Á fasteignavefjum landsins kennir ýmissa grasa og þeir sem standa vel á þessum fordæmalausu tímum hafa úr ýmsu að velja þegar að kemur að rúmgóðum og reisulegum húsum.

Fréttanetið tók saman þau hús sem mest er sett á, en taka þarf til greina að ásett verð fylgir ekki öllum húsum sem eru til sölu.

Sóleyjargata 29

101 Reykjavík
Stærð: 401,9 m²
Ásett verð: 240.000.000 kr.

Hægt er að fjárfesta í þessu fallega húsi á bestu stað í borginni og nota sem annað hvort fjölskylduhús eða gistiheimili. Arkitektinn Sigurður Guðmundsson teiknaði húsið fyrir Thor Thors og var húsið byggt árið 1933. Í húsinu eru níu svefnherbergi og sjö baðherbergi – talandi um endalausa möguleika!

Ránargata 16

101 Reykjavík
Stærð: 310,6 m²
Ásett verð: 235.000.000 kr.

Þetta raðhús við Ránargötu er byggt í þremur hlutum og í dag eru átta stúdíóíbúðir í því og ein risíbúð. Því væri annað hvort hægt að nýta þetta fyrir afar stóra fjölskyldu eða leigja út einingar. Á fasteignavef eru einungis myndir af húsinu að utan en í lýsingunni stendur að húsið hafi verið mikið endurnýjað, jafnt að innan sem utan.

Fischersund 3

101 Reykjavík
Stærð: 253,8 m²
Verð: 210.000.000 kr.

Þetta reisulega hús í Grjótaþorpinu er í dag fullbúið gistiheimili og með tilskilin leyfi sem slíkt. Húsið var endurbyggt árið 1992 en vel hægt að nýta það undir stóra fjölskyldu og leigja út hluta af því. Nú er gistiheimilið rekið undir nafninu Reykjavík Treasure B&B en allt sem fylgir rekstrinum, þar á meðal nafnið, tæki, tól og húsbúnaður, fylgir með í kaupunum.

Bergstaðir

801 Selfoss
Stærð: 226,3 m²
Verð: 200.000.000 kr.

Þeir sem vilja flytja í sveitakyrrðina gætu haft áhuga á þessu einbýlishúsi á austurbakka Tungufljóts, en því fylgir gróin 55 hektara jörð. Um er að ræða 123 fermetra einbýlishús ásamt rúmleg 120 fermetra kjallara og frístandandi bílskúr, sem er rúmleg 100 fermetrar að stærð. Nóg pláss fyrir sköpun og góðar stundir.

Bjarkargata 6

101 Reykjavík
Stærð: 396,4 m²
Verð: 198.000.000 kr.

Búið er að endurnýja alla eiginina sem samanstendur af tveimur baðherbergjum og sjö svefnherbergjum. Fullkomin stærð fyrir stóra fjölskyldu þar sem allir þurfa sitt pláss. Húsinu fylgir bílskúr sem búið er að innrétta sem stúdíóíbúð með baðherbergi, sturtu og litlu eldhúsi. Því er möguleiki á aukatekjum með því að leigja út bílskúrinn.