„Pabbi minn er spilafíkill. Þegar ég var barn tapaði hann aleigunni, datt í það og keyrði fullur á tré. Ég held að hann hafi ætlað að drepa sig.“

Þetta segir ung kona á höfuðborgarsvæðinu sem vill ekki koma fram undir nafni af virðingu við föður sinn. Hún verður héðan í frá kölluð María. Frásögn hennar er birt á vefnum lokum.is.

Eftir að faðir Maríu keyrði fullur á tré fór hann í fangelsi í nokkra mánuði og þurfti að byrja lífið frá byrjun. Í fyrstu gekk það eins og í sögu.

„Hann náði sér á strik, edrú og laus við spilakassana í 25 ár, fékk góða vinnu og eignaðist aftur íbúð og bíl. Svo fékk hann heilablóðfall, jafnaði sig ágætlega en varð gleyminn. Þegar hann þurfti að hætta að vinna sjötugur þá fór honum að leiðast og byrjaði að kikja aftur í spilakassana,“ segir María.

Tapaði milljón á tveimur vikum

Fíknin ágerðist og ekki leið á löngu áður en faðir hennar var farinn að tapa hundruðum þúsunda í spilakössum.

„Í hvert sinn sem ég komst að því að hann hefði farið í spilakassa lofaði hann að fara ekki aftur. Einn daginn kom ég í heimsókn og hann sagðist þurfa að sýna mér svolítið, opnaði skúffu og hún var full af seðlum. 350 þúsund sagði hann, sem hann hafði unnið í spilakassa. Ég fékk áfall og ákvað að kíkja á netbankann hans sem ég fór inn á með honum mánaðarlega til að borga reikninga. Þá sá ég að peningurinn hans var horfinn. Hann hafði eytt 1.100.000 krónum í spilakassa á tveimur vikum, eftir að hann vann þessar 350.000 krónur,“ segir María og heldur áfram.

„Pabbi lofaði að fara aldrei aftur í spilakassa en hann er með framheilaskaða og veit ekki hvað hann gerir, ef hann kemst í kassa þá getur hann tæmt reikninginn sinn á augabragði. Hann er gamall, hann kann ekki á tölvu og hann hefur ekki lengur færni til að veðja á neitt en spilakassar eru auðveldir, hann getur alltaf farið í þá.“

María er því fullviss um, og veit raunar, að faðir hennar mynd ekki velja annan farveg fyrir spilafíkn sína en spilakassa. Henni misbýður að spilakassar séu notaðir í fjáröflunarskyni.

„Það ætti enginn að hagnast á óförum annarra, sérstaklega ekki hjálparsamtök. Gerið það lokið spilakössunum.“

***

Lokum er árvekniherferð sem hefur það markmið að leiða íslensku þjóðina í allan sannleikann um hve skaðleg fíkn í spilakassa er, sem og að þrýsta á stjórnvöld að loka spilakössum á Íslandi til frambúðar. Herferðin er á vegum SÁS, samtaka áhugafólks um spilafíkn.