Hin fimmtán ára Elyse Pahler brá sér út að kvöldi 22. júlí árið 1995 með þremur unglingsdrengjum sem höfðu lofað henni fíkniefnum. Síðar sama kvöld myrtu drengirnir Elyse, en þeir voru þá 14, 15 og sextán ára. Drengirnir þrír voru þeir Jacob Delashmutt, Joseph Fiorella og Royce Casey.

Morðingjar og náriðlar

Delashmutt tók af skarið og kyrkti Pahler með belti. Casey hélt henni síðan niður á meðan Fiorella dró fram veiðihníf og stakk honum í háls stúlkunnar. Því næst stakk Delashmutt hana og loks Casey. Pahler var stungin alls tólf sinnum. Dauðdagi hennar var afar sársaukafullur þar sem stungusárin voru ekki nógu alvarleg til að morðið tæki skjótt af. Henni blæddi því til dauða. Drengirnir þrír geymdu líkið nálægt heimili Pahler í Arroyo Grande í Kaliforníu í Bandaríkjunum og í átta mánuði sneru þeir reglulega aftur á morðvettvanginn til að nauðga líkinu. Þetta gerðu þeir á meðan að fjölskylda stúlkunnar leitaði að henni.

Drengirnir þrír.

„Hún lá á jörðinni, bað til Guðs og kallaði á móður sína“

Það var svo í mars árið 1996 sem Casey gaf sig fram og játaði verknaðinn á sig og sagði til samverkamanna sinna eftir að lögreglumenn höfðu fundið líkið. Casey ákvað að koma úr felum því hann hafði nýlega fundið Guð. Þá var hann einnig hræddur um að hinir tveir myndu myrða hann næst og fullyrtu að þeir væru byrjaðir að leggja á ráðin um önnur morð. Hann sagði rannsóknarlögreglumönnum að Pahler hefði kallað á móður sína þegar drengirnir réðust á hana.

Elyse Pahler á góðri stundu.

„Hún lá á jörðinni, bað til Guðs og kallaði á móður sína,“ sagði hann við yfirheyrslur. Casey sagði að hann og hinir tveir drengirnir hefðu lagt á ráðin um morðið í rúmlega mánuð. Raunar höfðu þeir eitt sinn áður reynt að drepa hana en mistekist. Þríeykið skipulagði árásina á meðan þeir voru á hljómsveitaræfingu, en þeir mynduðu dauðarokkssveitina Hatred. Þeir voru undir miklum áhrifum rokksveitarinnar Slayer, sem syngur oft um hluti tengda djöfladýrkun. Ástæða þess að drengirnir ákváðu að taka líf Pahler var einmitt tengd djöfladýrkun, eins og kom fram við yfirheyrslur þegar að Casey var spurður af hverju þeir gerðu þetta.

„Það var svo við fengjum kraft frá djöflinum til að spila betur á gítar,“ sagði Casey. Þeir litu á morðið sem fórn til djöfulsins svo hljómsveitin þeirra Hatred gæti orðið heimsfræg. Pahler reyndist vera hin fullkomna bráð.

„Hún var með ljóst hár og blá augu og var fullkomin fórn fyrir djöfulinn því hún var hrein mey.“

Meinlaust í fyrstu

En hvernig gátu þrír ungir drengir snúist svo hræðilega á sveif með djöflinum? Það var Fiorella sem fékk fyrst áhuga dulrænum fyrirbærum og kynnti slíkt fyrir vinum sínum. Þeir höfðu áhuga og þar sem Fiorella vissi mest um þessi málefni varð hann að leiðtoga hópsins. Fiorella safnaði öllum bókum sem hann fann og rannsakaði dulspeki og djöfladýrkun. Þríeykið byrjaði að spjalla við aðra djöfladýrkendur á netinu, brjótast inn í kirkjugarða og svipast um eftir grafreitum sem þeir vildu grafa upp.

Delashmutt sagði að þetta áhugamál hefði verið meinlaust í fyrstu.

Þríeykið í réttarsalnum.

„Við reyktum gras, spiluðum á gítar, slöppuðum af. Ég fílaði bara þungarokk,“ sagði hann. Síðan spurði Fiorella hann að spurningu sem breytti öllu. Hvort hann væri „til í að fórna einhverju, eins og hreinni mey. Ég tók hann ekki alvarlega. Ég sagði bara: Alveg eins.“

Dealshmutt, Fiorella og Casey hlutu hvor um sig 25 ára fangelsisdóm fyrir verknaðinn. En þar með var þessum harmleik ekki lokið.

Í mál við Slayer

Foreldrar stúlkunnar, David og Lisanne Pahler, héldu því statt og stöðugt fram að Slayer-lögin Postmorten og Dead Skin Mask af plötunum Reign in Blood og Seasons in the Abyss hefðu gefið drengjunum þremur nákvæmar leiðbeiningar um hvernig þeir ættu að elta, nauðga og misþyrma Elyse Pahler, myrða hana síðan og nauðga líkinu. Pahler-hjónin höfðuðu fyrst mál gegn Slayer og nokkrum plötuútgáfum vegna málsins árið 1996 en málinu var frestað til ársins 2000 þegar búið var að dæma morðingja dóttur þeirra. Málinu var upphaflega vísað frá með þessum orðum dómarans:

„Það er ekki hægt í nokkrum lagalegum skilningi að láta Slayer bera ábyrgð á dauða þessarar stúlku. Hvar á að draga línuna? Það er alveg eins hægt að fara í gegnum hverja einustu bók á bókasafninu.“

Pahler-hjónin voru hvergi banginn og fóru aftur í mál við Slayer árið 2001. Í þeirri málsókn voru meðlimir Slayer sakaðir um að „dreifa vísvitandi skalegu efni til ungmenna.“ Því máli var einnig vísað frá af dómaranum E. Jeffrey Burke.

„Textar Slayer eru hryllilegir og andstyggilegir,“ skrifaði Burke meðal annars í ákvörðun sinni sem taldi fjórtán blaðsíður. „En þeir skipa ekki eða leiðbeina hlustendum um hvernig eigi að fremja verknað eins og skelfilega morðið á Elyse Pahler.“

Burke sagði einnig að tónlistin væri ekki skaðleg börnum og að tónlistin væri stjórnarskrárvarin, þar sem hún fellur undir frelsi til tjáningar. Málið vakti mikla athygli, sérstaklega meðal fólks í tónlistariðnaðinum, einmitt vegna þessa frelsis til tjáningar.

Kvikmyndin Jennifer’s Body frá árinu 2009 er talin vera innblásin af máli Elyse Pahler. Hún fjallar um Stúlku, sem leikin er af Megan Fox, sem er andsetin og drepur karlkyns skólafélaga sína. Myndin náði ekki flugi þegar hún var frumsýnd en í kjölfar MeToo hreyfingarinnar hefur hún fengið lof sem feminísk hryllings- og költmynd.

Heimildir:

https://en.wikipedia.org/wiki/Murder_of_Elyse_Pahler
https://medium.com/true-crime-addiction/a-dead-body-lying-next-to-mine-satanic-murder-5687c4b9aabe
https://www.sanluisobispo.com/news/local/crime/article39122823.html
https://en.wikipedia.org/wiki/Jennifer%27s_Body