Handritshöfundurinn Steve Bing lést í gær, mánudaginn 22. júní, 55 ára að aldri. Bing stökk niður af 27. hæð í lúxusíbúð sinni í Century City í Los Angeles. TMZ skýrir frá.

Bing var öflugur í fjárfestingum í kvikmyndaiðnaðinum og fjárfesti til að mynda 80 milljónum dollara í myndinni The Polar Express, sem sló í gegn í kvikmyndahúsum. Þá var hann framleiðandi á tónleikamynd Rolling Stones, Shine A Light, sem leikstýrt var af Martin Scorsese. Þá leikstýrði hann til dæmis einum þætti af Married… With Children. Hann var einnig mikill mannvinur, gaf háar fjárhæðir til góðgerðarmála og var mikill fasteignajöfur.

Bing byrjaði með ofurfyrirsætunni Elizabeth Hurley árið 2000, stuttu eftir að hún hætti með leikaranum Hugh Grant. Tæpum tveimur árum síðar tilkynnti Hurley að hún gengi með barn athafnamannsins. Bing þvertók fyrir að vera faðir barnsins en faðernispróf leiddi annað í ljós. Bing skipti sér lítið af syninum Damian Hurley, sem nú er 18 ára, en studdi fjárhagslega við bakið á honum.

Bing skilur einnig eftir sig dótturina Kiru Bonder en móðir hennar er tennisstjarnan Lisa Bonder.