„Ég gekk í gegnum fjandi erfiða tíma,“ segir stórleikarinn Michael Madsen í viðtali við Independent. Í viðtalinu opnar hann sig upp á gátt en viðtöl við leikarann eru vægast sagt sjaldséð.

Aðdáendur leikstjórans Quentin Tarantino þekkja Madsen vel, enda hefur hann leikið illmenni í mörgum af hans myndum. Eftirminnilegasta hlutverk Madsen í Tarantino-mynd er án efa í Reservoir Dogs en hann fer líka listilega vel með hlutverk andhetjunnar í Kill Bill-myndunum, The Hateful Eight og Once Upon a Time in Hollywood. Það má segja að Tarantino hafi séð það sem fáir aðrir hafa séð í Madsen, því á lista yfir verk leikarans eru ýmsar myndir sem hafa ekki þótt nógu góðar fyrr kvikmyndahús, varla nógu góðar fyrir VHS- eða DVD-útgáfu. Madsen er 62ja ára gamall og það er erfitt að staðsetja hann í heimi leiklistar. Einkalífið listamannsins hefur verið stormasamt, en hann missti heimili sitt í eldsvoðanum í Malibu fyrir tveimur árum.

Sem Mr. Blonde í Reservoir Dogs.

„Ég lenti í slæmu mótorhjólaslysi og þurfti að fara í uppskurð á baki. Ég var tekinn nokkrum sinnum fyrir að keyra fullur, ég glímdi við hræðilega, hræðilega tíma. Frægðin er ekki öll sem hún er séð. Ég er ekki að kvarta, því lífið mitt hefur verið frábært. En frægðin getur farið illa með mann ef maður getur ekki varið sig. Sem betur fer er ég á betri stað núna. Ég er ekki kvíðinn lengur. Ég er meira að segja farinn að fara í viðtöl aftur. Ég meina, hvenær vildi einhver tala við Michael Madsen?“ segir leikarinn í samtali við blaðamanninn Adam White.

Sáttur við ferilinn

Kórónuveiran hefur heldur betur hrist upp í heimsbyggðinni, á góðan hátt og slæman. Madsen er í sóttkví og segir að hann hafi haft tíma til að líta yfir farinn veg. Nokkrar myndir hans, svo sem Sin City sem kom út árið 2005 og Species sem kom út árið 1995, fagna stórafmælum um þessar mundir og Madsen stelur senunni í heimildarmynd um Tarantino, 2T8: The First Eight. Í myndinni þakkar Madsen Tarantino fyrir allt sem hann hefur gert fyrir hann.

„Ég horfi á ferilinn núna með meiri virðingu,“ segir Madsen. „Mér fannst fullt af stöffi sem ég gerði ekkert spes þegar það var sýnt. Núna er annað uppi á teningnum. Ég hef verið lögga, morðingi, stjórnað mótorhjólaklíkum, ég spilaði hafnabolta í The Natural. Ekki má gleyma Free Willy. Ég bjargaði hval í henni!“

Skipti um dekk hjá Astaire

Madsen er grófgerður í útliti en myndarlegur. Hann ber með sér óhugnalega nærveru og þarf oft ekki nema augnaráð eða hreyfingu til að láta bíógesti skelfa á beinunum þegar hann er annars vegar. Hann hefur lengi verið talinn holdgervingur karlmennskunnar í Hollywood og sagði systir hans, leikkonan Virgina Madsen, eitt sinn að hún hefði losnað við verstu hliðar Hollywood því fólk hafi haldið að bróðir hennar væri „hættulegur fýr“.

Grófgerður en myndarlegur. Mynd: Wikimedia Commons

Madsen fæddist í Chicago í Bandaríkjunum. Faðir hans var slökkviliðsmaður og móðir hans vann fyrst í fjármálageiranum áður en hún sneri sér að listum. Foreldrar hans skildu þegar hann var níu ára og hann flutti mikið með móður sinni. Á unglingsárunum komst hann í kast við lögin, stal bílum og stundaði smáglæpi. Madsen opnaði hjartað og hugann fyrir leiklist þegar hann fór á stefnumót sem ungur maður á leikrit hjá hinum víðfræga Steppenwolf-leikhópi. Í kjölfarið skráði hann sig í tíma hjá einum af stofnanda leikhópsins, John Malkovich, og loks flutti Madsen til Los Angeles árið 1983 til að hella sér í bransann.

Það var erfitt að fóta sig í leiklistarbransanum og því vann Madsen á bílaverkstæði á milli þess sem hann tók að sér aukahlutverk í ýmsum verkefnum, svo sem Miami Vice. Á verkstæðinu gerði hann við bíla ýmissa goðsagna, svo sem Warren Beatty, Jack Lemmon og Fred Astaire. Af þeim síðastnefnda á Madsen skemmtilega sögu þegar að Astaire mætti á verkstæðið á aðfangadag með sprungið dekk.

„Ég spurði hann: Viltu að ég setji varadekkið undir eða geri við sprungna dekkið? Hann rétti mér bara hundrað dollara seðil og labbaði í burtu. Ég veit ekki hvert í fjáranum hann fór en ég vissi að ég var á réttum stað. Hundrað dollarar var mikill peningur í þá daga.“

Faðir Madsen skildi ekki af hverju sonur hans vildi verða leikari. Honum fannst lítið til þess koma þegar að sonur hans fékk stærri hlutverk, eins og í Kill Me Again frá árinu 1989 og The Doors frá árinu 1991.

„Í hans huga var það að verða kvikmyndaleikari líkt og að fara út í geim,“ segir Madsen. „Hann skildi þetta ekki. Hann vildi að ég yrði lögga eða slökkviliðsmaður, eins og hann, og það var ekki í spilunum hjá mér.“

Ósáttur með dauðdagann

Í upphafi ferilsins var Madsen með mjög ákveðna hugmynd um hvernig leikari hann vildi verða. Í fyrrnefndri heimildamynd um Tarantino rifjar hann upp hve óánægður hann hefði verið með að Tim Roth, sem þá var óþekktur, breskur leikari, hafi drepið hann á hvíta tjaldinu í Reservoir Dogs.

„Ég hreifst af gömlum myndum,“ segir Madsen. „Ég var mikill aðdáandi Humphrey Bogart, Robert Mitchum, Lee Marvin… ég vissi að allir þessir gaurar völdu hlutverkin sín vel, sem og á móti hverjum þeir léku og hverjir drápu þá á hvíta tjaldinu. Þannig kemst maður í aðalhlutverk.“

Á þessum tíma vildi Madsen vera stjarna, aðalmálið, stór karl. Honum hugnaðist ekki að vera hluti af leikhópi.

„Ég sá sjálfan mig sem rómantíska hetju. Ég vildi vera Errol Flynn. Ég vildi ríða á hesti yfir hæðina með konunni minni í lok myndar. Ég hafði áhyggjur af því að taka hlutverk eins og Mr. Blonde [Reservoir Dogs] því ég hugsaði: Hvert liggur leiðin í leiklistinni fyrir mig ef ég sker eyrað af þessum gaur og Tim Roth drepur mig?“

Fékk hrós frá pabba

Í kjölfar frumsýningar Reservoir Dogs var Madsen sí og æ boðið hlutverk bófa eða lögreglumanna. Hann reyndi að ögra sér og finnst sjálfum sín besta mynd vera Strength and Honour frá árinu 2007 þar sem hann leikur írskan boxara sem elur upp son sinn eftir að eiginkona hans deyr. Faðir hans, sem dó árið 2015, hrósaði honum einmitt fyrir þá mynd, þó hann væri afar spar á góðu orðin í garð sonar síns.

„Ég veit að faðir minn elskaði mig en hann sýndi það aldrei,“ segir Madsen. „Ég held að margir gaurar á mínum aldri hafi alist þannig upp. Hann var mjög viðkvæmur undir lokin en ég sá að hann var stoltur af mér.“

Boxarinn í Strength and Honour.

Madsen finnst leitt að fáir þekki Strength and Honour og kennir kvikmyndamógúlnum og ofbeldismanninum Harvey Weinstein um. Weinstein er dæmdur nauðgari sem bæði fjármagnaði myndir Tarantino og áreitti fjölmargar stjörnur í myndum hans kynferðislega, svo sem Uma Thurman, Daryl Hannah og Rosanna Arquette. Madsen segir að Weinstein hafi aldrei líkað vel við sig og hafi jarðar Strength and Honour á sínum tíma.

„Harvey líkaði aldrei vel við mig. Ég veit ekki hvort honum líkaði vel við neinn en ég veit með vissu að honum líkaði ekki vel við mig. Hann vildi ekki sjá mig í neinni Tarantino-mynd. Ég held að ég sé bara í þeim því Quentin stóð með mér í hvert sinn og sagðist ætla að nota mig hvort sem Weinstein líkaði það eður ei,“ segir Madsen og líkir Weinstein við skrímsli vegna þeirra ofbeldisverka sem hann hefur verið dæmdur fyrir.

Hefði orðið góður Batman

Í viðtali Independent kemur í ljós að Madsen er enn mjög ástríðufullur í leiklistinni og er hvergi nærri hættur.

„Ég gæti verið sonur Dirty Harry sem er nýsloppinn úr fangelsi. Ég held líka að ég hefði geta orðið frábær Batman. En enginn vildi leyfa Michael Madsen að leika Batman því þeir höfðu ekki ímyndunaraflið í það. Það vilja allir fara öruggu leiðina,“ segir hann og heldur áfram.

„Karakter sem ég held að ég leiki mjög vel er einhver sem er ekki fullkominn, örlítið grófgerður… ekki klipptur út úr tímariti, gæti reykt sígarettu við og við eða þurft á rakstri að halda en þú getur veðjað upp á það að ég geri hið eina rétta. Þannig er hinn raunverulegi Michael og ég vildi að það næðist á filmu.“

Í hlutverki sínu í The Hateful Eight.