Leikkonan Christina Ricci fékk svokallað neyðar nálgunarbann á eiginmann sinn, kvikmyndaframleiðandann James Heerdegen, eftir að lögreglan var kölluð að heimili hjónanna þann 25. júní síðastliðinn vegna gruns um heimilisofbeldis.

Heerdegen var ekki handtekinn vegna málsins en þau Ricci mega ekki vera í neinum samskiptum á meðan að nálgunarbannið er í gildi.

Ricci og Heerdegen kynntust á tökustað þáttarins Pan Am árið 2011 og byrjuðu saman ári síðar. Þau trúlofuðu sig árið 2013 og gengu í það heilaga sama ár. Þau eiga saman soninn Freddie, sem er fimm ára.

Ricci þreytti frumraun sína á hvíta tjaldinu aðeins tíu ára gömul í kvikmyndinni Mermaids árið 1990. Síðan sló hún rækilega í gegn sem Wednesday Addams í kvikmyndunum um Addams-fjölskylduna. Auk þess hefur hún leikið í myndum á borð við Sleepy Hollow, Monster, Fear and Loathing in Las Vegas og The Ice Storm.

Heerdegen hefur unnið lengi í kvikmyndabransanum, til að mynda við gerð myndanna Birdman, The Secret Life of Walter Mitty og Captain Phillips.

Us Weekly segir frá nálgunarbannsúrskurðinum og er frekari frétta af framvindu mála að vænta.