömu sambandi síðustu átta árin og hafa stundum verið í sundur og stundum saman. Í lok júní hættu þau saman í þriðja sinn en eru enn góðir vinir.

Tracy Morgan og Megan Wollover

Þessu tæplega fimm ára hjónabandi lauk í lok júlí, en parið á dótturina Maven saman.

Paris Jackson og Gabriel Glenn

Þær fréttir voru staðfestar í byrjun ágúst að dóttir poppkóngsins Michael Jackson væri hætt með hljómsveitarfélaga sínum úr Soundflowers eftir rúm tvö ár saman.

Miley Cyrus og Cody Simpson

Söngkonan og tónlistarmaðurinn skildu í góðu um miðjan ágúst eftir að þau áttuðu sig á því að þau væru meiri vinir en elskhugar.

Gerard Butler og Morgan Brown

Skoski leikarinn og fyrirsætan hættu saman um miðjan ágúst eftir sjö ár saman. Sambandið var stormasamt en þau sáust fyrst opinberlega saman í september árið 2014.

Cardi B og Offset

Cardi B sótti um skilnað við Offset um miðjan september, tæpum þremur árum eftir að þau létu pússa sig saman. Þau eignuðust dótturina Kulture í júlí árið 2018 og fer Cardi fram á að hafa forræði yfir stúlkunni, en það andar köldu á milli Cardi og Offset.

Demi Lovato og Max Ehrich

Lovato og Ehrich byrjuðu saman í miðjum heimsfaraldri, eða í mars síðastliðnum, og trúlofuðu sig í júlí. Undir lok september var ballið búið.