„Mamma mín vildi að ég væri Hilton. En mig langaði bara að vera Paris,“ segir raunveruleikastjarnan, áhrifavaldurinn, viðskiptajöfurinn og fyrrverandi partípían Paris Hilton í væntanlegri heimildarmynd, This Is Paris, sem verður frumsýnd þann 14. september á YouTube.

Í heimildarmyndinni fer hún yfir lífið sitt og segir frá mörgu sem hún hefur aldrei áður gert, til dæmis að hún hafi verið beitt andlegu og líkamlegu ofbeldi, uppreisninni á táningsárunum og kærastana sem hún á erfitt með að treysta. Það er E! Online sem skrifar upp það helsta úr myndinni.

Fyllist enn kvíða

Stærsti afhjúpunin í heimildarmyndinni er þegar að Paris segir frá því sem hún gekk í gegnum þegar hún var send í heimavistarskólann Provo Canyon School í Utah þegar hún var unglingur. Hún segist meðal annars hafa verið tekin hálstaki og læst inni í herbergi þar.

„Ég tel að mikið af fólki sem vann þarna hafi fengið eitthvað út úr því að pynta börn og horfa á þau nakin,“ segir Paris. „Það fengu allir uppáskrifaðar töflur. Ég veit ekki hvaða töflur þetta voru. Ég varð bara mjög þreytt og dofin.“

Paris hætti að lokum að taka töflurnar og faldi þær. Þegar að komst upp um hana var henni refsað og hún sett í einangrun.

„Þau neyddu krakka til að fara úr fötunum og fara í einangrun í tuttugu klukkutíma. Mér fannst ég vera að missa vitið. Það var einhver í spennutreyju í næsta herbergi. Mér var skítkalt. Ég var að deyja úr hungri. Ég var ein. Ég var hrædd.“

Paris eyddi einu ári í Provo-skólanum og sneri í kjölfarið aftur til heimaborgar sinnar, New York. Paris leið illa en sagði fjölskyldu sinni aldrei frá því sem hún gekk í gegnum í skólanum.

Paris knúsar móður sína.

„Ég held að ég hafi breytt reiðinni í drifkraft til að ná langt,“ segir Paris. „Þetta styrkti mig en ég fyllist enn kvíða þegar ég hugsa um þetta. Þetta var helvíti erfitt.“

Í tilkynningu sem send var E! News segja forsvarsmenn Provo-skólans ekki geta tjáð sig um einstök mál.

„Þau beittu alls konar ofbeldi“

Paris ákvað að opna sig um þessa lífsreynslu við fjölskyldu sína í heimildarmyndinni eftir að hún hitti vini sína úr Provo-skólanum, sem höfðu einnig lent illa í því af starfsfólki skólans.

„Þau beittu alls konar ofbeldi,“ segir hún við móður sína, Kathy um veruna í skólanum. Kathy fellir tár í myndinni þegar hún heyrir um ófarir dóttur sinnar. „En ég gat ekki sagt ykkur þetta því alltaf þegar ég reyndi það þá var mér refsað eða þau sögðu: Við segjum foreldrum þínum að þú sért lygari og þau eiga ekki eftir að trúa þér.“

Paris útskýrir af hverju hún hafi beðið svona lengi með að segja frá.

„Mig langaði að gera eitthvað en á sama tíma vildi ég ekki skaða vörumerkið mitt. Ég vil ekki að þetta sé partur af viðskiptalífinu mínu og fólk skilur þetta ekki. En ef ég geri þetta ekki þá mun ég halda áfram að vera kvíðin og hugsa um þetta það sem eftir lifir.“

Drottning næturinnar

Áður en Paris var send í Provo-skólann var hún orðin háð næturlífinu í New York. Þá var hún í miðskóla.

Paris var mikil partípía.

„Mér fannst ég vera drottning næturinnar. Þarna varð ég Paris,“ segir hún, en foreldrar hennar voru ekki parsáttir við þetta áhugamál dóttur sinnar.

„Ég lokaði hana á endanum inni í herberginu sínu,“ segir móðir hennar, Kathy. „Ég var svo hrædd um að hún myndi lenda í klóm barnaníðings, vera rænt. Ótti er kraftmesta tilfinning í heimi. Kraftmeiri en sársauki, en ást, en hatur, en ljós. Mér fannst það hafa verið mín stærstu mistök að flytja hingað [New York]. Ég þurfti að koma henni í burtu héðan.“

Paris var send í ýmsa skóla áður en hún gekk í Provo, en hún var ansi dugleg að strjúka úr þeim. Hún var mjög bitur út í foreldra sína og fannst þeir vera að fela sig, en Kathy og Rick HIlton, foreldrar Paris, eiga Hilton hótelveldið.

„Mér fannst foreldrar mínir vera hræddir og að þeir vildu ekki eyðileggja orðspor sitt út af fréttum sem Page Six skrifaði um mig.“

Fær enn martraðir

Paris fær enn martraðir um þennan tíma þegar að foreldrar hennar sendu hana í hvern skólann á fætur öðrum til að sporna við því að næturlífið myndi gleypa hana.

„Ég fæ enn martraðir um þetta. Ég vildi að ég gæti sett myndavél inn í draumana mína til að sýna ykkur þá. Þeir eru hrollvekjandi. Ég endurupplifi þetta á hverju kvöldi. Ég upplifi þetta og er enn þann dag í dag í áfalli yfir þessu. Ég held að eina leiðin til að stöðva martraðirnar sé að gera eitthvað í málunum,“ segir Paris, en téðar martraðir eru um kvöld eitt þegar að fólk kom að heimili Hilton-hjónanna og reif Paris í burtu í enn einn skólann.

Paris brestur í grát í myndinni.

„Ég hélt að einhver væri að ræna mér. Ég öskraði á mömmu og pabba og bað um hjálp en enginn kom mér til bjargar,“ segir hún og rifjar upp að hún hafi séð foreldra sína við útidyrahurðina grátandi þegar hún var keyrð í burtu. Systir Parisar, Nicky, segir að næsta morgun hafi foreldrar þeirra látið eins og ekkert hefði í skorist.

„Foreldrar mínir brostu eins og allt væri í góðu lagi,“ segir hún.

Stafræn nauðgun

Paris opnar sig mikið um ástina, en hún segir að fimm menn sem hún átti í ástarsambandi við hafi beitt hana líkamlegu og andlegu ofbeldi.

„Ég hef verið í mörgum samböndum þar sem fólk verður svo stjórnsamt og reitt að það beitir líkamlegu ofbeldi,“ segir hún. „Ég hef verið tekin hálstaki, símum og tölvum hent í mig og ég tók því þar sem ég hélt að það væri eðlilegt. Eins og hann elskaði mig svo mikið að það gerði hann brjálaðan. Ég vildi ástina svo mikið að ég var viljug til að samþykkja að vera barin eða láta öskra á mig eða vera tekin hálstaki…alls konar hlut.“

Paris segir að tíminn í Provo hafi orðið til þess að hún vissi ekki „hvað ást væri eða hvernig maður ætti að vera í ástarsambandi.“

Annað áfall dundi yfir Paris árið 2003. Áfall sem margir muna eftir, en þá fór kynlífsmyndband hennar og þáverandi kærasta hennar, Rick Salomon í loftið. Myndbandið var tekið upp árið 2001 þegar að Paris var aðeins nítján ára gömul, en myndbandið er oft rifjað upp og gert grín að því.

Brot úr kynlífsmyndbandinu fræga.

„Þetta var persónuleg stund táningsstúlku sem var ekki með hausinn rétt stilltan en allir horfðu á þetta og hlógu eins og þetta væri fyndið,“ rifjar Paris upp í myndinni er hún heldur aftur af tárunum. „Þetta yrði ekki eins ef þetta gerðist í dag en ég var gerð að vondu manneskjunni. Ég gerði eitthvað slæmt. Ég var svo týnd og áköf í ást að ég fann verstu mögulegu manneskjuna.“

Paris segir að þetta hafi verið hennar fyrsta samband og að hún hafi einungis viljað gera Rick hamingjusaman. Henni fannst hins vegar eins og henni hefði verið „nauðgað rafrænt.“

Á erfitt með að treysta

Í This Is Paris er sýnt inn á heimili Parisar í Los Angeles, en þar á hún mikið safn af fartölvum. Ástæðan kemur svo sannarlega á óvart.

„Ég fæ mér nýja tölvu í hvert sinn sem ég eignast nýjan kærasta því þeir brjóstast alltaf inn í tölvurnar mínar eða öskra á mig og hóta mér. Heimta lykilorðið strax,“ segir Paris. „Eitt kvöld var ég með fyrrverandi kærastanum mínum og við rifumst svakalega. Ég var í tölvunni að hundsa hann því mér leið illa og hann greip í tölvuna og henti henni á gólfið.“

Í öðru atriði í myndinni er fylgst með því þegar að Paris lætur setja upp öryggismyndavélar heima hjá sér áður en nýr kærasti kemur í heimsókn.

„Ég er að gera þetta því ég á nýjan kærasta… ég vil vita hvað gerist þegar ég er ekki hér.“

Nicky systir hennar Parisar segir að Paris eigi mjög erfitt með að treysta fólki og hleypa því að sér því hún hafi verið svikin svo oft.

Paris og Chris.

Paris hefur verið trúlofuð þrisvar, nú síðast leikaranum Chris Zylka. Í heimildarmyndinni segist hún hafi fryst eggin sín og að hún vilji eignast börn – fyrst stúlku sem hún ætlar að skíra London. Hún veit hins vegar ekki hvort hún muni einhvern tímann hafa tíma fyrir börn. Varðandi endalok ástarsambandsins við fyrrnefndan Chris segir Paris:

„Ég var mjög hamingjusöm í byrjun. Við virtumst vera fullkomið par því ég birti alls kyns myndir og tilvitnanir. En innst inni fannst mér ég vera fangi. Maður er neyddur til að vaxa úr grasi þegar maður giftir sig. Ég óttast það að vaxa úr grasi. Ég veit að ég er fullorðin en ég held að ég hafi tapað barnæskunni út af öllum þessum skólum.“

Ætlar að þéna milljarð

Þó Paris komi af ríku fólki er það augljóst í myndinni að hún treystir ekki á Hilton-veldið heldur vill skapa sín eigin auðæfi.

„Ég ætla ekki að hætta fyrr en ég þéna milljarð dollara. Þá held ég að ég geti slakað á. Ég veit að þetta hljómar brjálað. Ég vil bara ekki hafa áhyggjur. Ég vil aldrei hafa áhyggjur,“ segir Paris, en hún hefur haft háleit markmið frá unga aldri.

„Ég vildi þéna hundrað milljónir þegar ég var táningur. Ég hélt að ég myndi vera hamingjusöm þegar ég næði því markmiði. Ég held að þegar maður nær markmiði þá vilji maður bara meira. Og þá verði ég hamingjusöm. Ég er stundum hamingjusöm,“ segir Paris. „Ég vil bara vera sjálfstæð, skapa mér nafn og byggja upp vörumerki.“

„Ég veit ekki hver ég er stundum“

Systurnar Paris og Nicky.

Mikið grín hefur verið gert að Paris í gegnum tíðina og margir eflaust vanmetið hana – talið hana vera heimska ljósku. Hún hefur að vissu leyti lifað sig inn í þann karakter og gert út á þá persónu. Því á hún erfitt með að vera hún sjálf.

„Ég er bara svo vön því að leika karakter að það er erfitt fyrir mig að vera venjuleg. Ég breytist í einhvern annan,“ segir hún. „Ég ferðast um allan heiminn og sé aldrei neitt nema hótelherbergi, næturklúbba og búðir. Ég veit ekki hver ég er stundum. Ég er eiginlega í dulargervi. Ég var með plan og síðan bjó ég til þetta vörumerki og þessa persónu og þennan karakter og ég hef setið uppi með hana alla tíð síðan. Ég var ekki svona.“

En hver er hin raunverulega Paris Hilton?

„Hún er stelpa sem elskar að föndra heima með hundunum, borðar afganga, hljómar eins og Homer Simpson. Hún er mjög eðlileg…hún er eiginlega strákastelpa,“ segir systir hennar Nicky. Paris segir að hún hafi viljað búa til þessa fullkomnu ímynd til að fela áföllin í lífinu sínu.

„Þess vegna hef ég alltaf sýnt það sem ég held að almenningur vilji,“ segir hún um karakterinn Paris Hilton. „Og núna sé ég litlar stelpur sem reyna að taka fullkomna sjáflsmynd, þær setja síur á og geta ekki einu sinni horft á sjálfar sig í símanum án þess að setja á síu. Ég get ekki ímyndað mér að vera þrettán ára stelpa í dag.“

Paris hefur oft verið kölluð upprunalegi áhrifavaldurinn og segist finna fyrir ábyrgð á upprisu samfélagsmiðla og óraunhæfra fegurðarstuðla.

„Mér líður stundum eins og ég hafi hjálpað til við að búa til skrímsli.“

Eins og áður segir er heimildarmyndin um Paris frumsýnd á YouTube þann 14. september.