„Þessi mynd er persónulegasta verkefni sem ég hef gert og byggir á eigin bernskuminningu. Það var stundum óþægilegt að vinna handritið og myndina en ég fékk líka mikið út úr því. Ég er mjög ánægð að ég þorði að gera þetta og kanski á ég eftir að vinna eitthvað meira upp úr þessum reynslusarpi,“ segir kvikmyndagerðarkonan og ljósmyndarinn Inga Lísa Middleton.

Stuttmynd hennar, Óskin, var heimsfrumsýnd á RIFF, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík, fyrir stuttu. Myndin fjallar um Karen, níu ára stúlku sem ferðast með móður sinni til London til að uppfylla langþráðan draum um að hitta föður sinn. Það er vægt til orða tekið að segja að endurfundir þeirra séu frábrugðir því sem Karen sá fyrir sér og gerir hún sér grein fyrir því að faðir hennar er ekki sá faðir sem hana dreymdi um að eiga.

„Ég ber engar bitrar tilfinningar til hans“

Myndina byggir Inga Lísa á sinni eigin persónulegu reynslu, en upp úr sambandi móður hennar og föður slitnaði stuttu eftir að hún kom í heiminn. Inga Lísa flutti með móður sinni til Íslands þegar hún var þriggja ára og sá ekki föður sinn, sem var enskur, fyrr en hún var níu ára.

„Þá hafði ég hvorki séð hann né verið í sambandi við hann. Þetta voru skrýtnir endurfundir. Það var spennandi að hitta hann, bóheminn sem lifði fyrir leikhúsið. Þegar hann kláraði leiklistarskóla stofnaði hann leikhús í gömlu bænahúsi gyðinga í East End í London. Hann bjó í búningsherberginu og svaf á dýnu undir fatarekkanum. Honum fannst það toppurinn á tilverunni en fyrir mér var dálítið hann eins og útigangsmaður. Hann var mjög stoltur af þessum lífsstíl en mér fannst hann einkennilegur,“ segir Inga Lísa. Hún eyddi nokkrum dögum með föður sínum í London, fór svo aftur heim til Íslands með móður sinni og hitti föður sinn ekki aftur fyrr en hún varð átján ára.

„Mamma hafði upp á pabba, en hann var þá búsettur í Sheffield. Mig langaði til að kynnast honum þó að hann hefði aldrei verið í sambandi við mig því hann var alltaf á kafi í því sem hann var að gera. Þegar þarna er komið við sögu var hann giftur og átti aðra litla dóttur en ég eyddi helgi með þeim. Síðar fór ég í listnám eftir stúdentsprófið til Bretlands og kynntist honum, konunni hans og hálfsystur minni betur. Pabbi dó þegar hann var mjög ungur, varð bráðkvaddur aðeins 49 ára. Við rétt náðum að gera upp allt okkar og ræða það ofan í kjölinn. Ég ber engar bitrar tilfinningar til hans. Ég skil af hverju hann hagaði sér svona en það var samt sárt að upplifa það aftur við tökur á Óskinni,“ segir Inga Lísa. Fjórum dögum áður en faðir hennar lést áttu þau feðginin gott spjall, þar sem Inga Lísa náði betur að setja sig inn í hugarheim föður síns og af hverju hann hafði aldrei samband við dóttur sína á Íslandi.

Inga Lísa og faðir hennar í London árið 1974 – ljósmyndin sem kveikti hugmyndina að Óskinni.

„Hann var 24 ára þegar hann kynntist mömmu, en hún var fimm árum eldri en hann. Þegar ég var að klára mitt nám í listaskóla var ég 24 ára og skildi betur hvernig maður getur orðið heltekinn af því sem maður er að skapa. Ég er ekki að afsaka þessa hegðun hans en ég skil hana.“

Á meira inni

Inga Lísa segir að í Óskinni blandi hún saman mismunandi tímabilum í sambandi þeirra feðginanna og að uppgjöri þeirra á milli sé í raun þjappað saman í þessa nítján mínútna stuttmynd. Myndin byggir á brotum í samskiptum milli þeirra tveggja og síðan spunnið í kringum þau til að gera söguna heildstæða. Inga Lísa er með BA gráðu í ljósmyndun frá University of the Creative Arts í Surrey og MA gráðu frá The Royal College of Art í London. Það má segja að kveikjan að því að skrifa um þessa endurfundi sem birtast áhorfendum í Óskinni hafi fæðst í listnáminu, en Inga Lísa þurfti ákveðna fjarlægð frá atburðunum til að geta gert þeim betur skil.

„Ég man þegar ég var í listaskóla, á þessum árum þegar ég var að hitta pabba og kynnast honum betur. Þá spurði strákur sem leigði með mér mig af hverju ég notaði ekki þessa reynslu í verkin mín? En var þetta var alltof hrátt og ég þurfti að fá tíma til að melta þessa upplifun og erfiðu tilfinningar. Mig hefur lengi langað til að vinna með þessa reynsu og er Óskin afrakstur þess. Ég er með lengri verkefni í deiglunni sem væntalega munu líta dagsins ljós á komandi árum. Ég gerði stuttmyndina Búa fyrir fjórum árum og var þá ekki búin að leikstýra í einhvern tíma. Mér fannst ég þurfa að gera aðra stuttmynd og því ákvað ég að gera Óskina,“ segir Inga Lísa. Hún er fullviss um að hún eigi eftir að skrifa meira um samband sitt við föður sinn í framtíðinni.

„Ég er búin að skrifa útlínur að sögunni og hún gæti endað sem mynd í fullri lengd eða þættir. Þetta er samt eiginlega of persónulegt því inn í þessa sögu spinnast systir mín, mamma og seinni kona hans sem er enn á lífi. Ég er ekki viss um að þetta sé hægt og ég veit ekki hvernig ég færi að þessu verkefni. Þó þetta sé mín saga þá fléttast líf þeirra óneitanlega þarna inn í. Ég held að eina leiðin til að gera svona sé að vera hreinskilin, en þetta er bara mín upplifun. Ég held að ef ég gerði meira með þessa sögu þá þyrfti hún að vera miklu meira abstrakt. Sjálfævisöguleg mynd með töfraraunsæi. Ég þyrfti að halda í tilfinningar og kjarnann og blanda saman hvað er satt og hvað er það ekki. Ég held að ég þyrfti að segja söguna þannig að hún snerti áhorfandann án þess að vera of bókstafleg.“

Frétti af andláti föður síns í blöðunum

Stuttmyndin Óskin hefur hreyft við fólki, þó það hafi ekki endilega gengið í gegnum það sama og Inga Lísa gekk í gegnum. Með aðalhlutverk í myndinni fara Hera Hilmarsdóttir, Sam Keeley og Hrafnhildur Eyrún Hlynsdóttir en Inga Lísa leikstýrði myndinni og skrifaði handritið. Hún vann mikið og náið með leikurunum áður en tökur hófust.

Hera, Hrafnhildur og Sam í hlutverkum sínum í Óskinni.

„Ég sagði þeim bara hvernig þetta var,“ segir Inga Lísa. „Hera, Sam og litla Hrafnhildur náðu að tengja sig við söguna á djúpan hátt. Skildu hvað var í gangi.  Þetta var mjög ljúfsárt ferli og ekki eins þungt og ég hélt. Leikararnir undurbjuggu sig mjög vel og Hrafnhildur kunni til dæmis allt handritið utanbókar þegar hún mætti, bæði sínar línur og allra annarra. Litla stelpan í myndinni er talsvert frakkari en ég og ég læt hana segja hluti sem ég hefði viljað segja á þessum tíma eins og: Af hverju kemurður aldrei að heimsækja okkur? Af hverju kynnirðu mig ekki fyrir fólki? Ertu ekki pabbi minn? Stelpan í myndinni hjólar beint í þetta en okkar ferli í raunveruleikanum tók lengri tíma. En ég gafst aldrei upp,“ segir Inga Lísa og rifjar upp nokkur spaugilegu atvik úr sambandi hennar við föður sinn.

„Okkar samband var ekki alltaf auðvelt og pínu erfitt og einkennilegt ferðalag, í raun eins og bíómynd þegar maður segir frá því. Ég frétti til dæmis að hann væri látinn í blöðunum, þar sem ég var á ferðalagi fyrir tíma GSM og ekki hægt að ná í mig. Pabbi var þekktur sjónvarpsleikari í Bretlandi og þegar hann dó voru paparassí ljósmyndarar alls staðar, fyrir utan húsið hans og í kirkjugarðinum og gengu svo langt að nánast mynda ofan í gröfina. Það var alveg svakalegt. Þar sem hann var frekar þekktur þá var ekki hægt að vera með honum án þess að einhver væri að fylgjast með okkur eða biðja um eiginhandaáritanir. Hann var ekki mikið að kynna mig fyrir fólki því ég held að honum hafi fundist skrýtið að eiga svona gamla dóttur, því það gerði hann eldri. Hann kynnti mig ekki alltaf sem dóttur sína og stundum leið mér eins og ég væri viðhaldið hans,“ segir Inga Lísa og hlær.

„Það var margt spaugilegt sem gerðist í okkar sambandi. Þó það væri óþægilegt þá langaði mig að kynnast pabba mínum. Ég held að ég hafi látið mig hafa allskonar erfiðar uppákomur til að kynnast honum, sem svo tókst á endanum.“

Býr til myndir á gamla mátann

RÚV hefur tryggt sér sýningaréttinn á Óskinni. Myndin fer á tvær hátíðir í október og fleiri hátíðir munu eflaust fylgja í kjölfarið. Því má búast við því að Óskin muni prýða hvíta tjaldið á ýmsum hátíðum næsta árið eða svo. Inga Lísa nær jöfnum stundum að vinna við handritaskrif og kvikmyndagerð sem og ljósmyndun, fagið sem hún er menntuð í. Undanfarið hefur hún aðallega unnið myndir með svokallaðri cyanotype aðferð sem sveipar myndum bláum blæ. Það var enski vísindamaðurinn og stjörnufræðingurinn Sir Jon Herschel sem uppgötvaði þessa aðferð árið 1842 og hefur Inga Lísa gert ýmsar tilraunir með cyanotype aðferðina, sem og aðrar aðferðir sem Herschel uppgötvaði og þróaði. Myndir hennar eru til sölu í fjórum galleríum í Bretlandi og einu í Frakklandi og hélt hún síðast sýningu á Íslandi fyrir þremur árum. Næsta vor verða myndir hennar á sýningu í Tókíó í Japan ef COVID leyfir.

Inga Lísa við Cyanotype myndir úr seríunni ‘Phytoplankton / svif’ sem hefur verið sýnd í London og er á leið til Tókíó.

„Það er mjög gaman að vinna eftir aðferðum Herschel. Hann bjó til margar mismunandi ljóssnæmar formúlur sem gefa myndum marga mismunandi liti. Það er gaman að setja hendur í kalt vatn aftur og búa til myndir á gamla mátan því engin mynd er eins. Fólk virðist einnig kunna að meta svona handgerðar myndir aftur,“ segir Inga Lísa. Hún hefur unnið í kvikmyndabransanum í fjölda ára, fyrst sem skrifta og ljósmyndari, nú sem leikstjóri og handritshöfundur. Hún vann meðal annars sem skrifta við myndirnar Bíódagar, Djöflaeyjan, Tár úr steini og Cold Fever og segir það mikinn og góðan skóla að hafa unnið við hlið nokkurra af merkasta kvikmyndagerðarfólki Íslands.

„Þegar maður er skrifta þá þekkir maður handritið frá A til Ö og situr þétt við hliðina á leikstjóra, tökumönnum og framleiðanda. Þá sér maður hvernig handritið er brotið upp og síðan skotið. Þetta var frábær skóli,“ segir Inga Lísa. Þegar hún var í BA náminu í Surrey bjó hún til hreyfimynd sem seld var til Channel 4 og tók síðar þátt í stóru samvinnuverkefni í The Royal College of Art sem sýnt var á BBC. Árið 1992 gerði hún síðan klippimyndina Ævintýri á okkar tímum þar sem hún tók myndir af leikurunum Eddu Heiðrúnu Backman, Kjartani Bjargmundssyni, Baltasar Kormáki og Lilju Ívarsdóttur, klippti myndirnar út, setti þær á sellur og kvikaði á gamla mátann. Sú mynd keppti til að mynda á kvikmyndahátíðinni frægu í Cannes og sópaði til sín verðlauna. Þá var ekki aftur snúið og hentar kvikmyndaformið henni vel.

„Þegar ég var að gera ljósmyndir gat ég ekki sagt það sem ég vildi segja með aðeins einni mynd. Ég gerði alltaf myndaseríur,“ segir hún.

Settist niður og fór inn á við

Eins og áður segir gerði Inga Lísa stuttmyndina Búa árið 2016. Sú mynd var sýnd á RÚV, fór á heimmikið festivalaflakk, vann til verðlauna og er í dreifingu fjá svissnesku fyrirtæki. Hún vill taka konseptið á bak við Búa lengra og gera sjónvarpsþætti, þar sem stuttmyndin var aðeins byrjunin á lengri sögu. Inga Lísa býr í Bretlandi og er alltaf með annan fótinn á Íslandi. Hún hefur dvalið hér síðustu daga og fer aftur út einhvern tímann í október, en eins og gefur að skilja hefur þetta ár verið talsvert frábrugðið öðrum.

„Ég var auðvitað með alls konar plön sem breyttust í vor þegar plágan dundi yfir. Þegar maður er læstur inni þá sest maður niður og skrifar og fer inn á við. Í mínu tilfelli var ég mjög dugleg að skrifa og það skrýtna er að ég hef einnig verið að selja myndir. Ég bjó mér til heimaaðstöðu til að stækka myndirnar og er búin að vera að vinna á fullu sveittan skallann þrátt fyrir ástandið í heiminum,“ segir Inga Lísa og hlær. „Ég er í þeirri aðstöðu að ég gat haldið áfram að gera það sem ég hef verið að gera, ólíkt mörgum öðrum. Í vor var ég með hnút í maganum því það voru allir veikir og þúsund manns dóu á dag í Bretlandi. Manni fannst vera lífshættulegt að fara út í búð. Þá var gott að geta lokað sig inni heima og sinnt kreatívum verkefnum. Það er svakalegt hvernig þetta ástand hefur farið með leikhús og kvikmyndagerð í Bretlandi. Þar hefur öllu verið skellt í lás. Íslendingar hafa tekið talsvert betur á þessum faraldri en Bretar eru algjörlega búnir að missa tökin.“

Inga Lísa vinnur úti í garði í sumar í London. Myndin var tekin þegar að samkomu- og útgöngutakmarkanir voru verulega hertar.

En ætlar hún ekki að flytja aftur heim til Íslands?

„Nei, ég sé það ekki fyrir mér. Mér finnst gott að hafa annan fótinn hér en eiginmaður minn, Michael Rose, á framleiðslufyrirtæki í Bretlandi og framleiðir teiknimyndir. Ég sé því ekki fyrir mér að flytja alveg heim á næstunni, þó svo að  ég muni reyna að fá hann til að vinna meira héðan.“