Raiden Gonzalez verður fimm ára í lok þessa mánaðar en það hvílir skuggi yfir gleðinni því Raiden litli hefur misst báða foreldra sína úr COVID-19.

Faðir hans, Adan, smitaðist af kórónuveiruna eftir að samstarfsfélagi hans fékk veiruna. Adan greindist þann 3. júní síðastliðinn og var lagður inn á spítala. Hann varð mjög veikur og lést þann 26. júní, aðeins 33ja ára gamall. Móðir Raidens, Mariah, var enn að syrgja eiginmann sinn þegar hún lést skyndilega þann 5. október. Hún var 29 ára. Hún lést aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hún byrjaði að finna fyrir einkennum, en nokkrum dögum eftir andlát hennar fékk móðir hennar símtal þess efnis að Mariah hefði verið með COVID-19.

Adan og Mariah.

„Mariah vildi halda minningarathöfn fyrir Adan en náði því ekki,“ segir móðir Mariah og amma Raidens, Rozie Salinas, í samtali við NBC. Rozie ætlar að halda minningarathöfn fyrir bæði Mariah og Aden eftir jól. Nú einbeitir Rozie sér að því að vera til staðar fyrir Raiden litla.

Mömmustrákur.

„Hann saknar mömmu sinnar því hann var mömmustrákur,“ segir hún. „Í morgun sagði hann mér að hann vildi fá mömmu sína aftur. Hvað á ég að segja honum? Ég segi honum bara að foreldrar hans sé englar sem fylgjast með okkur og vernda.“

Nú styttist í afmælið hans Raidens og Rozie er staðráðin í því að gefa honum gleðilegan afmælisdag. Henni og systur hennar datt í hug að hafa bílaafmæli, sökum COVID-19, þar sem fólk getur keyrt við í afmælið og fagnað með Raiden en samt lágmarkað snertingu og haldið sóttvörnum í lagi.

Rozie segir að Raiden sé ljósið í myrkrinu núna – að hann haldi henni gangandi í gegnum þennan fjölskylduharmleik.

„Hann heldur mér gangandi með því að minna mig á hve mikið hann elskar mig. Hann þakkar mér sífellt fyrir að hugsa um sig en ég hef engan annan til að hugsa um. Þetta eru erfiðar aðstæður.“