„Eina leiðin til að lifa svona af er að fyrirgefa og gleyma.“

Þetta segir fyrrverandi kona spilafíkils í grein á lokum.is. Hún vill ekki koma fram undir nafni af persónulegum ástæðum, en héðan í frá er hún kölluð Ásdís.

Ásdís á barn með manni með spilafíkn. Þau byrjuðu að búa en tveimur árum síðar var sambandið komið á endastöð vegna spilafíknar, lyga og blekkinga.

„Þetta samband fór út um þúfur vegna spilafíknar hans. Þetta var svo rosalega mikil lygi. Það var búið að brjóta allt traust og sambandið einkenndist af mikilli vanvirðingu. Maður treystir aldrei spilafíkli. Þeir þurfa að lifa með því,“ segir Ásdís og rifjar upp eitt atvik sem sat lengi í henni.

„Ég man sérstaklega eftir því þegar að stelpan okkar var ellefu ára. Þá sagði hann við hana að þau væru að fara til Spánar. Ferðin var pöntuð með nokkurra mánaða fyrirvara og stelpan búin að fá leyfi frá skóla þar sem ferðin átti að vera í byrjun september. Daginn fyrir ferðina hringdi fyrrverandi maðurinn minn í mig og sagði að hann kæmist ekki í ferðina. Læknirinn hafi bannað honum það því hann væri með eitthvað fyrir hjartanu. Ég eiginlega lamaðist. Ég trúði þessu ekki. Og þessi saga um lækninn gat ekki verið sönn. Þannig að ég gekk á barnsföðurinn. Þá kom á daginn að hann var búinn að borga inn á ferðina því hann ætlaði að fara. En svo fór hann að spila í spilakössum og þurfti meiri pening til að spila með þannig að hann fékk vottorð frá lækni og fékk ferðina endurgreidda til að geta haldið áfram að spila. Ég ætlaði ekki að geta sagt stelpunni þetta. Hún var miður sín,“ segir Ásdís. „Hann er góður pabbi og er alltaf til staðar fyrir hana tilfinningalega, þó það sé ekki hægt að treysta honum peningalega. Hann ætlaði örugglega að spila til að vinna fyrir enn flottari ferð, þó hann hafi vitað það innst inni að það myndi ekki gerast.“

Stal úr sparibaukum barnanna

Ásdís á tvö önnur börn, ekki með fyrrnefndum barnsföður, og man einnig eftir því þegar hún og einn sonur hennar voru búin að safna samviskusamlega í stóran bauk fyrir utanlandsreisu. Þegar kom að því að tæma baukinn, sem var orðinn sneisafullur, vantaði alla seðla, alla 100 kalla og alla 50 kalla. Þeir fóru í spilakassann.

„Þetta gerðist allt áður en ég fattaði hvað var í gangi. Hann hélt spilafíkninni leyndri rosalega lengi. Þegar við byrjuðum saman sagði hann mér að hann væri spilafíkill en ég vissi ekki að hann væri virkur,“ segir Ásdís. Eftir tveggja ára sambúð rann upp dagurinn sem Ásdís fékk nóg.

„Ég var ólétt og fór út á svalir og sá að það var verið að draga bílinn okkar í burtu. Hann ætlaði að sjá um að borga af bílnum en hann gerði það aldrei. Hann ætlaði að borga VISA kortið mitt. VISA kortið hélst opið því hann samdi alltaf við VISA og faldi öll innheimtubréf svo ég sæi ekki neitt. Hann fékk líka yfirdrátt á mínu nafni. Allt í einu hrundi allt og ég fékk bara nóg,“ segir Ásdís, en eftir tveggja ára sambúð stóð hún eftir með skuldir upp á tvær til þrjár milljónir vegna spilafíknar barnsföðursins.

Helvíti

Ásdís segir að barnsfaðirinn sé góður maður og hafi reynst mörgum vel. Það viti það hins vegar allir að honum er ekki treystandi fyrir peningum. Hún segir enn fremur að hann sé rosalega klár og góður að tala og að það sé „mjög hættulegt þegar að svoleiðis menn verða fíklar.“

Ásdís skefur ekkert af því og segir það hreint út sagt helvíti að búa með spilafíkli. Það hafi niðurbrjótandi áhrif og brjóti niður allt traust.

„Þessi heimur er ekkert skemmtilegur – þetta er bara eymd,“ segir hún um spilakassaheiminn. „Ísland væri bættara land með engum spilakössum. Það er rugl að hafa þetta opið. Þetta er búið að taka utanlandsferðir af mörgum börnum og jafnvel mat. Rústa heilu fjölskyldunum, þetta helvíti.“

***

Lokum er árvekniherferð sem hefur það markmið að leiða íslensku þjóðina í allan sannleikann um hve skaðleg fíkn í spilakassa er, sem og að þrýsta á stjórnvöld að loka spilakössum á Íslandi til frambúðar. Herferðin er á vegum SÁS, samtaka áhugafólks um spilafíkn.