Dásamlegt ketó hvítlauksbrauð
Brauð sem maður fær einfaldlega ekki nóg af.


Ketó mataræðið er gríðarlega vinsælt en þó að ég sé ekki ketó þá prófa ég stundum uppskriftir sem eru hentugar fyrir lágkolvetnalífsstílinn. Eins og þetta hvítlauksbrauð, en uppskriftina fann ég á matarvefnum Delish. Þetta brauð er einfaldlega æði og virkilega saðsamt!
Hvítlauksbrauð
Hráefni:
1 bolli rifinn ostur
½ bolli möndlumjöl
2 msk. rjómaostur
1 msk. hvítlaukskrydd
1 tsk. lyftiduft
salt
1 stórt egg
1 msk. smjör, brætt
1 hvítlauksgeiri, smátt saxaður
1 msk. fersk steinselja, söxuð
1 msk. rifinn parmesanostur
Aðferð:
Hitið ofninn í 200°C og setjið smjörpappír á stóra ofnplötu. Setjið rifinn ost, möndlumjöl, rjómaost, hvítlaukskrydd, lyftiduft og salt í skál sem þolir örbylgjuofn. Hitið í örbylgjuofni í um mínútu, eða þar til osturinn er bráðnaður. Hrærið eggi saman við. Hellið deiginu á ofnplötuna og mótið brauðhleif úr því. Blandið smjöri, hvítlauk, steinselju og parmesan saman í lítilli skál og penslið deigið með blöndunni. Bakið í 15 til 17 mínútur, eða þar til brauðið er fallega gullinbrúnt.