Sheila Wysocki og Angela Samtoa kynntust á sínum fyrsta degi í háskólanum í Dalla í Texas í Bandaríkjunum árið 1982. Þær voru herbergisfélagar í háskólanum og urðu síðar bestu vinkonur. Þær ólust báðar upp án föður og tengdust sterkum böndum vegna þess. Að öðru leiti voru þær gerólíkar. Angela var námshestur sem lagði mikið á sig fyrir góðar einkunnir. Sheila var lesblind og hennar helsta markmið var að klára skólann og forðast fall.

Tveimur árum síðar, þegar að stöllurnar voru aðeins tvítugar, var Angelu nauðgað og hún myrt í íbúð vinkvennanna. Nánar tiltekið þann 13. október árið 1984. Morðið var hrottafullt, svo vægt sé til orða tekið. Angela var stungin ítrekað og lést vegna hjartaskaða.

Málið óleyst

Fyrr um kvöldið hafði Angela farið með tveimur vinum sínum á hátíð í Texas. Síðan lá leiðin á næturklúbb þar sem Angela skemmti sér þar til einhvern tímann eftir miðnætti. Angela keyrði síðan vini sína heima, kom við hjá kærasta sínum til að kyssa hann góða nótt og loks heim til sín að sofa. Rétt fyrir tvö um nóttina hringdi Angela í kærasta sinn og sagði að það væri maður í herberginu hennar sem hefði beðið um að nota símann hennar og salernið. Angela leitaði ráða hjá kærastanum en sagðist síðan ætla að hringja strax aftur í hann og skellti á. Þegar hún hringdi ekki til baka keyrði kærastinn að heimili hennar. Angela kom ekki til dyra þegar hann bankaði og því hringdi hann í lögregluna. Lögreglan mætti á vettvang klukkan 2.17 og braut niður hurðina. Við blasti lík Angelu.

Angela var hrókur alls fagnaðar.

Lengi vel grunaði lögreglu að vinur Angelu, sem hún hafði farið með á hátíðina, væri sá seki. Einnig var kærastinn grunaður um verknaðinn. Ekkert rak né gekk hins vegar í rannsókn lögreglu og var málið óleyst allt fram til ársins 2008.

Tók málin í sínar hendur

Það má segja að réttarhöldin yfir O.J. Simpson um miðjan tíunda áratug síðustu aldar hafi blásið lífi í mál Angelu, svona óbeint allavega. Þar kemur vinkonan Sheila aftur inn í málið. Hún fylgdist vel með réttarhöldunum yfir O.J. sem var sakaður um að koma fyrrverandi kærustu sinni og elskhuga hennar fyrir kattarnef. Í því máli spiluðu DNA-sýni stórt hlutverk og þá kviknaði á ljósaperu í huga Sheilu. Það voru vissulega til DNA-sýni síðan Angela var myrt; blóðsýni, sæði og sýni sem tekin voru undan nöglum Angelu.

Sheila ákvað því að berjast fyrir því að finna morðingja vinkonu sinnar. Hún þrýsti ítrekað á lögregluna að opna málið aftur og rannsaka þessi DNA-sýni. Lögreglan lét það sem vind um eyru þjóta. Við það tvíelfdist Sheila. Hún tók málin í sínar eigin hendur, lærði að verða einkaspæjari og fékk réttindi sem slíkur. Með þau réttindi að vopni þurfti lögreglan að hlusta á hana og hún fékk sínu framgengt.

„Ég er mjög forvitin manneskja þannig að ég hugsaði: Hver gerði þetta? Hvernig gerði hann það? Við þurfum að ná þessari manneskju. Hún verður að gjalda fyrir þetta,“ skrifar Sheila í pistli á BBC sem birtist árið 2018.

Lögreglan hunsaði hana

Í þeirri grein segist Sheila hafa hringt í lögregluna sjö hundruð sinnum án árangurs vegna málsins. Höfnunin var hins vegar ekki verst.

„Það hræðilegast við að hringja í öll þessi skipti var að þau sögðu að engin manneskja hefði hringt út af þessu í öll þessi ár. Hugsið ykkur – ekki ein manneskja. Hvernig getur manneskja dáið á svo hrottafullan hátt og enginn hringir og vill vita af hverju og hver gerði það? Það grætir mig enn,“ skrifar Sheila og heldur áfram.

„Ég held að þau [lögreglan] hafi haldið að ég myndi bara hverfa – flestir venjulegir einstaklingar myndu bara hætta og halda áfram með lífið. En ég gerði það ekki. Það var eitthvað sem passaði ekki og ég tók ekki nei sem svar. Þannig að ég hélt áfram að hringja.“

Dæmdur til dauða

Þrautseigja Sheilu skilaði sér svo sannarlega. Þegar að lögreglan opnaði morðmálið kom í ljós að DNA sem fannst á vettvangi passaði við Donald Bess, dæmdan nauðgara. Hann var á reynslulausn á þeim tíma sem Angela var myrt. Ári eftir morðið á Angelu var Bess dæmdur í lífstíðarfangelsi vegna nauðgunar, mannráns og kynferðisbrots. Þegar að mál Angelu var tekið upp aftur og hann ákærður fyrir að myrða og nauðga henni stigu aðrar konur fram og sökuðu hann um nauðgun. Bess var sakfelldur og dæmdur til dauða. Hann hefur reynt að áfrýja án árangurs og dvelur nú á dauðadeildinni í Polunsky-fangelsinu í Texas. Ekki er búið að ákveða hvenær hann verður tekinn af lífi.

Donald Bess.

Sheila er enn þá starfandi sem einkaspæjari og er afar vinsæll sem slíkur. Öll vinna hennar var þess virði en breytti ekki lykilstaðreynd málsins.

„Ég var við réttarhöldin [yfir Bess] í þúsund kílómetra fjarlægð í Dallas til að sjá Angie fá réttlæti. Núna er hann ekki lengur á meðal fólks og mér finnst í lagi að hann rotni í fangelsi með dauðadóm á bakinu. En það breytir ekki neinu því hún er enn þá dáin.“