Forsetaframbjóðandinn Joe Biden birtir snarpa auglýsingu á Twitter-síðu sinni þar sem hann gerir stólpagrín að sitjandi forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, en Trump og Biden berjast um forsetastólinn í næstu kosningum í byrjun nóvember.

Í auglýsingunni, sem sjá má hér fyrir neðan, notar Biden gamalt myndbrot af Trump þar sem hann lýsir því yfir að Bandaríkin muni skara fram úr í hans valdatíð og segir meðal annars:

„Við eigum eftir að sigra svo oft að þið verðið þreytt á því að sigra.“

Undir þessum orðum birtist síðan línurit yfir staðfest tilfelli COVID-19 þar sem Bandaríkin tróna á toppnum og ekkert lát er á greiningu sjúkdómsins.

Trump hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir aðgerðir sínar, eða aðgerðarleysi, gegn heimsfaraldri COVID-19, en hann hefur látið hafa eftir sér að ástæðan fyrir því að svo mörg tilfelli greinist í Bandaríkjunum sé vegna þess að skimun fyrir kórónuveirunni þar í landi sé sú besta í heimi.

Síðustu daga hafa um fimmtíu þúsund manns greinst með kórónuveiruna á degi hverjum í Bandaríkjunum en þegar þetta er skrifað hafa tæplega þrjár milljónir manna greinst með vírusinn vestan hafs og hátt í 130 þúsund manns látið lífið samkvæmt tölum frá Johns Hopkins.