Shaun Weiss er hvað þekktastur fyrir að leika Greg Goldberg í kvikmyndunum The Mighty Ducks, D2: The Mighty Ducks og D3: The Mighty Ducks þegar hann var barn. Þá hefur honum einnig brugðið fyrir í The King of Queens, Family Law og Freaks and Geeks.

Weiss í hlutverki sínu í Mighty Ducks-myndunum.

Weiss hefur ekki unnið í bransanum um langa hríð, en hann sökk djúpft ofan í vímuefnaneyslu eftir að hann missti báða foreldra sína fyrir nokkrum árum. Hann hefur einnig komist í kast við lögin síðustu ár og var til að mynda handtekinn í janúar á þessu ári fyrir að brjótast inn í bílskúr. Þá var Weiss í amfetamínvímu.

Weiss með vini sínum, Drew Gallagher.

Það var eftir þessa síðustu handtöku í janúar sem vinur Weiss, Drew Gallagher, ákvað að grípa í taumana og reyna að hjálpa vini sínum að komast aftur á beinu brautina. Það hefur gengið vel hingað til, en nú hefur Weiss verið edrú í 230 daga og breytingin á honum er ótrúleg. Gallagher segir að vinur sinn þurfi fyrst og fremst á læknisaðstoð að halda.

„Hann er veikur. Hann er andlega veikur. Hann er einfaldlega veikur og allir gefast upp á honum,“ sagði hann í samtali við People fyrr á þessu ári.

Vinirnir fyrir stuttu.

Gallagher hefur hafið söfnun á GoFundMe til að safna peningum svo Weiss geti komið aftur undir sig fótunum. Eitt af því sem Weiss þurfti hvað mest á að halda var að komast til tannlæknis, en amfetamínneyslan hafði gereyðilagt tennurnar hans. Tannlæknirinn Gabe Rosenthal tók Weiss upp á arma sína og hefur krukkað í munninum á honum alveg ókeypis.

Weiss hefur alls þurft að gangast undir fjórar aðgerðir á gómi og er hvergi nærri búinn í meðferð hjá doktor Rosenthal. Læknirinn býst við því að tennurnar á Weiss verði komnar í toppstand snemma á næsta ári en í heildina mun Rosenthal gefa vinnu að andvirði áttatíu þúsund dollara. Peningarnir úr söfnuninni á GoFundMe munu hins vegar fara í húsaleigu og ýmsar nauðsynjavörur fyrir Weiss.

Allt annað að sjá Weiss í dag.