Þegar maður elst upp sem barn alkóhólista þá þráir maður ekkert heitara en að eignast fjölskyldu og eðlilegt líf, allavega í mínu tilviki. Sem krakki upp að 7 til 8 ára aldurs fékk ég nákvæmlega það. Ég var algjör pabbastrákur og mamma mín var mín fyrirmynd; hún var fyndin og sagði bestu sögur í heiminum sem hún skáldaði fyrir okkur strákana á hverju kvöldi. Við sögðum henni að hún ætti að gefa þessar sögur út og hana langaði það. Ég myndi borga alla heimsins peninga til að fá að heyra þessar sögur í dag.

Þegar ég óx úr grasi áttu allir jafnaldrar mínir drauma um eitthvað merkilegt, eins og að eignast svakalega flotta bíla, vera leikarar eða verða ríkir. Það voru svo fjarlægir draumar fyrir mig. Mig langaði bara í fjölskyldu. Ég man þegar ég stóð fyrir framan kirkjuna í Ólafsvík þegar ég var 10 eða 11 ára og bað til guðs að ég myndi finna konu einn daginn sem gæti elskað svona lélegt eintak eins og mig. Konu sem myndi vilja eignast börn með mér og þannig myndi ég fá tækifæri til að elska og vera elskaður. Guð svaraði heldur betur kallinu. Í dag á ég 6 börn, 3 blóðbörn og 3 stjúpbörn, sem ég elska út af lífinu. Ég myndi gera allt fyrir þau og að vera kallaður pabbi er það besta í heiminum mínum.

Það er einn æskuminning sem situr alltaf í mér. Jólin hjá okkur voru alltaf mjög hátíðleg og það var aldrei drukkið áfengi. Á hverjum jólum vorum við 5 fræknu, ég, bræður mínir tveir og foreldrar mínir, alltaf saman og allir voru glaðir og ánægðir. Ég man að pabbi fór í hvíta jakkann sinn sem hann kvæntist mömmu í og við fengum að heyra um þann dag, sem og aðrar skemmtilegar sögur. Hann talaði alltaf um að mamma væri stundum að biðja hann um að segja: Ég elska þig, oftar. Hann sagði þá að hann hefði sagt mömmu það þegar þau giftust og ef það breyttist þá myndi hann segja henni það.

Mig hlakkaði alltaf til jólanna, en þegar ég var 17 til 18 ára gamall, nýbakaður faðir og fluttur heim til þeirra aftur breyttust jólin í martröð. Sá aðfangadagur var hræðilegur. Slagsmál, enginn matur né hvíti jakkinn og sögurnar. Ég man að ég labbaði með litla bróður minn til frænku minnar því ég vissi að móðurfjölskyldan mín væri að hittast þar og fagna jólunum saman. Við dingluðum bjöllunni rétt fyrir klukkan sex og spurðum hvort við mættum borða með þeim. Svarið var að það væri ekki góð hugmynd og að við ættum að koma seinna. Þessi upplifun sat mjög fast í okkur strákunum og við breyttumst við þetta. Við misstum báðir tökin og lokuðum á tilfinningar okkar.

Þegar ég opnaði fyrst á þessa sögu til að hjálpa öðrum varð ég fyrir árásum frá fjölskyldumeðlimum og heyrði sögur af mér sem ég kannaðist ekki við; ég var sprautufíkill, ég tók peninga frá þessum og hinum og það var alltaf grafið undan mér. Ég veit betur og þarf ekki þetta fólk í mitt líf, en ég lokaði ekki á þetta fólk fyrir en það byrjaði að koma illa fram við börnin mín. Ég stóð ekki með sjálfum mér en ég stend 100% með börnunum mínum. Sem betur fer á ég bestu frænku í heimi og hennar mann sem hafa ávallt staðið með mér. Ég átti líka æðislega ömmu og afa og í dag á ég yndislegustu eiginkonu og börn í heiminum.

Að því sögðu, þá er versti dagur lífs míns einnig einn sá besti í lífinu mínu, en það er brúðkaupsdagurinn minn. Nokkrum mánuðum fyrir giftinguna byrjaði mér að líða alveg hörmulega illa og fannst ég ekki eiga þetta skilið. Ég saknaði forelda minna og bróður míns. Ég vissi ekki hverjum ég ætti að bjóða í brúðkaupið. Ég sá það ekki þá en ég varð mjög óöruggur og fannst ég ekki eiga það skilið að láta drauminn minn, sem mig var búið að dreyma svo lengi, rætast. Brúðkaupsdagurinn sjálfur var erfiður. Það var erfitt að standa uppi á altari með prestinum og hugsa um alla sem voru ekki á staðnum. En svo birtist konan mína og gekk í átt að mér og þá lagaðist allt. Sorgin var enn til staðar en þegar ég horfði á konuna mína brosti ég bara og vissi að það eina sem ég þurfti að gera var að elska hana og virða og vera heiðarlegur. Þá yrði þetta í lagi. Lífið er upp og niður en fólk sem virkilega elskar hvort annað stendur saman í gegnum blíðu og stríðu. Það er lífið. Ég er að fatta núna að lífið þarf ekki að vera fullkomið og það má gera mistök án þess að allt fari til fjandans. Mér má líða vel án þess að þurfa að gjalda fyrir það.

Það eru mörg áföll sem hafa markað mig og gert mig af manninum sem ég er í dag, með öllum mínum kostum og göllum. Ég er til dæmis enn að læra samskipti við annað fólk og læra að lesa aðstæður rétt. Ég lærði það ekki almennilega fyrr en ég kynntist eiginkonunni minni. Hún hefur gert mig að betri manni og kennt mér hvernig ég á að hafa samskipti og sleppa meðvirkni. Tengdamóðir mín hefur einnig kennt mér það. Ég má hafa aðra skoðun en aðrir og það er bara allt í lagi.

Mig langar að opna á þessa sögu til að segja að krakkar sem eru að ganga í gegnum þetta í dag þurfa ekki kennslu í alkóhólisma. Þau þurfa ekki að læra um þær kenningar að þetta sé sjúkdómur og þess vegna verði þau að passa sig í framtíðinni. Þau þurfa ekki að fara inn í lífið með það á bak við eyrað að þau geti sjálf orðið alkóhólistar. Börn alkóhólista eru ekki með sjúkdóm og þau lagast ekki þótt foreldrar verði edrú í einhvern tíma. Það þarf að tala við þau eða gefa þeim tækifæri á að tala.

Börn taka þetta allt inn á sig og þegar að fylleríið er búið og margir búnir að segja eða gera hluti við börnin í partíinu þá verðum við öll að muna að börnin drukku ekki sopa. Þau muna allt þó alkinn muni ekki neitt. Þannig að talið við börnin og leyfið þeim að tjá sig. Ekki sópa öllu undir teppið og láta eins og ekkert hafi í skorist.

Sjá einnig:

Kyssti deyjandi föður á ennið og fyrirgaf honum