Söngkonan Mariah Carey opnar sig upp á gátt í endurminningum sínum The Meaning of Mariah Carey sem koma út í dag, 29. september. Mariah státar af glæstum söngferli og hefur unnið til fimm Grammy-verðlauna síðan hún sló fyrst í gegn árið 1990. Lífið utan sviðsljóssins hefur hins vegar ekki verið dans á rósum, eins og kemur vel fram í endurminningunum.

Eitrað samband

Mariah skiptir bókinni í fjóra hluta; Dyntótt barn, Syngja. Syngja, Allt sem glitrar og Sjálfstæði. Í fyrstu köflunum fer hún yfir stormasama æsku og fyrstu árin í bransanum og ofbeldissamband við tónlistarmógúlinn Tommy Mottola, sem uppgötvaði hana árið 1988 og var síðar eiginmaður hennar. Hún talar einnig um framhjáhaldið með hafnaboltahetjunni Derek Jeter, sem gaf henni hugrekki til að skilja við Tommy.

Mariah talar hins vegar ekki um af hverju hún var lögð inn á sjúkrahús á unga aldri, en hún hefur látið hafa eftir sér að hún sé með geðhvarfasýki. Hún minnist ekki einu orði á það í bókinni. Fleira sem hún ræðir ekki eru sögusagnir um ástarsamband við rapparann Eminem, stutt trúlofun við milljarðamæringinn James Packer og núverandi samband sitt við dansarann Bryan Tanaka.

Aðskotadýr í eigin fjölskyldu

Það vantar hins vegar ekki uppljóstranir í bókina, eins og farið er vel yfir á vef Us Weekly. Í fyrri köflum bókarinnar rifjar hún upp að æskuminningar sínar séu litaðar af ofbeldi, en þar spilaði eldri bróðir hennar, Morgan stóra rullu.

„Þegar ég var smábarn hafði ég þróað með mér eðlishvöt að skynja þegar að ofbeldi var í vændum,“ segir söngkonan og lýsir sjálfri sér sem „aðskotadýri í eigin fjölskyldu.“ Hún rifjar upp ein jólin þar sem Morgan, systur þeirra Allison, og móður þeirra Patricia, lenti saman og lýsir Mariah því sem „fljóti af munnlegu ofbeldi.“

Ung Mariah Carey.

Mátti ekki tala við neinn

Mariah segir að tónlistarmógúllinn Tommy Mottola hafi verndað hana frá eitruðu fjölskyldunni, en þau gengu í það heilaga árið 1993. Þá var Mariah 23 ára en Tommy 43 ára. Hún segir í bókinni að hún hafi efast um þá ákvörðun að giftast Tommy en að hún hafi ekki séð aðra leið færa. Stuttu eftir brúðkaupið fannst Mariah hún vera föst og segir að Tommy hafi verið „eins og raki – óumflýjanlegur.“ Hún segir að mógúllinn hafi fylgst með hverju skrefi hennar.

Brúðkaup Mariah og Tommy.

„Mér fannst eins og það væri verið að þrengja að blóðrásinni minni og halda mig frá vinum mínum og þeirri litlu fjölskyldu sem ég átti. Ég mátti ekki tala við neinn sem var ekki undir stjórn Tommy. Ég mátti ekki fara út eða gera neitt með neinum. Ég gat ekki um frjálst höfuð strokið á mínu eigin heimili.“

Fékk hugrekki til að fara

Í bókinni ljóstrar Mariah því upp að hún hafi geymt tösku með nauðsynjum undir rúminu ef hún þyrfti einhvern tímann að flýja. Það sem hjálpaði henni að skilja við Tommy var framhjáhald með hafnaboltahetjunni Derek Jeter. Þau kynntust um miðjan tíunda áratug síðustu aldar.

Mariah og Derek.

„Derek var önnur manneskjan sem ég svaf hjá á ævinni (skemmtileg tilviljun að hann var númer 2 hjá New York Yankees,“ segir söngkonan. Hún hélt að hún og Derek væru sálufélagar og að þau gætu „átt eitthvað fallegt hinu meginn við helvítið sem hjónabandið var.“ Sambandið varði hins vegar fremur stutt, en varð hins vegar til þess að Mariah fékk kjark til að skilja við Tommy.

Egóið truflaði

Ástin bankaði hressilega á dyr hjá söngkonunni árið 2005, þegar hún hitti sjónvarpsstjörnuna Nick Cannon á Teen Choice-verðlaunahátíðinni. Þau felldu hugi saman og giftu sig þremur árum síðar. Mariah hélt að hún myndi aldrei eignast börn fyrr en hún kynntist Nick, en þau eignuðust tvíburana Moroccan og Monroe árið 2011. Í kjölfarið komu í ljós brestir í hjónabandinu.

Nick og Mariah með tvíburunum.

„Það tók toll á sambandið að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að vera vinnandi foreldrar í skemmtanabransanum. Hjónabandið brotnaði skyndilega eftir að brestirnir komu í ljós,“ segir hún og bætir við að þau hefðu hugsanlega getað unnið í sambandinu en að „egóin og tilfinningar“ þeirra hafi truflað slíka vinnu. Þau skildu árið 2016 en eru góðir vinir í dag.