Fyrirsætan Ashley Graham eignaðist sitt fyrsta barn, soninn Isaac, með eiginmanni sínum Justin Ervin þann 18. janúar í fyrra. Graham hefur talað opinskátt um móðurhlutverkið á samfélagsmiðlum og ákvað í tilefni af ársafmæli snáðans að setja saman myndband um tólf hluti sem hún hefur lært á þeim tólf mánuðum sem hún hefur alið upp barn.

„Ég trúi því ekki að ég eigi ársgamalt barn,“ segir Graham í upphafi myndbandsins sem finna má á YouTube. Síðan fer hún yfir fyrsta mánuðinn sem móðir.

„Halló janúar! Þú hrisstir upp í öllu og markaðir mikil tímamót í mínu lífi,“ segir hún. „Ég lærði að elska á hátt sem ég þekkti ekki áður. Aldrei! Fólk segir þér frá því. Fólk reynir að útskýra fyrir þér en maður getur ekki skilið slíka ást fyrr en maður á sitt eigið barn.“

Áður en Graham varð móðir elskaði hún að fara snemma að sofa, sofa út og fá sér lúra yfir daginn en í febrúar á síðasta ári lærði hún að „líkaminn geti lifað á minni svefn“ en hún hafði gert sé grein fyrir. Er Graham fer yfir lærdóm hvers mánaðar skreytir hún myndbandið með myndböndum af litla Isaac, en áhorfendur sjá aldrei framan í hann. Þannig tryggir fyrirsætan að friðhelgi hans sé vernduð.

Þegar að heimsfaraldur COVID-19 skall á segir Graham að hún hafi þá fyrst uppgötvað hve mikilvægt það er að hafa hjálparhendur í uppeldinu.

„Liðsheildin gerir gæfumuninn. Ég þakka Guði fyrir minn yndislega eiginmann. Ég þakka Guð fyrir mína ótrúlegu móður því við bjuggu saman í Nebraska í húsinu sem ég ólst upp í.“

Graham er mikil talskona jákvæðrar líkamsímyndar og hefur verið opin um þær breytingar sem hafa orðið á líkama hennar eftir að hún varð móðir.

„Ég lærði að líkami minn er fær um ótrúlega, magnaða hluti eins og að búa til barn,“ segir hún í myndbandinu, sem má horfa á hér fyrir neðan. „Ég þarf ekki að komast í ákveðna þyngd eftir barnsburð. Það er bara kjaftæði!“