Ég er mjög nýtin manneskja, sérstaklega þegar að kemur að mat. Ég veit fátt verra en að henda mat og reyni að komast hjá því eins og ég mögulega get.

Ég býst við að þetta hafi ég lært af foreldrum mínum og líkt á æskuheimilinu er frystirinn minn oftar en ekki stútfullur af afgöngum og ýmsum matvælum.

Eitt af því sem fer svolítið í taugarnar á mér á aðventunni er þetta gríðarmikla magn af mandarínuberki sem lendir í ruslinu. Á mínu heimili er farið í gegnum að minnsta kosti kassa af mandarínum á vikum þannig að þið getið rétt ímyndað ykkur sóunina í mandarínuberki.

Ég ákvað því að fara á stúfana á internetinu og sá alls kyns uppskriftir að því hvernig hægt er að nota börk sítrusávaxta. Ég fann enga uppskrift að sætum mandarínuberki en ákvað að gera nokkrar tilraunir í eldhúsinu og prófa að búa til nammi úr berkinum.

Það heppnaðist svona líka frábærlega! Trúiði mér – þessi börkur smakkast eins og hlaup – algjört nammigott! Svo er ferlið líka ofureinfalt og hentar þetta gotterí fyrir grænkera.

Framvegis fer lítið sem ekkert af berkinum í ruslið!

Nammigóður mandarínubörkur

Hráefni:

börkur af 6 mandarínum
2 bollar sykur
1 bolli vatn
meiri sykur til að velta berkinum upp úr

Aðferð:

Byrjið á því að skera börkinn í ræmur. Fyllið pott af vatni og sjóðið berkinn í 15-20 mínútur til að ná beiskjunni aðeins úr honum. Skolið börkinn og leyfið honum að þorna aðeins. Ég set börkinn í sigti, skola og leyfi honum að hvíla aðeins í sigtinu í um hálftíma. Setjið sykur og vatn í pott og hitið yfir meðalhita. Náið upp suðu í blöndunni og þegar að sykurinn hefur leysts upp er berkinum bætt saman við. Látið malla í 50-60 mínútur og hrærið við og við í blöndunni. Mér finnst síðan best að strá sykri yfir smjörpappírsörk, fjarlægja börkinn úr pottinum, láta leka af honum mesta vatnið og skella honum síðan ofan á sykurinn. Síðan strái ég sykri yfir berkinn og velti honum aðeins um á örkinni svo hann sé vel sykurhúðaður. Síðan lætur maður börkinn bíða í 2 daga. Þá storknar hann og dregur sæta sykurinn í sig. Eftir 2 daga bragðast þetta eins og geggjað hlaupnammi!