Peggy Reber var fjórtán ára gömul árið 1968 og bjó með móður sinni, Mary Reber, í íbúð í húsnæði í niðurníslu í borginni Líbanon í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Mæðgurnar bjuggu í hverfi í borginni þar sem glæpatíðni var hærri en gengur og gerist og voru íbúar húsnæðisins ansi skuggalegir oft á tíðum. Því fékk húsnæðið gæluafnið „Hús hinna brostnu hjarta.“

Ein í frumskógi lífsins

Það er vægt til orða tekið að segja að Mary hafi ekki verið fyrirmyndarmóðir. Hún var mikið fyrir sopann og hélt oft hávaðasöm teiti. Þá voru einnig sögusagnir uppi um það að hún væri vændiskona. Hún átti marga kærasta, sem komu og fóru úr íbúð þeirra mæðgna. Því sá Peggy að miklu leyti um sig sjálfa, en í íbúð þeirra mæðgna var ekkert rafmagn og oft ekkert til að bíta og brenna. Barnaverndaryfirvöldum hafði verið gert viðvart um slæmar heimilisaðstæður Peggyjar en höfðu ekki fjarlægt hana af heimilinu.

Hina unga Peggy.

Peggy átti eina systur, en sú gekk í hjónaband aðeins fjórtán ára gömul og flutti að heiman til að búa með eiginmanni sínum. Peggy þurfti því einvörðungu að treysta á sig sjálfa í hörðum frumskógi lífsins.

Peggy var dáin

Mary fór í helgarferð með vinum sínum til Atlantic City þann 23. maí árið 1968. Hún skildi Peggy eftir eina heima, eins og vanalega. Mary sneri heim tveimur dögum síðar. Það sem mætti henni í íbúðinni var manneskja sem lá hreyfingarlaus á gólfi eins svefnherbergisins. Hún hélt að þetta væri einhver sem hefði dáið áfengisdauða í íbúðinni, en það var alvanaleg sjón heima hjá þeim mægðum. Allt húsnæðið var rafmagnslaus og því sá Mary illa hver manneskjan var. Hún fór því í íbúðina á móti og bað nágrannann um hjálp við að bera manneskjuna út úr íbúðinni.

Það var þá sem Mary og nágranni hennar uppgötvuðu að manneskjan á gólfinu var ekki blindfullur og ókunnugur einstaklingur – þetta var Peggy. Peggy var dáin. Og dauðdagi hennar hafði verið afar hrottafullur.

Kynferðislega misþyrmt

Peggy hafði verið lamin og hún bitin. Hún hafði verið kyrkt, annað hvort með rafmagnssnúru eða slæðu. Þá hafði henni verið misþyrmt á kynferðislegan hátt, annað hvort með kústaskafti eða krukku. Hún var einnig misnotuð með boga, sem hafði verið stungið ítrekað inn í endaþarm hennar með svo miklum krafti að hann stóð út úr brjóstkassa hennar. Samkvæmt bókinni Justice Denied: The Unsolved Murder of Peggy Reber hafði boganum verið stungið upp í endaþarm hennar að minnsta kosti sextán sinnum og stungið hjarta hennar fimm sinnum. Því hlutu flest líffæri hennar mikinn skaða af. Búið var að bíta nánast alla vinstri geirvörtu hennar af í þokkabót.

Lögreglu reyndist erfitt að rannsaka málið þar sem búið var að eyðileggja vettvang glæpsins og flest sönnunargögn ónothæf. Cliff Roland stjórnaði rannsókn málsins og sagði í viðtali við Philadelphia Weekly árið 2008:

„Svo margir voru að ganga um, snerta hluti, færa hluti, spígspora í blóðinu hennar… Búið var að hylja nakinn líkama Peggýjar með teppi úr rúminu. Þetta var svo mikill glundroði.“

Húsið sem mæðgurnar bjuggu í.

Það var hins vegar ekki eina ástæðan fyrir því að erfitt reyndist að rannsaka málið. Fjölmiðlar og almenningur á þessum tíma eyddi nefnilega meiri tíma og orku í að gagnrýna móður Peggyjar og furða sig á því af hverju svo óhæf móðir hefði fengið að vera með barnið sitt. Þá fóru af stað háværar sögusagnir um að Mary hefði selt dóttur sína barnunga í vændi, sem var þó aldrei sannað.

Veggir í íbúðarhúsnæðinu voru örþunnir og því líklegt að einhver í byggingunni hefði heyrt eitthvað. Samt sem áður gaf sig enginn fram og fáir voru tilbúnir til að tala við lögreglumenn um morðið. Saksóknarinn á þessum tíma reyndi sitt með því að senda öllum leigjendum bréf og lofaði þeim nafnleysi ef þeir gæfu sig fram.

Nokkrir grunaðir

Eftir nokkra bið gaf einn einstaklingur sig fram. Sá hafði setið fyrir utan húsnæðið, rétt hjá íbúð mæðgnanna. Þessi aðili sagði lögreglumönnum að hann hefði séð mann sem hét Arthur Root í eldvarnarstiga hússins daginn sem morðið átti sér stað. Vitnið þekkti hann því hann hafði nýlega brotist inn í þvottahús sem vitnið átti. Arthur Root var smákrimmi sem hafði verið inn og út úr fangelsi síðustu fimmtán árin.

Annað vitni, tryggingasölumaðurinn Marlin Jones, vann með lögreglunni að teikningu að manni sem hann sá við íbúðarhúsnæðið á degi morðsins. Marlin Jones framdi sjálfsmorð tveimur vikum seinna og því telja margir að hann hafi myrt Peggy.

Fyrrnefndur rannsóknarlögreglumaður Cliff Roland, hélt alltaf að maður að nafni Morris Purcell væri morðinginn, eða ætti að minnsta kosti hlut að máli. Morris var uppgjafarhermaður sem var handtekinn og ákærður fyrir rán. Hann hengdi sig í gæsluvarðhaldi í fangelsinu í Líbanon í kjölfarið en Cliff var ávallt handviss um að hann hefði ekki verið einn af verki ef hann hefði átt hlut í morðinu á Peggy.

Cliff Rowland og Mary Reber.

Ískalt mál

Það fór loks þannig að Arthur Root var ákærður fyrir morðið á Peggy Reber í febrúar árið 1970 en var sýknaður. Málið var tekið upp aftur árið 2009 en þá var ekki hægt að tengja neinn við morðið á Peggy með óyggjandi hætti. Því er málið enn óupplýst og dvínandi líkur á að heimurinn fái nokkurn tímann að vita hver myrti Peggy Reber og af hverju.