Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, er 67 ára í dag, en það er ein afmæliskveðja á Facebook sem hefur gjörsamlega stolið senuni – lagið Hann Þórólfur í flutningi tónlistarflokksins Vina og Vandamanna.

„Elsku Þórólfur okkar, innilega til hamingju með afmælisdaginn frá vinum þínum og vandamönnum í tónlistarhópnum „Vinir og vandamenn“. Við viljum að þú vitir og finnir að við, og margir margir margir fleiri Íslendingar, standa heils hugar á bak við þig og þín afburða góðu og fórnfúsu störf í þágu lands og þjóðar,“ stendur við myndband við lagið á Facebook.

„Við getum ekki ímyndað okkur hvers konar álag það er að þurfa að taka allar þær ákvarðanir sem þú hefur á herðunum, þurfa að taka tillit til allra þeirra sjónarmiða og hagsmunaaðila sem störf þín snerta, og að halda sönsum í gegnum það allt. En hitt vitum við og sjáum, að þú höndlar það eins og allt annað, með algjörum glæsibrag. Þú ert snillingur og okkur þykir mjög vænt um þig.“

Lagið og textinn er stórgóður, en í myndbandinu má sjá gamlar myndir af Þórólfi. Þá fær tónlistarflokkurinn Vinir og vandamenn einnig mæta Íslendinga í lið með sér til að gleðja Þórólf og eiga Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og Björn Ingi Hrafnsson hjá Viljanum frábærar innkomur.

Fréttanetið óskar Þórólfi innilega til hamingju með daginn og hér fyrir neðan má sjá myndband við lagið Hann Þórólfur: