Ég veit að fjölmargir baka sömu smákökusortirnar jól eftir jól eftir jól. Ég skil það vel því maður vill að allt sé fullkomið. Ég mæli hins vegar líka með að taka smá áhættur – til dæmis að baka þessar ostakökusmákökur.

Þessi uppskrift er úr bókinni minni, Minn sykursæti lífsstíll, og var það Sunna Gautadóttir sem tók myndirnar af þessum dúllum, eins og allar myndirnar í bókinni.

Ég elska ostakökur meira en margt annað og sameina þessar smákökur tvennt sem ég dýrka – smákökur og ostakökur. Þetta þarf ekki að vera flókið! Stundum gleður einfaldleikinn meira en margt annað.

Þetta eru í raun bara pínulitlar ostakökur – stúfullar af ást! Elska þessar alltof, alltof mikið.

Ogguponsulitlar ostakökur

Ostakökufylling:

1 eggjarauða
85 g mjúkur rjómaostur
1/4 bolli sykur
2 tsk rifinn sítrónubörkur
1/2 tsk vanilludropar

Smákökur:

1 1/4 bolli mulið hafrakex
1 bolli hveiti
1 1/2 tsk lyftiduft
115 g mjúkt smjör
1/2 bolli púðursykur
1 eggjahvíta

Aðferð:

Byrjum á fyllingunni. Blandið öllum hráefnum vel saman í skál og setjið til hliðar. Svo er það deigið. Hitið ofninn í 180°C og setjið smjörpappír á ofnplötur. Blandið hafrakexi, hveiti og lyftidufti vel saman í lítilli skál. Hrærið smjöri og púðursykri vel saman í annarri skál. Bætið eggjahvítunni út í og hrærið vel. Blandið hafrakexblöndunni saman við smjörblöndunni þar til allt er vel blandað saman. Búið til litlar kúlur úr deiginu og raðið á ofnplötur. Fletjið kökurnar út með fingrunum og búið til litla holu í miðjuna á hverri köku. Setjið ostakökufyllinguna í holuna á hverri köku og bakið í 12 mínútur, eða þar til kökurnar eru gylltar. Ég drissaði síðan smá sítrónuberki yfir þessar þegar þær komu úr ofninum. Og þó þessar séu meira en girnilegar, mæli ég með því að þið leyfið þeim að kólna lítið eitt áður en þið borðið þær. Algjörlega guðdómlegar!