Hjónakornin Meghan Markle og Harry vöktu mikla athygli í vikunni þegar þau birtu myndband þar sem þau hvöttu Bandaríkjamenn að kjósa í forsetakosningum í Bandaríkjunum sem fara fram í nóvember næstkomandi. Þó Meghan og Harry hefðu ekki sagt það beinum orðum þá var myndbandinu ætlað að hvetja fólk til að kjósa Joe Biden en ekki Donald Trump.

„Á fjögurra ára fresti heyrum við það sama: að þetta séu mikilvægustu kosningar ævi okkar. En þessar kosningar eru það,“ segir Meghan í myndbandinu, sem tekið var upp á heimili hjónanna í Montecito í Kaliforníu.

„Röddin þín minnir þig á að þú skiptir máli því þú gerir það og þú átt skilið að sé hlustað á þig,“ bætir hún við.

Harry má ekki kjósa þar sem hann er breskur ríkisborgari en var sammála eiginkonu sinni í myndbandinu.

„Þegar hið slæma vegur þyngra en það góða þá grefur það undan færni okkar til að sýna samúð og færni okkar til að setja okkur í spor annarra, hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eður ei,“ segir Harry. „Því þegar að ein persóna trúir neikvæðninni á netinu þá finnum við gífurlega fyrir áhrifunum. Þetta er ekki tími til að velta vöngum heldur láta til skarar skríða.“

Donald Trump, Bandaríkjaforseti er ekki parhrifinn af myndbandinu og lét þau heyra það er hann spjallaði við blaðamenn í Hvíta húsinu í gær.

„Ég er ekki aðdáandi hennar,“ lét Trump hafa eftir sér og harmaði síðan þá ákvörðun Harry að kvænast leikkonunni.

„Ég myndi segja, og hún hefur örugglega heyrt þetta, að ég óska Harry góðs gengis því hann þarf á því að halda.“

Áður en Trump lét þessi orð falla hafði Corey Lewandowski, fyrrverandi kosningastjóri forsetans, sagt í viðtali við Daily Mail að Harry og Meghan hefðu gert „Bretland frábært aftur með því að fara og ég vona að þau geri það sama fyrir okkur.“

Frægt er orðið þegar að Meghan og Harry tilkynntu snemma á þessu ári að þau ætluðu að láta af öllum konunglegum skyldum sínum, en ef þau hefðu ekki gert það hefði fyrrnefnt myndband brotið í bága við konunglegar siðareglur.