Fyrirsætan og plötusnúðurinn Crystal Hefner, ekkja Playboy-kóngsins Hugh Hefner, opnar sig á Instagram um afar óhugnalega lífsreynslu. Crystal fór í fegrunaraðgerð í fyrra og blæddi næstum út.

Crystal fór í svokallaða fitufyllingu þar sem fitu af einu svæði á líkamanum er komið fyrir í annan líkamspart, oftast nær í brjóstin til að lyfta þeim, stækka þau og móta. Í tilviki Crystal fór fitan einmitt í brjóstin.

„Ég fór í fitufyllingu þann 16. október og ég lifði það næstum því ekki af,“ skrifar Crystal við mynd af sér með stuðningsvafning um brjóstin.

„Ég missti helminginn af blóðinu í líkamanum mínum og þurfti að fá blóðgjöf í æð,“ skrifar hún. „Ég hef hægt og bítandi verið að ná fyrri heilsu og núna loksins er ég á góðum stað.“

Crystal segir lífsreynsluna hafa komið aftan að sér, þó hún hefði átt að vita betur.

„Ég tala fyrir því að halda í náttúrulegt útlit þar sem ég varð mjög veik og ákvað að láta fjarlægja púða og önnur eiturefni úr líkama mínum árið 2016. Ég hefði átt að læra mína lexíu þá en ætli alheimurinn sendi manni ekki sömu prófraunirnar þangað til maður lærir af þeim.“

Í færslunni á Instagram talar Crystal einnig um óraunhæfa fegurðarstaðla í heiminum í dag.

„Menningin okkar er gildra og lætur konum líða hræðilega með sig sjálfar,“ segir hún og heldur áfram. „Samfélagsmiðlar gera þetta verra. Auglýsingar gera illt verra. Fólk sem ýtir undir óeðlilega líkamsímynd gerir þetta verra (ég var eitt af þessu fólki).“

Crystal er greinilega mikið niðri fyrir í þessum efnum.

„Skilgreining fegurðar í okkar menningu gerir það að verkum að við náum aldrei að halda í við þá skilgreiningu. Konur eru ofurkyngerðar. Ég veit það af slæmri reynslu. Í tíu ár byggði ég virði mitt á því hve vel líkami minn leit út. Ég var verðlaunuð og lifibrauð mitt var byggt á útliti mínu. Enn í dag þar ég að skrifa niður ástæður fyrir því að ég skipti máli sem hafa ekkert með líkamlegt útlit mitt að gera, eingöngu til að sannfæra mig um að ég sé nóg.“

Hún segist vorkenna komandi kynslóð vegna þessara fegurðarstaðla.

„Það er áfall fyrir mig að hafa bognað undan þessum þrýstingi,“ skrifar hún og vísar í fyrrnefnda aðgerð sem kostaði hana næstum því lífið.