Lítill snáði kom í heiminn í Pretoría í Suður-Afríku þann 28. júní árið 1971. Hann var án efa eitt af fjölmörgum börnum sem fæddust á þessum degi í þessum hluta heimsins, en þessi sérstaki hvítvoðungur átti eftir að setja mark sitt á mannkynssöguna. Í dag er hann ein af tíu ríkustu manneskjum í heiminum samkvæmt tímaritinu Forbes og einnig einn af valdamestu núlifandi einstaklingunum. Undanfarið hafa skoðanir hans á öllu frá COVID-19 til Donald Trump og uppvakninga hins vegar varpað skugga á annars óflekkað orðspor hans í viðskiptalífinu. Þessi litli suður-afríski drengur verður fimmtugur á næsta ári og heitir Elon Reeve Musk.

Ríkidæmi í Pretoríu

Uppvöxtur Elon var þyrnum stráður. Móðir hans er fyrirsætan og næringarfræðingurinn Maye Musk og faðir hans, Errol Musk, er rafvélaverkfræðingur, flugmaður og dáti. Elon á yngri bróðirinn Kimbal sem fæddist árið 1972 og yngri systurina Tosca, sem fæddist tveimur árum síðar.

Errol Musk.

Foreldrar Elon skildu þegar hann var aðeins níu ára gamall og hann ákvað að búa hjá föður sínum. Hann hefur síðar sagt að það hafi verið stór mistök, því faðir hans hafi verið „hræðilegur maður“. Í raun er lítið vitað um Errol Musk annað en að hann hafi verið ógeðfelld mannvera. Það ganga margar flökkusögur um Errol þennan Musk, þar á meðal að hann hafi borgað fyrir skólagöngu sonar síns með hagnaði af smaragðsnámu. Elon Musk hefur tekið fyrir þessa sögu, þar á meðal á Twitter.

Errol átti samt sem áður mikilli velgengni að fagna og bjó í einu af stærstu húsunum í Pretoría til að sýna ríkidæmi sitt. Hann átti verkfræðistofu sem vegnaði vel og varð hann milljónamæringur fyrir þrítugt. Hann var kvensamur mjög og ku hafa beitt bæði fyrrverandi eiginkonu sína og börn ofbeldi. Báðir þessir lestir kristölluðust í frétt The Times í mars árið 2018 þegar sagt frá því að Errol Musk ætti von á barni með stjúpdóttur sinni, Jönu Bezuidenhout. Þá var Errol 72 ára en Jana aðeins 30 ára. Í viðtali við MailOnline sagði Errol að um slys væri að ræða en að Jana og barnið byggju hjá honum þó þau Jana væru ekki í ástarsambandi.

Fór gegn vilja föður síns

En aftur að syninum Elon Musk. Heimilislífið var ekki það eina sem litaði heiminn dökkum blæ. Hann var einnig lagður í gróft einelti og þurfti einu sinni að leggjast inn á spítala eftir að hópur af drengjum henti honum niður stiga. Faðir hans vildi að hann myndi sækja sér framhaldsmenntun í Pretoríu en Elon var staðráðinn í því að freista gæfunnar í Bandaríkjunum. Móðir hans fæddist í Kanada og því ákvað Elon að næla sér í kanadíska vegabréfsáritun til að auðvelda flutning til Bandaríkjanna. Hann flutti til Kanada rétt fyrir átján ára afmælisdaginn og gekk í Queen’s háskóla árið 1989. Þremur árum síðar fór hann í háskólann í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum til að leggja stund á hagfræði og eðlisfræði. Hann útskrifaðist árið 1997 með BA-gráðu í báðum fögum.

Bræðurnir Elon og Kimbal.

Bissnessmaður er fæddur

Það má segja að viðskiptamógúllinn Elon Musk hafi fæðst árið 1995 þegar hann stofnaði fyrirtækið Zip2 með bróður sínum. Um var að ræða hugbúnaðarfyrirtæki sem var keypt af Compaq fyrir rúmlega þrjú hundruð milljónir dollara árið 1999. Elon átti sjö prósent hlut í fyrirtækinu og gekk því frá borðinu með 22 milljónir dollara í vasanum.

Hluta af gróðanum notaði Elon til að stofna netbankann X.com árið 1999 sem einu ári síðar sameinaðist fyrirtækinu Confinity sem átti PayPal. Sameinað fyrirtæki fékk nafnið PayPal og var einblínt á þá greiðslulausn. Þegar eBay keypti PayPal fyrir einn og hálfan milljarð dollara árið 2002 fékk Elon 165 milljónir dollara í sinn hlut, enda stærsti einstaki hluthafinn í fyrirtækinu.

PayPal selt og ánægður Elon.

Svo var það árið 2002 sem Elon stofnaði fyrirtækið SpaceX, sem hefur verið mikið í fréttum undanfarið. Fyrir stuttu skaut fyrirtækið mannaðri geimflaug út í geim, en um er að ræða fyrstu mönnuðu geimferðina með einkafyrirtæki í sögunni. Það má segja að geimskotið hafa þaggað niður í nokkrum neikvæðispésum í garð Elon, en vegna úblásins sjálfsálits og digurbarkarlegra yfirlýsinga í gegnum tíðina hefur hann náð að krækja sér í ansi marga óvini hér og þar. Geimskotið er án efa hans stærsta afrek, þó hann sé ávallt meira þekktur fyrir að vera framkvæmdastjóri rafbílaframleiðandans Tesla. Nú stefnir hann á landvinninga á Mars, þar sem mannfólkið getur forðast þriðju heimsstyrjöldina, að hans sögn.

Eldvörpur í massavís

Elon einskorðar landvinninga sína ekki aðeins við geiminn. Meðal þeirra fjölmörgu verkefna sem hann er með á teikniborðinu er neðanjarðargöng sem tengja bandarískar borgir. Það verkefni er unnið á vegum The Boring Company, fyrirtækis sem Elon stofnaði árið 2016. Það fyrirtæki er hins vegar þekktara fyrir að selja hatta, eldvörpur og slökkvitæki til að búa sig undir uppvakningabyltingu. Í auglýsingum fyrir eldvörpurnar var því lofað að þær gætu drepið uppvakninga. Ef ekki, myndu viðskiptavinir frá endurgreiðslu. Ekki hefur komið til þess enn, en fyrirtækið seldi tvö þúsund eldvörpur árið 2018.

Barnaníðingar og COVID-19

Síðan þá hafa yfirlýsingar hans orðið skrýtnari og skrýtnari. Hann bauðst til að hjálpa til við að bjarga tólf drengjum úr helli í Taílandi árið 2018, en sú hjálp var ekki þegin. Þá sakaði Elon breska kafarann Vernon Unsworth, sem talin er hafa sýnt mikla hetjudáð við björgunina, um að vera barnaníðingur.

Hann hefur einnig talað fjálglega um kórónuveirufaraldurinn og ýjaði að því að hann sé vart mælanlegur í Bandaríkjunum, landinu sem hefur farið hvað verst út úr heimsfaraldrinum. Þá þverbraut hann útgöngu- og samkomubann vestan hafs með því að opna verksmiðjur Tesla og þrýstir á ráðamenn að slaka á COVID-tauminum. Bandaríkjaforseti Donald Trump studdi opnun verksmiðjunnar og hafa þeir Elon orðið nánari og nánari undanfarið. Elon studdi einnig rapparann Kanye West opinberlega þegar hann sagðist ætla að bjóða sig fram til forseta á dögunum, en West er með geðhvarfasýki og var í maníu þegar hann tilkynnti um framboð sitt.

View this post on Instagram

May the 4th be with you 🌠

A post shared by @ elonmusk on

Í síðasta mánuði tísti hann síðan að það gæfi augaleið að geimverur hefðu byggt píramídana.

Það uppátæki sem hefur vakið hvað mesta óhug er fyrirtækið Neuralink, sem Elon stofnaði árið 2016. Undir nafni þess er nú unnið að því að þróa hugbúnað með gervigreind til að græða í mannsheila. Hefur Elon sagt að þessi hugbúnaður gæti bætt minni fólks, útrýmt fíknisjúkdómum og læknað þunglyndi, svo fátt eitt sé nefnt. Byrjað er að prófa hugbúnaðinn í dýrum og brátt verður komið að mannfólkinu.

Nafnaruglið

Einkalíf Elon hefur einnig vakið talsverða athygli undanfarið. Hann er þrífráskilinn og er nú í sambúð með listakonunni Grimes, sem heitir réttu nafni Claire Boucher. Þau byrjuðu saman árið 2018, ári eftir að Elon gamnaði sér með leikkonunni Amber Heard. Í raun hefur Elon verið tengdur við ansi margar konur, hvort sem hann hefur verið lofaður eða einhleypur, en það er önnur saga.

Elon og Grimes.

Grimes og Elon eignuðust son þann 4. maí árið 2020. Hann hlaut nafnið X Æ A-12. Já, Elon fer svo sannarlega ótroðnar slóðir. Hins vegar var nafnið ólöglegt innan lagaramma Kaliforníufylkis þar sem það innihélt stafinn Æ, sem er ekki í bandaríska stafrófinu, sem og tölustafinn 12. Því þurftu skötuhjúin að breyta nafni snáðans í X AE A-Xii. Útskýring á tilurð nafnins er síðan jafn villandi og nafnið sjálft:

„X er óþekkt stærð, Æ er álfaritun á Ai (ást og/eða gervigreind) og Lockheed A-12 var uppáhalds flugvélin okkar,“ lét Grimes hafa eftir sér um nafnið.

View this post on Instagram

Elon and baby X 👶🏻

A post shared by @ elonmusk on

Svo má ekki gleyma útliti auðjöfursins, sem hefur verið mikið milli tannanna á fólki. Þá helst að hann hafi farið í hárígræðslu eins og margir mætir menn. Dæmi nú hver fyrir sig:

Átrúnaðargoð verður illmenni?

Elon hefur oft verið líkt við járnkarlinn Tony Stark, sem Robert Downey Jr. hefur túlkað svo vel á hvíta tjaldinu. Elon hefur tekið þeim samanburði fagnandi og nýtt sér hann óspart. Þó Elon hafi svo sannarlega unnið sér margt til tekna hafa einhverjir aðdáendur hans áhyggjur af því að átrúnaðargoðið gæti breyst í illmenni innan tíðar. Vonandi verður hann samt búinn að gera geimferðir aðgengilegar almenningi, vinna sigur á uppvakningaher og nema land á Mars áður en það gerist.

View this post on Instagram

🖐🏻

A post shared by @ elonmusk on