Ég fann þessa dásamlegu uppskrift að Toskana-kjúkling á vefsíðunni Delish, einni af mínum uppáhalds matarvefsíðum.

Það er mjög einfalt að útbúa þennan rétt, ungir sem aldnir elska hann og svo er þessi sósa gjörsamlega trufluð.

Ég mæli með að bera réttinn fram með góðu pasta.

Toskana-kjúklingur

Hráefni:

1 msk ólífuolía
4 kjúklingabringur
salt og pipar
1 tsk oreganó
3 msk smjör
3 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
1 1/2 bolli kirsuberjatómatar, skornir í helminga
3 bollar „baby“ spínat
1/2 bolli rjómi
1/4 bolli parmesan ostur
sítrónusneiðar

Aðferð:

Hitið olíu í stórri pönnu yfir meðalhita. Setjið bringurnar á pönnuna og kryddið með salti, pipar og oreganó. Steikið í 8 mínútur á hvorri hlið. Takið af pönnunni. Bræðið smjörið á sömu pönnu og steikið hvítlauk þar til hann ilmar vel, í um 1 mínútu. Bætið tómötum saman við og kryddið með salti og pipar. Eldið þar til tómatar byrja að springa og bætið spínati út í. Eldið þar til spínat byrjar að fölna. Blandið rjóma og parmesan saman við og náið upp suðu. Lækkið hitann og leyfið sósunni að malla í 3 mínútur. Setjið kjúklinginn í sósuna og leyfið að malla í 5-7 mínútur. Berið fram með sítrónusneiðum.