Leikarinn Ben Affleck er gestur í hlaðvarpinu Awards Chatter hjá The Hollywood Reporter til að tala um kvikmyndina sína The Way Back sem kom út í fyrra. Í viðtalinu fer hann um víðan völl og opnar sig til að mynda upp á gátt um samband sitt við söng- og leikkonuna Jennifer Lopez. Þau byrjuðu saman árið 2002 og fengu fljótt viðurnefnið Bennifer. Affleck er enn misboðið yfir þeim fúkyrðum sem Lopez fékk að þola á meðan á sambandi þeirra stóð.

„Fólk var svo ógeðslegt við hana – uppfullt af karlrembu og kynþáttahatri. Hræðilegt og illskeytt rusl var skrifað um hana, svo hræðilegt að þú yrðir rekinn úr vinnu í dag fyrir að segja svona hluti,“ segir Affleck í þættinum.

„Í dag er hún virt fyrir vinnuna sína, hvaðan hún kemur og hvað hún hefur afrekað – sem hún á fyllilega skilið!“

Lopez hefur áður sagt að það sé talsvert skárra að vera frægur á samfélagsmiðlum en á gullöld slúðurblaða þegar hún var á föstu með Affleck. Affleck segir fráleitt að frægt fólk leitist eftir því að lenda á síðum þessara blaða.

„Það er alltaf einhver stór saga mánaðarins og að ég hafi deitað Jennifer Lopez var slúðurblaðasagan þegar að slúðurblöðin risu sem hæst. Í dag segir fólk enn þá. Ég sé þig með paparössum og á myndum. Já, ég fór út með ruslið. Ég var ekki að reyna að vera myndaður. Og fólk segir: Þú fórst út fyrir paparassana. Eins og ég myndi fara út úr húsi í þeirri von að ég yrði svo heppinn að enda á The Daily Mail. Þetta er fráleitt!“

Affleck og Lopez trúlofuðu sig árið 2002 og ætluðu að ganga í það heilaga ári síðar. Þau frestuðu hins vegar brúðkaupinu og slitu síðan trúlofun sinni árið 2004. Þau léku í tveimur myndum saman; Jersey Girl og Gigli.

Viðtalið við Affleck má hlusta á hér fyrir neðan: