Brooke, móðir frá Brisbane í Ástralíu, hefur svo sannarlega slegið í gegn á Facebook eftir að hún birti færslu á samfélagsmiðlinum með húsráði sem hún fer ávallt eftir. Sagt er frá málinu á vef Daily Mail.

Húsráðið er afar einfalt, en það felst í því að Brooke geymir brauð þannig að hún setur tvær sneiðar í sér poka sem hægt er að lofttæma og frystir því ávallt tvær sneiðar saman. Hún segir að með þessu ráði sé alltaf til brauð og ekkert fari til spillis.

„Einfalt en nytsamlegt ráð,“ segir Brooke.

„Þar sem við erum bara tvö í heimili, ég og sonur minn, þá borðum við ekki mikið brauð. Ég frysti ávallt tvær sneiðar saman þannig að ekkert fari til spillis og við eigum alltaf ferskt brauð.“

Mörg hundruð Facebook-notendur voru agndofa yfir þessur ráði og voru staðráðnir í að nýta sér það. Ein móðir skrifaði við færsluna að hún fari ávallt eftir þessu húsráði og segir það nýtast vel þegar kemur að skólanestinu.

Þetta húsráð hennar Brooke er svo sem ekki nýtt af nálinni þó margir hafi greinilega aldrei heyrt um það. Alþekkt sparnaðar- og nýtniráð er að kaupa mat í stórum einingum, sem oft eru ódýrari, skipta matnum niður í poka og frysta fyrir hverja máltíð.