Tæplega níutíu fermetra, fjögurra herbergja íbúð í Írabakka í Neðra-Breiðholti í Reykjavík er komin í sölu. Íbúðin er búin þremur svefnherbergjum og einu baðherbergi.

Írabakkablokkin vekur athygli vegfaranda í Breiðholti enda eldrauður litur einkennismerki hennar. Íbúðin sem nú er til sölu er á fyrstu hæð með stórum svölum til suðurs og norðurs.

Bjart eldhús.

Það má segja að um sé að ræða perlu í þessu vel skipulagða hverfi, en búið er að endurnýja allt í íbúðinni frá A til Ö.

Stílhrein stofa.

Íbúðinni fylgir geymsla í kjallara með glugga. Geymslan telur um sjö fermetra og hugsanlega hægt að leigja út sem vinnurými.

Skemmtilegur veggur.

Bakkarnir í Breiðholti eru meðal þeirra hverfa í Reykjavík sem eru hvað best hönnuð en hverfið var hannað í anda The Garden City Movement sem var stofnuð af Ebenezar Howard á seinni hluta 18. aldar. Útgangspunktur þeirrar hreyfingar var að minnka mengun í hverfum með því að byggja þau í kringum græn og blómleg svæði.

Stórar svalir.

Höfundar skipulags Bakkahverfis voru arkitektinn Stefán Jónsson og landslagsarkitektinn Reynir Vilhjálmsson, en skipulagið var algjört nýmæli á Íslandi. Hver blokk myndar U utan um garð sem allar blokkir deila saman. Í miðju hverfisins var að finna allt til alls – skóla, leikskóla, leiksvæði, verslanir og ýmsa þjónustu. Bílaumferð á aðeins aðgang í hverfið úr vestri og því hægt að valsa um hverfið án þess að fara yfir fjölfarnar umferðar götur.

Grátt baðherbergi.

Skipulagið hefur haldið sér og þó að minna sé um verslanir og þjónustu innan kjarnans í Bakkahverfinu þá er örstuttur spölur í verslunarmiðstöðina Mjódd.

Nánari upplýsingar um fyrrnefnda íbúð má finna hér.