Lisa Allison, 33 ára ensk kona, tók svo sannarlega að sér stórt verkefni þegar hún keypti sér þriggja herbergja íbúð í bænum Blidworth í Nottinghamskíri í nóvember í fyrra. Það þurfti að taka íbúðina í gegn frá A til Ö og Allison átti fimm þúsund pund, eða tæplega níu hundruð þúsund krónur, til verksins. Hún kýldi á það og lauk endurbótum á íbúðinni á aðeins fjórum vikum. Nú er talið að Allison hafi aukið virði íbúðarinnar um 2,5 til 3,5 milljónir króna.

„Ég keypti heimili mitt á góðu verði vegna alls sem þurfti að gera við það þannig að ég vissi að ég myndi auka virði íbúðarinnar en ég var hissa um hve mikið ég jók það,“ segir Allison í samtali við vefsíðuna LatestDeals.co.uk. Með viðtalinu fylgja ótrúlegar myndir af íbúðinni, fyrir og eftir breytingarnar.

Íbúðin var ekki mikið fyrir augað.

Allison ætlaði hins vegar ekki að gera upp hús þegar hún byrjaði að leita að íbúð í september í fyrra.

Nú nýtur boginn í stofunni sín.

„Ég var búin að safna fyrir eign í langan tíma og ég var að leita þó ég væri ekkert að flýta mér að kaupa,“ segir Allison. „Ég setti ekkert fyrir mig að mála en ég var klárlega ekki að leita eftir því að endurbæta heilt hús. Síðan sá ég þetta hús í fullkomnu hverfi og á frábæru verði. Ég sá það daginn sem það fór á sölu, bauð í það og tilboðið var samþykkt þegar ég var búin að skoða húsið þrisvar sinnum í viðbót.“

Gamla eldhúsið.
Nýja eldhúsið.

Sér ekki eftir neinu

Allison var spennt en brátt runnu á hana tvær grímur og taugarnar létu á sér kræla þegar að rann upp fyrir henni hve mikil vinna væri fólgin í að koma eigninni í stand.

„Ég vissi að þetta yrði mikil vinna en ég féll fyrir eigninni og byrjaði að pæla í öllu sem ég gæti gert til að breyta henni í heimili. Ég hélt að þetta yrði auðvelt en mér skjátlaðist hrapalega. Ég sé samt ekki eftir þessu.“

Óspennandi baðherbergi.
Bjartara og skemmtilegra baðherbergi.

Þemað í húsinu er bleikt og gyllt, en þegar að Allison hafði ákveðið það hafði hún aðeins fjórar vikur til að umbreyta húsinu fyrir jól. Hún gat hins vegar aðeins tekið sér tveggja vikna frí í vinnunni og því vann hún aðeins um helgar fyrstu tvær vikurnar.

„Ég vildi gera eins mikið sjálf og ég gat til að halda kostnaðinum niðri,“ segir hún. „Fyrri helgina braut ég niður vegg í eldhúsinu og reif innréttinguna niður. Síðan komu múrarar stuttu seinna til að laga eldhúsið. Seinni helgin var notuð í að fara með rusl á haugana, rífa gólfefni af og taka ofna í burtu.“

Sniðugar lausnir

Þær tvær vikur sem Allison fékk í frí frá vinnu fóru í að klára eldhúsið og skreyta önnur rými í húsinu. Flesta daga vann Allison frá sjö á morgnana til tíu á kvöldin í húsinu. Mesti kostnaðurinn fólst í að endurnýja eldhúsið, þó að Allison hefði gert eitthvað sjálf eins og að setja saman skápa og mála. Vinur hennar hjálpaði henni að mála en faðir hennar tók rafmagnið í gegn. Allison réð iðnaðarmenn til að múra, laga ofna og í önnur verk sem þurftu fagmannshendur. Allt sem hún keypti inn í húsið fann Allison ódýrt á netinu, keypti á útsölu eða notað.

Bleikt er þemað.

Þar sem peningar voru af skornum skammti þurfti Allison að finna sniðugar lausnir við ýmsu – til dæmis inni á baðherbergi. Í staðinn fyrir að eyða morðfjár í flísar og flísaleggingar ákvað hún að skella dúk á baðherbergisgólfið. Þá keypti hún sniðugt sturtugler með spegli svo rýmið sýnist stærri. Að öðru leyti fengu innréttingar og blöndunartæki að halda sér á baðherberginu – þau fengu bara smá yfirhalningu.

Gefur góð ráð

Allison þurfti einnig að taka garðinn í gegn en faðir hennar hjálpaði henni við að lengja pallinn sem var fyrir. Síðan fékk hún notuð garðhúsgögn gefins frá foreldrum sínum sem Allison málaði. Allison gefur síðan öðrum góð ráð eftir þessa miklu vinnu.

Svona leit garðurinn út.

„Gerið eins mikið og þið getið sjálf,“ segir hún. „Ég vissi að ég gæti skreytt hús en ég hafði ekki hugmynd um að ég gæti lagt gólf, fjarlægt ofna, brotið niður veggi eða breytt innstungum. Það eru svo margar sýnikennslur á netinu að maður getur lært nánast hvað sem er.“

Allt annar garður.

Allison mælir einnig með því að leita að notuðum hlutum sem fást fyrir lítið eða gefins. Þá sé alltaf hægt að pússa upp, mála eða gera upp.

„Þegar kemur að iðnaðarmönnum þá mæli ég með að spyrjast fyrir í kringum þig til að reyna að fá góðan díl eða ráða einhvern sem hefur verið mælt með. Ódýrast er ekki alltaf best þannig að látið innsæið ráða þegar þið veljið iðnaðarmenn. Ekki vera hrædd við að spyrja hvort þið getið lækkað kostnaðinn ef þið aðstoðið sjálf. Þannig sparaði ég mér fimm hundruð pund í eldhúsinu.“

Kósí á sumrin.