Stjörnuhjónin Kanye West og Kim Kardashian eru flutt í sundur og hafa búið á sitthvorum staðnum í nokkra mánuði. Þetta er fullyrt í frétt TODAY. Ku hjónaband West-hjónanna standa á brauðfótum.

Hjónin eiga saman fjögur börn; North, 7 ára, Saint, 5 ára, Chicago, 2 ára og Psalm, 20 mánaða. Síðustu mánuði hefur Kanye búið í Wyoming en Kim með börnunum í Calabasas í Kaliforníu samkvæmt frétt TODAY.

Fleiri miðlar fjalla um hjónabandserfiðleika West-hjónanna í dag, þar á meðal Us Weekly.

„Kim og Kanye hafa ekki verið á sömu blaðsíðu um nokkra hríð,“ segir heimildarmaður Us Weekly.

Kim og Kanye gengu að eiga hvort annað árið 2014. Kim lærir nú lögfræði til að hafa áhrif í heiminum og gera heiminn betri fyrir fjölskyldu sína. Kanye er á allt öðrum stað, ef marka má heimildarmann Us Weekly.

„Kanye er ekki fókuserað og lifir ekki í raunheimum. Heimssýn þeirra er ekki lengur sú sama.“

Þá ku heilsufarsvandi Kanye spila inn í en hann er með geðhvarfasýki.

„Kim nennir ekki að eiga við Kanye og hans óútreiknanlegu hegðun. Hún hefur reynt að koma honum undir læknishendur, en án árangurs. Enginn segir Kanye fyrir verkum nema Kanye sjálfur,“ segir heimildarmaðurinn, en í fréttinni er einnig bent á að Kim hafi sést án giftingarhrings á fingri fyrir nokkru síðan.

Hvorki Kim né Kanye hafa staðfest þetta.